Færsluflokkur: Menning og listir

Dagskrá SL ´08 -´09

Dagskrá aðildarfélaga Sjálfstæðu leikhúsanna er fjölbreitt að vanda.  Alls verður boðið upp á 60 sýningar næsta vetur.  Stærstur hluti sýninganna eru íslensk verk ætluð börnum og ungu fólki en einnig verða á ferðinni danssýningar, ópera og hefðbundnar leiksýningar.  Tvær hátíðir verða haldnar á næsta leikári, Act alone á Ísafirði og Draumar – alþjóðleg döff leiklistarhátíð verður haldin í Reykjavík að þessu sinni en fyrsta hátíðinn var haldin á Akureyri fyrir tveimur árum.    Aðildarfélög SL hafa sent öllum heimilum landsins klippikort er veitir 1000 krónu afslátt af sýningum mánaðarins allan næsta vetur.  Með þessu vilja aðildarfélögin þakka þeim rúmlega 250 þúsund áhorfendum sem koma á hverju leikári að sjá sýningar þeirra ásamt því að hvetja hina til að mæta.   Hægt verður að nálgast upplýsingar um sýningar mánaðarins á www.leikhopar.is eða í dagblöðum 1sta hvers mánaðar.  Sýning mánaðarins í september verður Mamma mamma sem sýnd er í Hafnafjarðarleikhúsinu Hafnafjarðarleikhúsið mun bjóða upp á fimm leiksýningar í vetur.  Mamma mamma er tekin upp frá fyrra ári og sýnd út september. Tvær samstarfssýningar; Steinar í djúpinu og Húmanimal verða frumsýndar sitt hvoru megin við áramótin.  Ævintýrið um Augastein snýr aftur í desember og um vorið ætlar Hafnafjarðarleikhúsið að sýna Fjallið eftir Jón Atla Jónsson í leikstjórn Hilmars Jónssonar. Í Iðnó verður boðið upp á nýtt verk í haust eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachmann er nefnist Dansaðu við mig.  Systur eftir Ástrós Gunnarsdóttur, Láru Stefánsdóttur og Hrafnhildi Hagalín í uppsetningu Pars pro toto verður sýnt aftur eftir áramót. Draumasmiðjan mun vera í samstarfi við Þjóðleikhúsið næsta vetur en markmiðið er að koma á fót  döff-leikhúsi á Íslandi og mun starfseminn hafa aðsetur í Kúlunni.   Draumasmiðjan mun halda áfram að sýna farandýningar í grunn- og leikskólum samhliða því að undirbúa aðra alþjóðlega döff-leiklistarhátíð næsta vor. Vesturport verður á faraldsfæti allt næsta ár með Woyzeck og Hamskiptin.  Hafin er undirbúningaru að Faust en Gísli Örn Garðarsson vinnur að sýningunni með tónlistarmanninum Nick Cave.  Áætlað er að frumsýna verkið í Þýskalandi næsta vor.  Fleiri spennandi og tilraunakendar sýningar verða á fjölunum í vetur s.s. Ódauðlegt verk um samhengi hlutanna í uppsetningu Áhugaleikhúss atvinnumanna – Lykillinn með Margréti Vilhjálmsdóttur í fararbroddi setur upp ,,L“ en þar er á ferðinni bræðingur fjölda listamanna – Þóra Karítas mun leika Rachel Corrie í uppsetningu Imagýn í samstarfi við LR– leikhópurinn Láki tekst á við Óþelló í nýstárlegri nálgun  og Lýðveldisleikhúsið ætlar að ferðast um landið með Kinkí – Skemmtikraftinn að sunnan.    Barna- og unglingaleiksýningar eru stór hluti af starfsemi aðildarfélaga SL.  Alls verður boðið upp á 39 sýningar en þar af eru 6 nýjar frumsýningar.  Möguleikhúsið hefur selt húsnæðið sitt við Hlemm og er nú eingöngu rekið sem farandleikhús. Þau ætla að furmsýna eina nýja sýningu á næsta leikári: Alli Nalli og tunglið sem er byggð á sögum Vilborgar Dagbjartsdóttur.  Fígúra hefur frumsýnt Einar Áskel í samstarfi við Þjóðleikhúsið og Stopp leikhópurinn ætlar að frumsýna Bólu-Hjálmar í haust.  Einleikhúsið sýnir nýtt verk, Óskina í vetur og 540 gólf fer í útrás með forvarnarleikritið Hvað ef... til Bretlands.  Skoppa og Skrítla verða í Þjóðleikhúsinu og Kómedíuleikhúsið á Ísafirði verður með 6 sýningar á verkefnaskrá vetrarins og eina leiklistarhátíð; Act alone.  Auðunn og ísbjörninn verður frumssýnt á þeirra vegum í mars í Tjöruhúsinu á Ísafirði.  Einnig stefnir Kómedíleikúsið á að fara í leikferð til borgarinnar í kringum áramótin.  Sögusvuntan mun frumsýna nýja brúðusýningu á árinu Panov afi og Strengjaleikhúsið mun sýna Spor regnbogans í samtarfi við Tónlist fyrir alla.  Dannssýningar á vegum Pars pro toto og Panic productions verða á fjölunum í vetur ásamt því að óperan Hel eftir Sigurð Norðdal í uppsetningu Hr. Níels mun verða frumsýnd í maí.

Steinunn Ketilsdóttir vinnur til verðlauna í Kaupmannahöfn

Danssýningin Love always, Debbie and Susan eftir Steinunni Ketilsdóttur og
Brian Gerke vann til fyrstu verðlauna danskeppninnar Danssolutions í gær.
Verkið var valið í undanúrslit ásamt 16 öðrum úr hópi 50 umsókna. Eftir
spennandi úrslitakvöld fimm verka í gær bar íslenska verkið sigur úr
bítum.

Það er mikill heiður fyrir íslenskan danshöfund að fá viðurkenningu fyrir verk sitt frá baltneskum og norrænum þjóðum sem allar búa við öflugra atvinnuumhverfi í dansi en Íslendingar.

Steinunn Ketilsdóttir útskrifaðist með B.A. gráðu í dansi 2005 frá Hunter College í New York. Frá útskrift hefur hún unnið með ýmsum danshöfundum, auk þess sem hún hefur verið sjálfstætt starfandi á Íslandi. Steinunn er listrænn stjórnandi Reykjavík dansfestival auk þess sem hún er fagstjóri nútímadansbrautar Listdansskóla Íslands.

Umsóknir til Menningaráætlunar Evrópusambandsins.

Menningaráætlun Evrópusambandsins veitir styrki til verkefna í öllum listgreinum og á sviði menningararfleifðar auk þess að styrkja starfsemi evrópskra tengslaneta og menningarstofnana. Áætluninni er ekki skipt milli menningarsviða. Samstarfsverkefni geta verið innan einnar listgreinar eða menningarsviðs, s.s. leiklistar, tónlistar, myndlistar, menningararfs o.s.frv. eða verið þverfagleg í samstarfi ólíkra greina.

Hægt er að sækja um:
- Styttri samstarfsverkefni (Strand 1.2.1)
Meðal skilyrða er að verkefnið sé samstarfsverkefni a.m.k 3 landi og standi yfir í mesta 2 ár.Styrkfjárhæð 50 – 200 þúsund evrur.
Umsóknarfrestur 1. október

- Samstarf til lengri tíma (Strand 1.1.)
Meðal skilyrða er að verkefnið sé samstarfsverkefni a.m.k 6 landa og standi yfir í 3-5 ár. Styrkfjárhæð 200 – 500 þúsund evrur á ári.
Umsóknarfrestur 1. október.

Nánari upplýsingar og tengingar á umsóknareyðblöð ofl. eru á vefsíðu Upplýsingaþjónustu Menningaráætlunar ESB www.evropumenning.is

Umsókn um styrk úr borgarsjóði

Reykjavíkurborg veitir ár hvert félagasamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum styrki til starfsemi og þjónustu sem fellur að hlutverki sveitarfélagsins eða telst á annan hátt í samræmi við stefnumörkun, áherslur og forgangsröðun borgaryfirvalda.

Styrkirnir eru ætlaðir viðburðum eða verkefnum sem koma til framkvæmda á næsta ári.

Viðburðir eða verkefni eru ekki styrkt eftir á. Styrkveiting felur ekki í sér fyrirheit um frekari skuldbindingar af hálfu Reykjavíkurborgar nema gerður sé sérstakur samningur þess efnis.

Umsókn skal berast eigi síðar en 1. október 2008. Einungis eru teknar til greina umsóknir sem berast innan tilskilins frests og uppfylla þær kröfur sem reglur Reykjavíkurborgar kveða á um. Þeir aðilar sem fengi hafa styrk áður þurfa að skila inn greinargerð um ráðstöfnun þess fjár.

Maddid í Hafnarfjarðarleikhúsinu 5-6 Sept 2008

Einleikurinn Maddid eftir Maddid Theatre Company verður í Hafnarfjarðarleikhúsinu helgina 5-6 September kl 20:00

Leikfélagið Maddid Theatre Company, sem starfar aðallega í London, sýnir sviðslistasýninguna Maddid í Hafnarfjarðarleikhúsinu næstkomandi föstudags- og laugardagskvöld kl. 20:00.

Með hlutverk Maddidar fer leikkonan Vala Ómarsdóttir. Vala stofnaði leikfélagið ásamt leikhúsframleiðandanum Mari Rettedal fyrir rúmu ári en síðan þá hafa fleiri listamenn bæst í hópinn. Maddid Theatre Company er fjölþjóðlegur hópur með rætur á Íslandi. Að sýningunum standa listamenn frá fimm löndum, Íslandi, Noregi, Bretlandi, Spáni og Brasilíu.  Hefur verkið verið sýnt í leikhúsinu The Space í London á seinasta ári og á Kuiperfest listahátíðinni í Aragon á Spáni í júní sl. Maddid var sett upp á sviðslistahátíðinni artFart í nýliðnum mánuði og er leikhópurinn nýkominn úr vel heppnaðri sýningarferð til Vestmannaeyja.

Miðasala:
s 555 2222
www.midi.is
www.hhh.is
og við innganginn.


Starfslaun listamanna

 

Hér með eru auglýst til umsóknar starfslaun listamanna sem úthlutað verður árið 2009, í samræmi við ákvæði laga nr. 35/1991 með áorðnum breytingum.

 Starfslaunin eru veitt úr fjórum sjóðum, þ.e.:

  • 1.   Launasjóði rithöfunda
  • 2.   Launasjóði myndlistarmanna
  • 3.   Tónskáldasjóði
  • 4.   Listasjóði

Umsóknir einstaklinga, ásamt fylgigögnum, skulu berast Skrifstofu Stjórnar listamannalauna, Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík, á þar til gerðum eyðublöðum fyrir  kl. 17:00 fimmtudaginn 2. október 2008.  Ef umsókn er send í pósti gildir dagstimpill pósthúss.
Umsóknir skulu auðkenndar "Starfslaun listamanna 2009" og tilgreindur sá sjóður sem sótt er um laun til.

Heimilt er að veita starfslaun úr Listasjóði til stuðnings leikhópum enda verði þeim varið til greiðslu starfslauna til einstakra leikhúslistamanna. Umsóknir leikhópa til Listasjóðs fyrir einstaka leikhúslistamenn, ásamt fylgigögnum, skulu berast Skrifstofu Stjórnar listamannalauna, Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík, á þar til gerðum eyðublöðum fyrir  kl. 17.00 fimmtudaginn 2. október 2008.  Ef umsókn er send í pósti gildir póststimpill. Umsóknir skulu auðkenndar "Starfslaun listamanna 2009 - leikhópar".

Með umsókn skal fylgja greinargerð um verkefni það sem liggur til grundvallar umsókninni ásamt upplýsingum um hve langan starfstíma er sótt um og rökstuðningi fyrir tímalengd.  Jafnframt skulu fylgja upplýsingar um náms- og starfsferil, verðlaun og viðurkenningar. Þessir þættir  skulu  að  jafnaði  liggja  til  grundvallar  ákvörðun  um úthlutun starfslauna

Athugið að hafi umsækjandi áður hlotið starfslaun verður umsókn hans því aðeins tekin til umfjöllunar að hann hafi skilað Stjórn listamannalauna skýrslu um störf sín í samræmi við ákvæði 4. gr. laga um listamannalaun nr. 35/1991 með áorðnum breytingum.

Umsóknareyðublöð fást á vef Stjórnar listamannalauna www.listamannalaun.is og á  skrifstofu  stjórnarinnar  að  Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 2. hæð.

 

Umsóknarfrestur rennur út  fimmtudaginn 2. október 2008.

 

Stjórn listamannalauna 25. júlí 2008


Styrkir til starfsemi atvinnuleikhópa 2009

Auglýst er eftir umsóknum um styrki á árinu 2009 til starfsemi atvinnuleikhópa er ekki hafa sérgreinda fjárveitingu á fjárlögum.
Umsóknir gætu miðast við einstök verkefni eða samfellt starf til lengri tíma og verður afstaða tekin til skiptingar fjárins eftir eðli umsóknanna og eftir því sem fé á fjárlögum 2009 í þessu skyni kann að segja til um.
Umsóknir skulu berast til menntamálaráðuneytis, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík, fyrir kl. 16:00 fimmtudaginn 2. október 2008, á eyðublöðum sem þar fást. Eyðublöðin er einnig að finna á vef ráðuneytisins, menntamalaraduneyti.is

Umsóknarfrestur er til 2. október 2008.


Hér og Nú í Finnlandi

Leikhópurinn Sokkabandið er núna staddur í Tampere, Finnlandi, þar sem hann mun sýna söngleikinn “Hér & Nú” á leiklistarhátíðinni í Tampere sem er í fullum gangi þessa dagana. Forseti Finnlands, Tarja Halonen, setti hátíðina s.l. þriðjudag við fjölmenna opnunarathöfn í hjarta borgarinnar, en mikill fjöldi finna sem og annarra gesta víðsvegar að úr heiminum sækja hátíðina heim á hverju ári. Helmingur leikhópsins kom til Tampere á mánudag, þar á meðal Jón Páll Eyjólfsson leikstjóri sýningarinnar og Arndís Hrönn Egilsdóttir, leikkona og einn af framleiðendum sýningarinnar.

“Það er búið að taka svo vel á móti okkur,” segir Arndís Hrönn þegar blaðamaður náði tali af henni. “Þetta er virkilega fín hátíð og það er gaman hvað hún er samþjöppuð og mikið um að vera. Mikið að skemmtilegum andlitum. Það virðist vera mikil eftirvænting, fólk er spennt og svolítið forvitið um sýninguna okkar. Þetta er gaman og það er heiður að vera á þessari hátíð. Það er líka gaman að sjá hvað er að gerast í skandínavísku leikhúsi og maður hittir fullt af skemmtilegu fólki. Við erum t.d. á hóteli með franska hópnum sem kom til Íslands á Lókal, Vivarium Studio, og það var gaman að hitta þau aftur. Svo er bara svo gaman og hollt að hitta sviðslistafólk frá öðrum löndum sem er í svipuðum pælingum og maður sjálfur.”

Hér & Nú er hluti af aðaldagskrá hátíðarinnar, þar sem gestaleikhópar frá m.a. Líbanon, Frakklandi, Lettlandi, Eistlandi, Svíþjóð, Danmörku og Færeyjum taka þátt að þessu sinni. Hér & Nú verður sýnt í Kómedíuleikhúsinu í Tampere og er sýnt bæði föstudag og laugardag.

Draumar í Gvendabrunnum

Draumar er nýtt frumsamið tón- og dansverk eftir þau Einar Braga Bragason tónlistarmann og Irmu Gunnarsdóttur danshöfund. Efniviður verksins er unnin útfrá hugmyndum um drauma og huldufólk en einnig útfrá samspili draumaheimsins við raunveruleikann og tengsl þess alls við íslenska náttúru. Umgjörð verksins spilar stóran þátt í verkinu.

Verkið verður flutt við vatnsból Reykvíkinga, nánar tiltekið í Gvendabrunnum í Heiðmörk föstudagskvöldið 22.ágúst næstkomandi og er viðburðurinn einskonar „forréttur“ að hlaðborði menningarnætur. Mæting er kl.20:00 við hlið Gvendabrunna( við Rauðhóla), rétt við borgarmörkin.

Miðasala er á www.miði.is og við innganginn. Miðaverð er einungis 1000 kr.

Brynja Benediktsdóttir, minning

Brynja Benediktsdóttir var ein þeirra sem ruddi brautina
fyrir starfsemi sjálfstæðra leikhúsa á Íslandi. Hún var
skapandi listamaður sem lét verkin tala, skrifaði leikrit,
leikstýrði þeim og ferðaðist síðan með þau um allan heim.
Brynja sýndi öðrum fram á að það er hægt að reka eigin
leikhóp og að áhugi á íslenskri leiklist gætir víða um
heim. Árið 1961 stofnaði Brynja ásamt örðum leikfélagið
Grímu sem lagði áherslu á íslensk leikverk. Hún lét þó ekki
þar við sitja heldur rak allt til síðasta dags eigin
leikhóp sem ferðaðist um heiminn með leikverk sitt um
Ferðir Guðríðar. Að auki byggði hún og rak ásamt eiginmanni
sínum, Erlingi Gíslasyni, vinnustofu leikara í
Skemmtihúsinu við Laufásveg.

Síðast leikverk hennar fjallaði um hina víðförlu Guðríði
Þorbjarnardóttur úr Íslendingasögunum. Að sama skapi má
segja að Brynja hafi verið víðförul með leikverk sín. Hún
fór á hátíðir víða um heim með leikverk sitt um fyrrnefnda
Guðríði, meðal annars til Kolumbíu og Rómar, eins hafði hún
á áttunda áratugnum ferðast um heiminn með leikverkið Inúk.
Með þessum leikferðum vann Brynja óeigngjarnt starf í þágu
útrásar og kynningar íslenskrar leiklistar á erlendri
grundu.

Brynja var virkur félagi í starfi SL. Hún var fulltrúi SL í
aðalvalnefnd Grímunnar á síðasta leikári og í fyrra
veittist stjórn SL sú ánægja að ferðast með Brynju til
Ítalíu á fund nýstofnaðra samtaka sjálfstæðra leikhúsa í
Evrópu. Á fundinum var Brynja ekki aðeins ótæmandi brunnur
fróðleiks og reynslu af ferðum sínum og reynslu af rekstri
sjálfstæðra leikhópa undanfarna áratugi heldur líka frábær
ferðafélagi sem ánægjulegt var að umgangast.

Þeir sem starfa í þessu umhverfi eiga henni margt að þakka
fyrir merkilegt framlag til íslensks leikhúss og íslenskrar
leikritunar.

Stjórn SL vottar aðstandendum Brynju sína dýpstu samúð.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband