Færsluflokkur: Dægurmál

Tilnefningar til Norrænu leikskáldaverðlaunanna 2008

Í ár verða Norrænu leikskáldaverðlaunin veitt í níunda skiptið.  Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn á Norrænu leiklistardögunum  sem haldnir verða í Tampere í Finnlandi en leiklistardagarnir eru haldnir í tengslum við árlega alþjóðlega leiklistarhátíð þar í borg 4.-10.ágúst. Norrænu leiklistardagarnir taka á sig form kynningar á norrænni leiklist þar sem fulltrúar þjóðanna munu standa að námskeiðum, leiklestrum, kynningum, fyrirlestrum og umræðum um norræna leiklist. Tilnefnd leikverk verða öll leiklesin á leiklistardögunum.

Norrænu leikskáldaverðlaunin eru veitt annað hvert ár af Norræna Leiklistarsambandinu (NTU). Sérleg fagnefnd hvers lands fyrir sig stendur að tilnefningu síns heimalands en það er í höndum stjórnar NTU að velja verðlaunahafann úr tilnefndum verkum.  Verðlaunin eru 5.000 evrur.

Tilnefningar til Norrænu leikskáldaverðlaunanna 2008 eru; frá Finnlandi Fundamentalisten eftir Juha Jokela, frá Danmörku Om et øjeblik eftir  Peter Asmussen, frá Svíþjóð, Valerie Jean Solanas ska bli president i Amerika eftir Söru Stridsberg auk Óhapps eftir Bjarna Jónssonar sem er fulltrúi Íslands. Engar tilnefningar bárust frá Noregi og Færeyjum í ár.


Ávarp Alþjóða leiklistardagsins, 27. mars 2008

Benedikt Erlingsson:

(Flytjandinn skal vera alvarlegur og ávarpa okkur af einurð og einlægni.)

 

Kæru leikhússgestir.

 

Í dag er Alþjóða leiklistardagurinn .

Þá eru haldnar ræður og gefin ávörp.

Þið áhorfendur góðir fáið ekki að njóta leiksýningarinnar fyrr en sá sem hér stendur hefur lokið þessu ávarpi.

(Dok)

Þetta er svona um allan heim í dag.

Þessvegna er dagurinn kallaður Alþjóða leiklistardagurinn.

(Dok) 

Þessar ræður fjalla yfirleitt um getu leiklistarinnar til að stuðla að skilningi og friði þjóða í milli eða upphaf og tilgang sviðs listarinnar  í sögulegu ljósi og svona ræður hafa verið haldnar við upphaf leiksýninga á þessum degi síðan 1962 eða í 46 ár.

 

(þögn, nýr tónn.)

 

Samt er það svo að leiklistinni sem framin verður hér í kvöld er engin greiði gerður með þessu ávarpi.

(Stutt dok)

Höfundar sýningarinnar: Skáldið, leikstjórinn, leikhópurinn og  samverkamenn þeirra, gerðu ekki ráð fyrir svona ávarpi í upphafi leiks.

Þessi ræða er ekki partur af hinu ósýnilega samkomulagi sem reynt verður að gera við ykkur eftir andartak.

(Dok)

Leikararnir standa nú að tjaldabaki um allan heim í kvöld og bíða þess pirraðir að þessum ræðum ljúki og leikurinn megi hefjast. Þetta ávarp er ekki að hjálpa þeim.

(Dok)

Og svo eru það þið áhorfendur góðir.  Fæst ykkar áttuð von á þessari truflun. Ávarp vegna Alþjóða leiklistardagsins! Eitthvað sem þið vissuð ekki að væri til! Kannski setur þetta tal ykkur úr stuði og þið verðið ekki mönnum sinnandi í langa stund og náið engu sambandi við sýninguna.

 

(þögn, nýr tónn)

 

En ef til vill mun leiksýningin, sem hér fer í gang eftir andartak, lifa af þetta ávarp.

Ef til vill mun þetta tal eins og annað tal á hátíðisdögum hverfa úr huga ykkar undrafljótt.

Kannski mun leiklistin “lifa af ” Alþjóða leiklistardaginn og hrista hann af sér eins og svo margt annað í gegnum tíðina.

Hún er nefnilega eldra fyrirbrigði en Alþjóða leiklistardagurinn,  eins og sjálfsagt verður tíundað í ávörpum um allan heim í kvöld.

(Dok)

Sumir halda að hún eigi upphaf sitt í skuggaleik frummanna við varðeldanna í grárri forneskju.

Aðrir tengja upphafið við fyrstu trúarathafnir mannsins eða jafnvel fæðingu tungumálsins.

Samt er það svo, að þegar maður horfir á flug tveggja hrafna sem snúa sér á hvolf og fetta sig og bretta í hermileik háloftanna og að því er virðist  skellihlæja að leikaraskapnum, þá er ekki laust við að læðist að manni sá grunur að þessi göfuga list tilheyrir ekki okkur einum og upphaf hennar sé dýpra en… “við”.

Tilheyri kannski alveg eins fiskunum í sjónum.

 

(þögn, nýr tónn)

 

Þetta var heimspekilegi kafli þessa ávarps. Hér  fenguð þið það sem til var ætlast, nokkur orð um upphaf og eðli leiklistarinnar.

Ég vona að þessi orð muni stuðla að skilningi og friði þjóða í milli.

(Dok)

Kæru áhorfendur. Nú mun þetta tal taka enda og sá sem hér stendur mun þagna  svo átökin á sviðinu geti hafist.

Þeirra vegna erum við jú hér.

Þessu ávarpi er lokið.

Takk fyrir.

 

            (Ræðumaður hneigir sig og dregur sig í hlé án þess að brosa.)

 

            Leiðbeiningar:

            Dok =1-1,5sek.

            Þögn = 2 til 3sek

            Ef flytjandinn er lítt undirbúinn og því bundinn við blaðið þá ætti hann einungis að líta upp og á horfa á áhorfendur í dokum og þögnum.

            Nýr tónn= frjáls og fer eftir innsæi og smekk flytjandi hvort og hvernig.



Leiksýningar, leikárið 2006-2007

Samanlögð áætluð aðsókn að sýningum leikhúsa, atvinnuleikhópa og áhugaleikfélaga innanlands á leikárinu 2006–2007 nam laust innan við 440.000. Þessi fjöldi samsvarar því að hver landsmaður sæki leikhús 1,4 sinnum á ári. Leikuppfærslur voru samtals 247 talsins og heildarfjöldi sýninga rétt um 2.800.

Áætlaður heildarfjöldi gesta leikhúsa, leikhópa og félaga á leikárunum 2000/2001 til 2006/2007 er sýndur á meðfylgjandi mynd. Tekið skal fram að inni í tölum um aðsókn eru gestir á sýningar í skólum og á innlendar og erlendar gestasýningar. Uppfærslur nemenda eru undanskildar. Frá leikárinu 2000/2001 að telja og til loka síðasta leikárs fjölgaði gestum um tæplega 48.000, eða um 12 af hundraði. Heildarfjöldi leiksýningargesta á síðasta leikári nam nærri 30 prósentum af heildaraðsókn kvikmyndahúsanna árið 2006.

Leikhús
Á síðasta leikári voru starfrækt sjö atvinnuleikhús með aðstöðu í sex leikhúsum. Á vegum þeirra voru 13 leiksvið með um 3,000 sætum. Leikhúsin settu 95 uppfærslur á svið hér innanlands; þar af voru leikrit flest, eða 63 talsins. Samanlagður fjöldi sýninga var 1.224. Uppfærslur með verkum eftir íslenska höfunda voru 37, en eftir erlenda 51. Uppfærslur með verkum eftir innlenda og erlenda höfunda voru sjö. Leikhúsgestir voru samtals 259.038, að meðtöldum samstarfsverkefnum og gestasýningum. Sýningargestum fækkaði lítillega frá fyrra leikári, eða um nærri 3.000.

Atvinnuleikhópar
Atvinnuleikhópum hefur fjölgað talsvert undanfarin ár, eða úr 22 leikárið 2000/2001 í 38. Uppfærslum á þeirra vegum hefur fjölgað að sama skapi, en á síðasta leikári færðu atvinnuleikhópar upp á svið innanlands 79 verk samanborið við 30 á leikárinu 2000/2001. Leikrit og verk eftir innlenda höfunda eru uppistaðan í uppfærslum atvinnuleikhópa. Sýningar atvinnuleikhópa innanlands voru 1.357 að meðtöldum sýningum í samstarfi með leikhúsum og sýningum í skólum. Heildaraðsókn að þessum sýningum var 212.470. Sýningargestum atvinnuleikhópanna hefur fjölgað umtalsvert undangengin ár.

Áhugaleikfélög
Á næstliðnu leikári voru starfandi 40 áhugaleikfélög víðs vegar um landið. Uppfærslur á vegum félaganna voru á síðasta leikári 89, eða litlu fleiri en á leikárinu á undan. Tvær af hverjum þremur uppfærslum voru eftir innlenda höfunda. Fjölmargir einstaklingar koma að uppfærslum áhugaleikfélaga á ári hverju. Samanlagður fjöldi flytjenda á síðasta leikári var um 1.450 manns. Félögin sýndu 498 sinnum fyrir um  30.000 gesti.

Tölur Hagstofunnar um leiksýningar taka til leikhúsa, atvinnuleikhópa og áhugaleikfélaga. Tölur eru fengnar með góðfúslegu samþykki frá viðkomandi leikhúsum og leikhópum.

 

 


Upplýsingar eru fengnar á vef Hagstofunar: www.hagstofa.is

Hvað varð um Kaþarsis?

Leiklistarsamband Íslands og Leiklistardeild Listaháskóla Íslands

kynna:

Leiklistarþing

mánudaginn 31.mars kl.20

Kaffi Sólon, Bankastræti 7a, 2. hæð

Leiklistarþingið er hluti af vorfyrirlestraröð um sviðslistir sem hófst í byrjun mars og verður á dagskrá fram eftir vori.

Boðið verður upp á léttar veitingar.

Fjórir frummælendur munu velta fyrir sér hlutverki leikhússins í samtímanum og opnað verður fyrir almennar umræður.

Frummælendurnir eru þau Sveinn Einarsson, María Kristjánsdóttir, Jón Páll Eyjólfsson og Björk Jakobsdóttir og munu þau velta fyrir sér eftirfarandi spurningunni:

Hvað varð um Kaþarsis?

hugleiðingar um hlutverk leikhússins

Ef við tökum mark á kenningum Aristótelesar um kaþarsis, þá hreinsun sem áhorfendur gengu í gegnum andspænis örlögum hinna tragísku hetja, verður ekki um það villst að hlutverk leikhússins í Grikklandi til forna var samfélagslegt. En hvert er samfélagslegt hlutverk leikhússins í okkar samtíma? Hefur leikhúsið látið hreinsunarhlutverk sitt öðrum miðlum eftir? Er það aðeins hámenningarleg afþreying, ætlað þröngum hópi menningarlegrar elítu eða staður til að gleyma daglegu amstri eina og eina kvöldstund? Markmið hins hreinsandi kaþarsis var tvímælalaust að gera áhorfendur að betri manneskjum, en hvernig lítum við á það í dag? Felur það í sér að gera áhorfendur meðvitaða um stöðu sína innan samfélagsins, að fylla þá löngun til breytinga eða sætta þá við ríkjandi ástand? Þess vegna spyrjum við: Hvað varð um kaþarsis? Hvert er hlutverk leikhússins fyrir samfélagið?


Sjálfstæðir leikhópar í Borgarleikhúsinu

Samkvæmt samkomulagi Leikfélags Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar skal Leikfélag Reykjavíkur "tryggja hið minnsta tveimur öðrum leikflokkum afnot af húsnæði í Borgarleikhúsinu til æfinga og sýninga eins verkefnis á hverju ári. Leikflokkarnir skulu hafa endurgjaldslaus afnot af húsnæði en greiða útlagðan kostnað L.R. vegna vinnu þeirra í Borgarleikhúsinu."

Samkvæmt ofangreindu er hér með auglýst eftir umsóknum leikflokka vegna leikársins 2008/2009. Með umsókn skal senda greinargerð um verkefnið þar sem greint er skilmerkilega frá verkefninu, aðstandendum þess, framkvæmdaaðilum, listrænum stjórnendum og þátttakendum öllum ásamt vandaðri fjárhagsáætlun. Umsóknir berist leikhússtjóra Borgarleikhússins / LR, merkt “samstarf”, Listabraut 3, 103 Reykjavík eigi síðar en miðvikudaginn 19. mars 2008. Einnig er hægt að senda inn umsókn með tölvupósti, merktum Samstarf”,  á borgarleikhus@borgarleikhus.is


Tanzplan Deutschland – heildstæða menningar- og menntastefnu í listdansi

Leiklistardeild Listaháskóla Íslands og Leiklistarsamband Íslands 
í samstarfi við Félag Íslenskra Listdansara

kynna:
Tanzplan Deutschland – heildstæða menningar- og menntastefnu í listdansi

í
Málstofu á Kaffi Sólon, Bankastræti 7a, 2. hæð
Miðvikudaginn 12. mars  kl. 20-22


 Framsögumaður í málstofu er Ingo Diehl en hann er einn stjórnenda Tanzplan Deutschland

Tanzplan Deutschland 
er verkefni sem stofnað hefur verið til af Kulturstiftung des Bundes (German Federal Cultural Foundation) og hefur það að markmiði að hafa frumkvæði að og þróa nýjar hugmyndir innan listdansins fram til ársins 2010. 
Tanzplan Deutschland
stuðlar að stefnumóti danslistamanna, kennara og stjórnmálamanna  á öllum stigum stjórnsýslunnar sem og fræðimanna og félagasamtaka.  Það stofnar til tengsla og stuðlar að virkri og frjórri samvinnu til framtíðar milli þessara aðila. 
Tanzsplan Deutschland
er bandalag fagfólks innan listdansins, almennings og þeirra stjórnmálamanna sem ábyrgir eru fyrir menningar- og menntamálum borga, sveita og landsins í heild sinni. 
Tanzsplan Deutschland
stuðlar að þróun listrænna hugmynda og menningarstefnu á breiðum félagslegum grunni.


Að erindinu loknu verða pallborðsumræður og eru gestir hvattir til að líta á fundinn sem vettvang fyrir umræður og stefnumótun. 



Vorfyrirlestrar- leiklistardeildar Listaháskóla Íslands og leiklistarsambandsins

Leiklistardeild LHÍ og leiklistarsambandið hrinda næstkomandi mánudag úr vör fyrirlestraröð um sviðslistir. Tvö fyrirlestrakvöld eru á dagskránni nú fyrir páska en eftir páska er stefnan að halda úti vikulegum fyrirlestrarkvöldum fram í maí. Fyrirlestrarnir taka á hlutverki, aðferðum og fagurfræði sviðslistanna og eru öllum opnir, jafnt fagfólki sem áhugafólki um sviðslistir.

 

Fyrsta fyrirlestrakvöldið verður haldið mánudagskvöldið 3. mars kl. 21 á Kaffi Sólon 2.hæð.

Yfirskrift kvöldsins er ,,Hin nauðsynlega enduruppgötvun hjólsins" og hafa nokkrir nemenda leiklistardeildar LHÍ veg og vanda að skipulagningu kvöldsins. Varpað verður upp grundvallarspurningum um hlutverk listamannsins og möguleika nýjunga:

Öðru hverju verðum við sem listamenn að staldra við og velta fyrir okkur:

Afhverju erum við að þessu öllu saman?

Er leiklistin stöðnuð eða einfaldlegabúin að renna sitt skeið?

Af hverju gerum við ekki eitthvað skemmtilegt?

Við erum hin nýju, þeir sem þurfa að spenna sig fremst á vagninn og leiða nýsköpunina samfara allri þeirri pressu sem því fylgir. Getum við gert eitthvað nýtt?

Er ekki löngu búið að finna upp hjólið?

Við skulum velta upp þeirri spurningu og athuga hvað sé til ráða.?

 

Miðvikudagskvöldið 12. mars mun síðan Ingo Diehl frá Tanzplan Deutschland fjalla um dansmenntun. Nánar verður sagt frá því síðar.

 

LÓKAL, alþjóðleg leiklistarhátíð

Tjarnarbíó

LÓKAL, alþjóðleg leiklistarhátíð – sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi – verður haldin dagana 5. – 9. mars nk. Markmiðið með hátíðinni er að kynna Íslendingum samtímaleikhús frá Evrópu og Bandaríkjunum og tefla um leið fram nýjum verkum íslensks leikhúsfólks. Í fyrstu atrennu verður boðið upp á alls sjö leiksýningar.

Tvær sýningar á vegum aðildarfélaga SL eru á hátíðinni; Hér og Nú! og Óþlló, Desdemóna og Jagó.  Lokapunktur hátíðarinnar verður í Tjarnarbíó sunnudaginn 9. mars  klukkan 22:00 en þá sýna þau ERNA ÓMARSDÓTTIR og LIEVEN DOUSSELARE verkið The Talking Tree. Erna er einn fremsti og virtasti leikhúslistamaður Íslendinga, hefur farið víða um heim með sólóverkefni sín og hlotið frábæra dóma og viðtökur áhorfenda.

Áhorfendum er sérstaklega bent á að umræður verða eftir fyrstu sýningu á öllum verkum erlendu leikhópanna, með þátttöku þeirra.  Einnig verða umræður eftir íslensku sýningarnar.

Nánari upplýsingar á www.lokal.is


Hér & Nú og Óþelló, Desdemóna og Jagó á LÓKAL - alþjóðlegu leiklistarhátíðinni í Reykjavík

Sokkabandinu  og Draumasmiðjunni hefur verið boðið að sýna Hér & Nú og Óþelló, Desdemóna og Jagó á LÓKAL, sem er alþjóðleg leiklistarhátíð sem haldin verður í fyrsta skipti hér í Reykjavík í byrjun mars 2008. Þetta er mikill heiður þar sem aðeins einni annari íslenskri sýningu var boðið að taka þátt. Erlendu sýningarnar eru ýmist frá Bandaríkjunum, Frakklandi og Belgíu.

Hátíðin stendur yfir dagana 6. - 9. mars og verður Hér & Nú sýnd á sunnudeginum 9. mars kl. 15:00. en Óþelló, Desdemóna og Jagó verða föstudaginn 7. mars kl. 20  Sýningarstaðurinn er sá sami, þ.e. á litla sviði Borgarleikhússins.

Það er hægt að kaupa miða bæði á www.borgarleikhus.is og á www.midi.is  eða í síma 568 8000
en nánari upplýsingar um hátíðina í heild sinni er hægt að nálgast á www.lokal.is.

 

 


Opið fyrir umsóknir 2008!


Miðvikudaginn 30. janúar var opnað fyrir umsóknir hjá Kulturkontakt Nord (Nordic Culture Point). Opið er fyrir umsóknir í sjóðunum Ferðastyrkir og listir og menning.

Óskað er eftir umsóknum:
Module for Mobility Funding
Module for activities aimed at production and communication
Module for capacity development, criticism and sharing of knowledge

Síðasti skilafrestur/ Mobility program: 20. febrúar 2008 til kl.
23:59 (CET)
Síðasti skilafrestur/ Art & Culture program: 5. mars 2008 til kl
23:59 (CET).

Sjá nánar á www.kknord.org

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband