Brynja Benediktsdóttir, minning

Brynja Benediktsdóttir var ein þeirra sem ruddi brautina
fyrir starfsemi sjálfstæðra leikhúsa á Íslandi. Hún var
skapandi listamaður sem lét verkin tala, skrifaði leikrit,
leikstýrði þeim og ferðaðist síðan með þau um allan heim.
Brynja sýndi öðrum fram á að það er hægt að reka eigin
leikhóp og að áhugi á íslenskri leiklist gætir víða um
heim. Árið 1961 stofnaði Brynja ásamt örðum leikfélagið
Grímu sem lagði áherslu á íslensk leikverk. Hún lét þó ekki
þar við sitja heldur rak allt til síðasta dags eigin
leikhóp sem ferðaðist um heiminn með leikverk sitt um
Ferðir Guðríðar. Að auki byggði hún og rak ásamt eiginmanni
sínum, Erlingi Gíslasyni, vinnustofu leikara í
Skemmtihúsinu við Laufásveg.

Síðast leikverk hennar fjallaði um hina víðförlu Guðríði
Þorbjarnardóttur úr Íslendingasögunum. Að sama skapi má
segja að Brynja hafi verið víðförul með leikverk sín. Hún
fór á hátíðir víða um heim með leikverk sitt um fyrrnefnda
Guðríði, meðal annars til Kolumbíu og Rómar, eins hafði hún
á áttunda áratugnum ferðast um heiminn með leikverkið Inúk.
Með þessum leikferðum vann Brynja óeigngjarnt starf í þágu
útrásar og kynningar íslenskrar leiklistar á erlendri
grundu.

Brynja var virkur félagi í starfi SL. Hún var fulltrúi SL í
aðalvalnefnd Grímunnar á síðasta leikári og í fyrra
veittist stjórn SL sú ánægja að ferðast með Brynju til
Ítalíu á fund nýstofnaðra samtaka sjálfstæðra leikhúsa í
Evrópu. Á fundinum var Brynja ekki aðeins ótæmandi brunnur
fróðleiks og reynslu af ferðum sínum og reynslu af rekstri
sjálfstæðra leikhópa undanfarna áratugi heldur líka frábær
ferðafélagi sem ánægjulegt var að umgangast.

Þeir sem starfa í þessu umhverfi eiga henni margt að þakka
fyrir merkilegt framlag til íslensks leikhúss og íslenskrar
leikritunar.

Stjórn SL vottar aðstandendum Brynju sína dýpstu samúð.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband