Færsluflokkur: Dægurmál

Styrkir til starfsemi atvinnuleikhópa 2009

Auglýst er eftir umsóknum um styrki á árinu 2009 til starfsemi atvinnuleikhópa er ekki hafa sérgreinda fjárveitingu á fjárlögum.
Umsóknir gætu miðast við einstök verkefni eða samfellt starf til lengri tíma og verður afstaða tekin til skiptingar fjárins eftir eðli umsóknanna og eftir því sem fé á fjárlögum 2009 í þessu skyni kann að segja til um.
Umsóknir skulu berast til menntamálaráðuneytis, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík, fyrir kl. 16:00 fimmtudaginn 2. október 2008, á eyðublöðum sem þar fást. Eyðublöðin er einnig að finna á vef ráðuneytisins, menntamalaraduneyti.is

Umsóknarfrestur er til 2. október 2008.


Hér og Nú í Finnlandi

Leikhópurinn Sokkabandið er núna staddur í Tampere, Finnlandi, þar sem hann mun sýna söngleikinn “Hér & Nú” á leiklistarhátíðinni í Tampere sem er í fullum gangi þessa dagana. Forseti Finnlands, Tarja Halonen, setti hátíðina s.l. þriðjudag við fjölmenna opnunarathöfn í hjarta borgarinnar, en mikill fjöldi finna sem og annarra gesta víðsvegar að úr heiminum sækja hátíðina heim á hverju ári. Helmingur leikhópsins kom til Tampere á mánudag, þar á meðal Jón Páll Eyjólfsson leikstjóri sýningarinnar og Arndís Hrönn Egilsdóttir, leikkona og einn af framleiðendum sýningarinnar.

“Það er búið að taka svo vel á móti okkur,” segir Arndís Hrönn þegar blaðamaður náði tali af henni. “Þetta er virkilega fín hátíð og það er gaman hvað hún er samþjöppuð og mikið um að vera. Mikið að skemmtilegum andlitum. Það virðist vera mikil eftirvænting, fólk er spennt og svolítið forvitið um sýninguna okkar. Þetta er gaman og það er heiður að vera á þessari hátíð. Það er líka gaman að sjá hvað er að gerast í skandínavísku leikhúsi og maður hittir fullt af skemmtilegu fólki. Við erum t.d. á hóteli með franska hópnum sem kom til Íslands á Lókal, Vivarium Studio, og það var gaman að hitta þau aftur. Svo er bara svo gaman og hollt að hitta sviðslistafólk frá öðrum löndum sem er í svipuðum pælingum og maður sjálfur.”

Hér & Nú er hluti af aðaldagskrá hátíðarinnar, þar sem gestaleikhópar frá m.a. Líbanon, Frakklandi, Lettlandi, Eistlandi, Svíþjóð, Danmörku og Færeyjum taka þátt að þessu sinni. Hér & Nú verður sýnt í Kómedíuleikhúsinu í Tampere og er sýnt bæði föstudag og laugardag.

Draumar í Gvendabrunnum

Draumar er nýtt frumsamið tón- og dansverk eftir þau Einar Braga Bragason tónlistarmann og Irmu Gunnarsdóttur danshöfund. Efniviður verksins er unnin útfrá hugmyndum um drauma og huldufólk en einnig útfrá samspili draumaheimsins við raunveruleikann og tengsl þess alls við íslenska náttúru. Umgjörð verksins spilar stóran þátt í verkinu.

Verkið verður flutt við vatnsból Reykvíkinga, nánar tiltekið í Gvendabrunnum í Heiðmörk föstudagskvöldið 22.ágúst næstkomandi og er viðburðurinn einskonar „forréttur“ að hlaðborði menningarnætur. Mæting er kl.20:00 við hlið Gvendabrunna( við Rauðhóla), rétt við borgarmörkin.

Miðasala er á www.miði.is og við innganginn. Miðaverð er einungis 1000 kr.

Brynja Benediktsdóttir, minning

Brynja Benediktsdóttir var ein þeirra sem ruddi brautina
fyrir starfsemi sjálfstæðra leikhúsa á Íslandi. Hún var
skapandi listamaður sem lét verkin tala, skrifaði leikrit,
leikstýrði þeim og ferðaðist síðan með þau um allan heim.
Brynja sýndi öðrum fram á að það er hægt að reka eigin
leikhóp og að áhugi á íslenskri leiklist gætir víða um
heim. Árið 1961 stofnaði Brynja ásamt örðum leikfélagið
Grímu sem lagði áherslu á íslensk leikverk. Hún lét þó ekki
þar við sitja heldur rak allt til síðasta dags eigin
leikhóp sem ferðaðist um heiminn með leikverk sitt um
Ferðir Guðríðar. Að auki byggði hún og rak ásamt eiginmanni
sínum, Erlingi Gíslasyni, vinnustofu leikara í
Skemmtihúsinu við Laufásveg.

Síðast leikverk hennar fjallaði um hina víðförlu Guðríði
Þorbjarnardóttur úr Íslendingasögunum. Að sama skapi má
segja að Brynja hafi verið víðförul með leikverk sín. Hún
fór á hátíðir víða um heim með leikverk sitt um fyrrnefnda
Guðríði, meðal annars til Kolumbíu og Rómar, eins hafði hún
á áttunda áratugnum ferðast um heiminn með leikverkið Inúk.
Með þessum leikferðum vann Brynja óeigngjarnt starf í þágu
útrásar og kynningar íslenskrar leiklistar á erlendri
grundu.

Brynja var virkur félagi í starfi SL. Hún var fulltrúi SL í
aðalvalnefnd Grímunnar á síðasta leikári og í fyrra
veittist stjórn SL sú ánægja að ferðast með Brynju til
Ítalíu á fund nýstofnaðra samtaka sjálfstæðra leikhúsa í
Evrópu. Á fundinum var Brynja ekki aðeins ótæmandi brunnur
fróðleiks og reynslu af ferðum sínum og reynslu af rekstri
sjálfstæðra leikhópa undanfarna áratugi heldur líka frábær
ferðafélagi sem ánægjulegt var að umgangast.

Þeir sem starfa í þessu umhverfi eiga henni margt að þakka
fyrir merkilegt framlag til íslensks leikhúss og íslenskrar
leikritunar.

Stjórn SL vottar aðstandendum Brynju sína dýpstu samúð.

Aðalfundur SL

SL lógó

Aðalfundur SL verður haldin mánudaginn 26. maí á Lindargötu 6 kl. 16.30

 

Dagskrá:

1.       Skýrsla stjórnar
2.       Reikningar bandalagsins
3.       Lagabreytingar
4.       Kosning stjórnar og formanns
5.       Ákvörðun félagsgjalds
6.       Önnur mál

Stjórn SL


Vorfyrirlestur um höfunda leikhússins

Leiklistarsamband Íslands og Leiklistardeild Listaháskóla Íslandskynna: Vorfyrirlestur um Höfunda leikhússins með  Charlotte Böving, leiklistarkonu &Jóni Atla Jónasson, leikskáldi mánudaginn 21.apríl kl.20Kaffi Sólon, Bankastræti 7a, 2. hæð  Höfundurinn er flókið fyrirbæri þegar kemur að leikhúsi. Leikskáldið sat lengi vel eitt að þeim heiðri að teljast höfundur sviðsins og í enn dag kynna leikhúsin verkefni undir heiti leikskáldsins. Á tuttugustu öld óx hins vegar leikstjóranum fiskur um hrygg og gerði harða atlögu að veldissprota leikskáldsins. Á undanförnum áratugum hafa síðan margir leikhúslistamenn og -hópar farið þá leið að útiloka leikskáldið (og textann sjálfan að miklu leyti) og jafnvel hafnað hugmyndinni um leikstjóra sömuleiðis. Í ljósi þeirra fjölbreyttu leiða sem til eru til að semja leiksýningu er þarft að spyrja um stöðu, hlutverk og eiginleika höfundarins í leikhúsi samtímans.   Vorfyrirlestrarnir taka á hlutverki, aðferðum og fagurfræði sviðslistanna og eru öllum opnir, jafnt fagfólki sem áhugafólki um sviðslistir.  

Skemmtiatriði á 17. júní

Auglýst er eftir skemmti- og sýningaratriðum fyrir þjóðhátíðarskemmtun í Reykjavík. Dagskráin fer fram í miðborg Reykjavíkur og stendur hún frá morgni til kvölds. Gert er ráð fyrir barna og fjölskylduskemmtunum á sviðum, tónleikum, leiktækjum og ýmsum sýningum og götuuppákomum. Auk hefðbundinna skemmtiatriða er áhugi á hópatriðum og sýningum og er leitað að leik-, tónlistar-, dans- og öðrum listhópum til að troða upp á útisviðum og á götunni. Einnig er óskað eftir hópum, félagasamtökum og öðrum sem vilja standa fyrir eigin dagskrá á sviðum eða í samkomutjöldum í samráði við þjóðhátíðarnefnd. Umsóknir um flutning atriða, uppákomur og viðburði er hægt að fylla út á vefnum www.17juni.is en einnig er hægt að skila þeim í Hitt Húsið, Pósthússtræti 3-5, 101 Reykjavík, á eyðublöðum sem þar fást.

Umsóknarfrestur rennur út þriðjudaginn 6. maí.


Straumar og stefnur í aðferðafræði leikstjórans og listamannaspjall

Leiklistarsamband Íslands og Leiklistardeild Listaháskóla Íslands

Vorfyrirlestur um: Strauma og stefnur í aðferðafræði leikstjórans með Rúnari Guðbrandssyni og Listamannaspjall með Rafael Bianciotto mánudaginn 14.apríl kl.20 á Kaffi Sólon, Bankastræti 7a, 2. hæð

Rúnar Guðbrandsson mun ræða mismunandi hugmyndir um hlutverk og aðferðafræði leikstjórans í gegnum söguna. Hann fer í gegnum strauma og stefnur sem hafa haft mótandi áhrif á leikhús vesturlanda og veltir fyrir sér stöðu leikstjórans í íslensku leikhúsi. Hann hefur boðið með sér nokkrum sviðslistamönnum sem munu tala um kynni sín af ólíkum leikstjórnar-aðferðum.

Rafael Bianciotto mun ræða um starf sitt og list og vinnu sína með trúðatæknina. Rafael fæddist í Argentínu en býr og starfar í París. Hann lagði stund á nám við l'Institut d'Etudes Théâtrales í París. Hann hefur kennt trúðatækni og grímuvinnu beggja vegna Atlanshafsins og sett upp trúðasýningar fyrir fullorðna við góðan orðstír í Frakklandi og víðar. Rafael er listrænn stjórnandi Zefiro leikhússins í París (http://zefiro.free.fr/) og heldur úti metnaðarfullri starfsemi með þeim. Hann hefur kennt trúðatækni við leiklistardeild Listaháskólans til margra ára. Hann er nú á Íslandi við leikstjórn á trúðaleiknum Dauðasyndirnar 7 sem verður frumsýndur í maí á Litla sviði Borgarleikhússins.

Mánudaginn 21.apríl munu Aino Freyja Järvele velta upp ögrandi spurningum um starf sjálfstæðra leikhópa.

Talía - loftbrú

Til að geta fengið úthlutun úr Talíu þurfa umsækjendur að vera fullgildir félagar í FÍL, FLÍ eða FLH og leggja fram tilskilin gögn er staðfesti boð um þátttöku í leiklistarviðburði erlendis.  Talía – Loftbrú er samstarfssamningur milli Reykjavíkurborgar, Icelandair, Glitnis, Félags íslenskra leikara( FÍL ), Félags leikstjóra á Íslandi ( FLÍ ) og Félags leikskálda og handritshöfunda ( FLH) um Talíu – Loftbrú Reykjavíkur til þess að styðja við bakið á framsæknum leikurum, dönsurum, söngvurum, leikmynda- og búningahöfundum, leikstjórum og leikskáldum sem hefur verið boðið að sýna list sína á erlendri grund.Talía - Loftbrú er liður í því að gera Reykjavíkurborg að vettvangi alþjóðlegra listastrauma og að liðka fyrir samskiptum sviðslistamanna milli Reykjavíkur og umheimsins.

Styrkir eru veittir í formi flugmiða til áfangastaða Icelandair í Evrópu eða Ameríku og yfirvigtar auk peningaupphæðar sem nemur að hámarki kr. 12.500 fyrir hvern þátttakanda.  Umsóknum skal fylgja ítarleg og greinargóð lýsing á verkefninu, upplýsingar um sýningu, sýningarstað eða annað það sem við á hverju sinni.  Einnig skal fylgja staðfestingábyrgðarmanns verkefnisins í því landi sem það fer fram.  Dagsetningar verkefnisins verða að koma fram.  Sjóðurinn er ætlaður sjálfstætt starfandi listamönnum og styrkir ekki verkefni sem framleidd eru og styrkt verulega af opinberum aðilum.  Styrkþegar undirgangast skuldbindingar gagnvart sjóðunum samkvæmt sérstökum samningum sem gerðir verða í kjölfar úthlutunar og kveður m.a. á um að styrkþegum beri að skila stuttri greinargerð um notkun styrksins.  Mikilvægt er að hafa umsóknina vandaða, skýra og hnitmiðaða.  Ef sótt er um styrk fyrir fleira en eitt verkefni, skal fylla út sér eyðublað fyrir hvert verkefni fyrir sig.  Styrkþegar fá staðfestingu á úthlutun, sem gildir í 3 mánuði frá áætlaðri brottför. Hafi styrkþegi ekki gengið frá bókun farseðla innan þess tíma fellur úthlutunin niður.

Umsóknareyðublöð, stofnskrár og reglur um úthlutun er að finna á heimasíðum www.fil.is  www.leikstjorar.is og www.leikskald.is  Nánari upplýsingar um Talíu eru einnig veittar á skrifstofu FÍL s. 552-6040 fil@fil.is

Umsóknum skal skilað til skrifstofu FÍL, Lindargötu 6, 101 Reykjavík.

Næsti umsóknarfrestur rennur út 30 apríl 2008.


Straumar og stefnur í aðferðafræði leikstjórans

Leiklistarsamband Íslands og Leiklistardeild Listaháskóla Íslands

kynna:

 

Vorfyrirlestur um

Strauma og stefnur í aðferðafræði leikstjórans

 

mánudaginn 7.apríl kl.20

Kaffi Sólon, Bankastræti 7a, 2. hæð

 

Rúnar Guðbrandsson mun ræða mismunandi hugmyndir um hlutverk og aðferðafræði leikstjórans í gegnum söguna. Hann  fer í gegnum strauma og stefnur sem hafa haft mótandi áhrif á leikhús vesturlanda og veltir fyrir sér stöðu leikstjórans í íslensku leikhúsi. Hann hefur boðið með sér nokkrum sviðslistamönnum sem munu tala um kynni sín af ólíkum leikstjórnaraðferðum.

  

Vorfyrirlestrarnir taka á hlutverki, aðferðum og fagurfræði sviðslistanna og eru öllum opnir, jafnt fagfólki sem áhugafólki um sviðslistir.  

 

Mánudaginn 14.apríl mun Rafael Bianciotto leikstjóri, sem nú vinnur að uppsetningu trúðasýningar fyrir fullorðna í Borgarleikhúsinu,  tala um vinnu sína, aðferðir og áherslur.

Mánudaginn 21.apríl munu Aino Freyja Järvele velta upp ögrandi spurningum um starf sjálfstæðra leikhópa.

 

Fyrirlestrarnir halda áfram fram eftir vori.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband