Hér og Nú í Finnlandi

Leikhópurinn Sokkabandið er núna staddur í Tampere, Finnlandi, þar sem hann mun sýna söngleikinn “Hér & Nú” á leiklistarhátíðinni í Tampere sem er í fullum gangi þessa dagana. Forseti Finnlands, Tarja Halonen, setti hátíðina s.l. þriðjudag við fjölmenna opnunarathöfn í hjarta borgarinnar, en mikill fjöldi finna sem og annarra gesta víðsvegar að úr heiminum sækja hátíðina heim á hverju ári. Helmingur leikhópsins kom til Tampere á mánudag, þar á meðal Jón Páll Eyjólfsson leikstjóri sýningarinnar og Arndís Hrönn Egilsdóttir, leikkona og einn af framleiðendum sýningarinnar.

“Það er búið að taka svo vel á móti okkur,” segir Arndís Hrönn þegar blaðamaður náði tali af henni. “Þetta er virkilega fín hátíð og það er gaman hvað hún er samþjöppuð og mikið um að vera. Mikið að skemmtilegum andlitum. Það virðist vera mikil eftirvænting, fólk er spennt og svolítið forvitið um sýninguna okkar. Þetta er gaman og það er heiður að vera á þessari hátíð. Það er líka gaman að sjá hvað er að gerast í skandínavísku leikhúsi og maður hittir fullt af skemmtilegu fólki. Við erum t.d. á hóteli með franska hópnum sem kom til Íslands á Lókal, Vivarium Studio, og það var gaman að hitta þau aftur. Svo er bara svo gaman og hollt að hitta sviðslistafólk frá öðrum löndum sem er í svipuðum pælingum og maður sjálfur.”

Hér & Nú er hluti af aðaldagskrá hátíðarinnar, þar sem gestaleikhópar frá m.a. Líbanon, Frakklandi, Lettlandi, Eistlandi, Svíþjóð, Danmörku og Færeyjum taka þátt að þessu sinni. Hér & Nú verður sýnt í Kómedíuleikhúsinu í Tampere og er sýnt bæði föstudag og laugardag.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband