Færsluflokkur: Menntun og skóli

Leikhúsþing og leikhúsveisla í Tjarnarbíó 4. mars

 Leikhúsþingi mun fara fram þann 4. mars næstkomandi í Tjarnarbíói. Leikfélagið Hyski stendur fyrir viðburðnum en þetta er fyrsta verkefni hópsins.

Matur og málþing 12.00 – 13.30

Framsögumenn:

Matthieu Bellon Leikstjóri og listrænn stjórnandi Bred in the Bone, alþjóðlegs leikhóps með aðsetur í Englandi. Umfjöllunarefni: Hverjir eru helstu kostir þess og gallar að vinna í alþjóðlegu umhverfi?

Ragnheiður Skúladóttir Deildarforseti leiklistar- og dansdeildar LHÍ og framkvæmdarstjóri LÓKAL.

Umfjöllunarefni: Nauðsyn þess að íslenskir sviðslistamenn tengist hinu alþjóðlega umhverfi listanna.

Víkingur Kristjánsson Einn af stofnendum Vesturports, leikari, leikskáld og leikstjóri.

Umfjöllunarefni: Reynsla og áhrif alþjóðlegs leikhúsumhverfis á íslenskan leikhóp.

Að lokinni framsögu verður opið fyrir spurningar og almennar umræður

 

Umræðan fer fram á málþingi en þar verður rætt um alþjóðlegt leikhús og tengsl þess við íslenska leiklist. Um kvöldið verður boðið til leikhúsveislu þar sem sýnd verða verk eftir einstaklinga sem hafa lært eða/og unnið erlendis.

 

Leikhúsveisla

19.30 – 22.00

Just Here! dansskotið leikhúsverk eftir Snædísi Lilju Ingadóttur,

Leikarar: Hjörtur Jóhann Jónsson, Sandra Gísladóttir og Snædís Lilja Ingadóttir

Hetja Gamanleikur eftir Kára Viðarsson og Víking Kristjánsson

Leikari: Kári Viðarsson

Verkið hefur hlotið glimrandi dóma og verið sýnt í Landnámssetrinu Borgarnesi.

Smjörbrauðsjómfrúrnar Gamanspunnið Smjörbrauðsgerðarnámskeið eftir Árna Grétar Jóhannsson, Guðbjörgu Ásu Jóns-Huldudóttur og Tinnu Þorvalds Önnudóttur

Leikarar: Guðbjörg Ása Jóns-Huldudóttir og Tinna Þorvalds Önnudóttir.

Veislustjórar eru nemendur frá European Theatre Arts við Rose Bruford College.

Ljósahönnun: Friðþjófur Þorsteinsson

Framkvæmdastjóri: Stefanía Sigurðardóttir


Eru sjálfstæðir leikhópar á vetur setjandi?

Eftir Gunnar I. Gunnsteinsson: "Einnig gerir slíkur sveigjanleiki þeim kleift að bregðast við ógnum sem steðja að starfseminni og nýta tækifærin til fulls."

SÍÐASTA sumar skilaði undirritaður MA-ritgerð sinni í menningar- og menntastjórnun við Háskólann á Bifröst. Ritgerðin bar titilinn: Starfsgrundvöllur sjálfstæðra atvinnuleikhópa. Vegna efnahagsástandsins og boðaðs niðurskurðar í ríkisfjármálum ásamt því að stærstu fjölmiðlar landsins munu ekki gagnrýna allar sýningar sjálstæðra atvinnuleikhópa er rétt að rifja upp nokkur atriði er snúa að sjálfstæðum atvinnuleikhópum á Íslandi og byggja á rannsókninni.

 

Sveigjanleiki og fjármagn

Rannsóknin leiddi í ljós að sökum þess að starfsumhverfi sjálfstæðra atvinnuleikhópa er sveigjanlegt og án allrar yfirbyggingar skapar það þeim sérstöðu til að bregðast hratt við samfélagslegu áreiti og uppákomum, sem skilar sér í forvitni áhorfenda og aukinni aðsókn. Einnig gerir slíkur sveigjanleiki þeim kleift að bregðast við ógnum sem steðja að starfseminni og nýta tækifærin til fulls. Hið síbreytilega starfsumhverfi sjálfstæðra atvinnuleikhópa kallar á úthlutunarkefi sem tekur mið af þessum eiginleikum starfsins. Krafan um mælanleika menningar, sem síðar er notuð sem grundvöllur úthlutunar opinbers fjármagns til sviðslista, hefur því miður ekki nýst til stefnubreytinga á skiptingu fjármagnsins til sviðslista heldur hefur verið viðhaldið ákveðnu ástandi sem á rætur í stefnumörkun leiklistarlaga frá 1998. Enn hafa ekki borist fréttir úr menntamálaráðuneytinu um hvort fjármagn til sjálfstæðra sviðslistahópa verður skorið niður á næsta ári. Bandalag sjálfstæðra atvinnuleikhópa – SL hefur sýnt fram á að um 400 einstaklingar hafi atvinnu af starfsemi hópanna ár hvert. Í því ástandi sem nú er og í baráttunni við atvinnuleysið verður það að teljast undarlegt ef ráðamenn ákveða að höggva stórt í þá litlu köku sem sjálfstæðir atvinnuleikhópar hafa aðgang að.

 

Ný íslensk verk

Nú liggur það fyrir að stærstu fölmiðlar landsins ætla ekki að gagnrýna allar sýningar sjálfstæðra atvinnuleikhópa á næsta ári. Það veldur miklum vonbrigðum og vekur gamlar spurningar um flokkun á þeim sem eru inni og hina sem þurfa á hírast úti í kuldanum. Hvaða sjónarmið ráða slíkri flokkun? Uppistaðan í verkefnaskrá sjálfstæðra atvinnuleikhópa er frumsköpun. Slíkt hefur verulega þýðingu því hóparnir eru orðnir eins konar uppeldisstöð fyrir nýja leikara, dansara, leikstjóra, tónlistarmenn og leikskáld. Ef teknar eru saman tölur um úthlutun Leiklistarráðs af fjárlagaliðnum „Til starfsemi atvinnuleikhópa“ frá árunum 2004-2008 koma í ljós mjög áhugaverðar niðurstöður. Leiklistarráð leggur áherslu á að styrkja uppsetningar á nýjum íslenskum verkum. Barna- og danssýningar eru eingöngu ný íslensk verk og því er hlutur íslenskra verka um 78% af öllum þeim sem ráðið ákveður að styrkja á þessu tímabili. Erlend verk eiga ekki miklu brautargengi að fagna í þessum úthlutunum. Þau erlendu verk sem ganga í augun á ráðinu eru nýjar leikgerðir af klassískum verkum og því á ferðinni viss nýsköpun í formi tilraunar með vinnuaðferðir og bræðing listforma. Þetta sýnir að hóparnir, studdir af úthlutunarstefnu Leiklistarráðs, sinna tilraunum og nýsköpun, sem stærri og fjárfrekari listastofnanir veigra sér við af augljósum ástæðum.

 

Samstarf

Vegna skorts á sýningaraðstöðu og samfellu í starfi atvinnuleikhópa hefur samstarf stofnanaleikhúsa og atvinnuleikhópa færst í vöxt. Leikhóparnir njóta þá aðgangs að miðasölukerfi, tækjabúnaði og annarri aðstöðu húsanna. En með slíku samstarfi tryggja hóparnir sér líka viðurkenningu í formi umfjöllunar og gagnrýni helstu fjölmiðla landsins. Það er svo undir hælinn lagt hvort almenningur og ráðamenn gera einhvern greinarmun á því hvað eru sýningar sjálfstæðra leikhópa innan stofnananna og hvað er framleiðsla stofnananna sjálfra. Samstarfið veldur því sem sé að sýnileiki leikhópanna hverfur. En samstarfið getur mögulega gagnast stofnunum, sem fá viðurkenningu fyrir samstarfið með auknum fjárveitingum eða minni niðurskurði. Það má því spyrja sig hvort þetta geri þeim sjálfstæðu hópum sem starfa eingöngu fyrir utan stofnanirnar erfitt fyrir og valdi því að þeir fái síður umfjöllun um sýningar sínar, og verði af þeim orskökum síður sýnilegir áhorfendum. Huga þarf að jöfnuði milli hópanna í þessu sambandi. Í því efnahagsástandi sem nú er á Íslandi hefur sýnt sig að sjálfstæðir sviðslistamenn leita á ný mið til að halda áfram starfsemi. Nýjustu áhorfendatölur frá atvinnuleikhópunum sýna að þeir fengu stærri hluta áhorfenda sinna erlendis en hér heima á síðasta leikári. Meðan stærsti fjármögnunaraðili hópanna, áhorfendur á Íslandi, fer í gegnum keppu leita sviðslistahóparnir út fyrir landsteinana eftir rekstrarfjármagni, sem skilar sér í því að þeir koma heim með dýrmætan gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Eins og áður segir þá tekur starfsemi hópanna alltaf mið af ástandinu í samfélaginu. Það sem er líka mikilvægt fyrir frjótt starf sjálfstæðra sviðslistahópa er að þeir njóti sanngjarns stuðnings stjórnvalda á fjárlögum og að fjölmiðlar séu iðnir við að fjalla um starfsemi þeirra, gefa þeim uppbyggilega gagnrýni.

Höfundur er MA í menningar- og menntastjórnun.


BLIKUR Á LOFTI Í STARFI SJÁLFSTÆÐRA ATVINNULEIKHÚSA

Áhrifa efnahagslægðar á Íslandi er farið að gæta í starfi sjálfstæðra leikhúsa. Á komandi leikári munu færri uppsetningar líta dagsins ljós miðað við fyrri ár, meðal annars vegna húsnæðisskorts hafa fleiri atvinnuleikhópar sótt á náðir stofnanaleikhúsanna  með uppsetningar sínar og leikhópar sækja í auknum mæli til útlanda.

 

Einungis um 12 verkefni á vegum sjálfstæðra atvinnuleikhópa njóta árlega stuðnings frá ríki og borg fyrir því sem nemur helmingi af uppsetningakostnaði. Önnur verkefni hafa verið fjármögnuð með litlum styrkjum frá fyrirtækjum og eigin fé eða lántöku aðstandenda atvinnuleikhópanna. Tveir síðar nefndu kostirnir hafa horfið á liðnu ári sem hefur ollið því að færri sýningar á vegum sjálfstæðra leikhópa munu líta dagsins ljós á komandi leikári.

 

Stærsti styrktaraðili sjálfstæðra atvinnuleikhópa hafa þó ávallt verið áhorfendur. Innkoma af sýningum hefur oftast verið megin uppistaða í rekstri sjálfstæðra atvinnuleikhópa. Því er erfitt fyrir þá nú að taka þátt í því verðstríði sem ríkir um þessar mundir á leikhúsmarkaðinum.

 

Reykjavík dans festival brá þó á það ráð að bjóða dansunnendum á sýningar sínar gegn frjálsum framlögum til styrktar dansinum á Íslandi. Var þetta virðingarvert framtak til að koma til móts við efnahagsástandið í þjóðfélaginu. Hins vegar var öll vinna á vegum listamannanna í sjálfboðavinnu.

 

Um 400 manns starfa árlega hjá sjálfstæðum atvinnuleikhópum fyrir tiltölulega lítinn kostnað af hálfu ríkis og bæja. Það væri óheppileg þróun ef þessi stóri hópur listamanna myndi gefast upp og hætta að framleiða mikilvægan arð fyrir þjóðina. 

 

Þessa listsköpun hafa sjálftæðir sviðslistamenn og atvinnuleikhópar selt úr landi og eflt gjaldeyrisforða þjóðarinnar. Á síðasta leikári sáu fleiri áhorfendur sýningar sjálfstæðra atvinnuleikhópa erlendis en á Íslandi. Íslensk sviðslist var á sviði í Kóreu, Ástralíu, Danmörku, Kanada, Bandaríkjunum, Frakklandi, Rússlandi, Svíþjóð, Ítalíu, Litháen, Lúxemborg, Króatíu, Skotlandi, Þýskalandi, Sviss, Kína, Tasmaníu, Írlandi og Finnlandi.  Sjálfstætt starfandi sviðslistamenn hafa í auknu mæli sótt í fjármagn úr erlendum sjóðum til að setja upp sýningar hér heima og erlendis.  Í öllu tali um niðurskurð er eitt sem gleymist oft en það er að frum forsenda fyrir fjárstuðning úr erlendum sjóðum er sú að viðkomandi hafi innlent fjármagn á bak við sig. 

 Skortur á gagnrýni í fjölmiðlum og sýningarrýmumÖnnur bágborin þróun hefur átt sér stað með fækkun æfinga- og sýningarýma fyrir sjálfstæða atvinnu-leikhópa. Nú er staðan sú að erfitt getur verið fyrir leikhópana að finna hentugt húsnæði þar sem nýlega hafa húsnæði á borð við Möguleikhúsið, Austurbæ (sem er hús unga fólksins) og Skemmtihúsið lokað og óvissa ríkir um framtíð Hafnarfjarðarleikhússins þar sem samningar við það eru lausir. Endurbætur á Tjarnarbæ eru í uppnámi vegna aukins kostnaðar vegna verðlagshækkana á markaði og óvíst hvenær og hvort húsið opnar. Önnur hús eru of dýr til leigu fyrir sjálftæðan atvinnuleikhóp með mjög takmarkað fjármagn að baki.  

Þróunin hefur því orðið sú að í ár munu 8 af 10 verkum sem hlutu styrk frá menntamálaráðuneytinu vera sýnd í samstarfi við Leikfélag Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsið. Hinir þurfa að æfa inn í stofum og bílskúrum í veikri von um að sýningarhúsnæði við hæfi líti dagsins ljós.

 

Sökum efnahagsástandsins hafa helstu fjölmiðlar landsins ákveðið í sparnaðarskyni að gagnrýna ekki leiksýningar sjálfstæðra leikhópa.  Þrátt fyrir að nánast allar sýningar þeirra séu ný íslensk verk.  Slíkt hefur í för með sér að sýnileiki sjálfstæðra hópa verður minni sökum skorts á fjármagni til auglýsinga kaupa.  Slík ákvörðun fjölmiðla gæti stuðlað að því að enn fleiri hópar leiti á náðir stofnanna til að ná athyggli og umfjöllun um sín verk.  Völd leikhússtjóranna eru því orðin mikil þar sem þeir stjórna ekki aðeins verkefnavali síns leikhúss heldur líka sjálfstæðra atvinnuleikhópa. 

 Heildaráhorfendafjöldi leikárið 2008-2009: 151.606

Innanlands: 70.740

Erlendis: 80.866

Áhorfendur innanlands: 68.589                            Sýningar: 681

Áhorfendur erlendis: 5.330                                     Sýningar 17

Áhorfendur á gestasýningar: 2.151                        Sýningar: 25

Áhorfendur eingöngu erlendis: 75.536                   Sýningar 165

 

Aino Freyja Järvelä
Formaður SL

Verkefnaskrá SL 2009-2010


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Menningarstefna listamanna

 Málþing í Þjóðminjasafninu, laugardaginn 16. maí kl 10-12 f.h. ,,Mótuð verði menningarstefna til framtíðar í samráði við listamenn og aðra þá sem starfa að menningarmálum.” Þetta má lesa í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar – og kemur stjórn BÍL ekki á óvart, því að á samráðsfundi með Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, 30. mars sl. mæltist hún til þess að listamenn hæfu sjálfir mótun menningarstefnu.  Fyrstu skrefin verða stigin á þessu málþingi.  Frummælendur verða:            Halldóra Vífilsdóttir, arkitekt            Njörður Sigurjónsson, lektor Að loknum framsöguerindum verða almennar umræður.  Allir félagsmenn í aðildarfélögum BÍL eru hvattir til að koma og veita þessu mikilvæga máli lið.

Alþjóðlegi barnaleikhúsdagurinn

Alþjóðlegi barnaleikhúsdagurinn er haldinn ár hvert að frumkvæði ASSITEJ International – alþjóðasamtaka um barna- og unglingaleikhús.  Með samskiptaneti sem tengir saman þúsundir leikhúsa og einstaklinga um allan heim hvetur ASSITEJ leikhúslistamenn sem vinna að leiksýningum fyrir börn og unglinga að slá hvergi af listrænum kröfum í starfi sínu.  ASSITEJ leitast við að sameina ólíka menningarheima og kynþætti í baráttu fyrir friði, jafnrétti, umburðarlyndi og menntun. 

Í tilefni af alþjóðlegum leikhúsdegi barna í ár hefur Þórarinn Eldjárn, að beiðni Samtaka um barna- og unglingaleikhús á Íslandi, samið eftirfarandi ávarp.

   Ávarp á alþjóðlegum leikhúsdegi barna20. mars 2009 eftir Þórarin Eldjárn 

Leikhúsmiði...... 

 

og leikarar uppi á sviði.

 

Þar sem allir geta orðið það sem þeir vilja.

 

Þau æpa, hvísla,  syngja, tala, þylja....

 

eitthvað sem allir krakkar skilja.

 

Fullorðnir verða börn og börnin gömul um stund

 

Breytist einn í kött og annar í hund.

 

Leikararnir skemmta,  fræða,  sýna, kanna, kenna...........

 

Kæti,  læti,  tryllingur og spenna.

 

Stundum er verið að reyna að ráða gátur

 

svo reka sumir upp taugaveiklaðan hlátur

 

og beint á eftir byrjar í salnum grátur.

 

Samt er alveg ótrúlega gaman

 

hvernig allir geta setið þarna saman

 

og horft á hvað leikararnir eru snarir í snúningum

 

og í sniðugum búningum.....

 

Þess vegna er alveg full ástæða til að þakka

 

að þessi dagur í dag skuli vera frátekinn sem alþjóðlegur leikhúsdagur krakka.


Starfslaun listamanna

 

Hér með eru auglýst til umsóknar starfslaun listamanna sem úthlutað verður árið 2009, í samræmi við ákvæði laga nr. 35/1991 með áorðnum breytingum.

 Starfslaunin eru veitt úr fjórum sjóðum, þ.e.:

  • 1.   Launasjóði rithöfunda
  • 2.   Launasjóði myndlistarmanna
  • 3.   Tónskáldasjóði
  • 4.   Listasjóði

Umsóknir einstaklinga, ásamt fylgigögnum, skulu berast Skrifstofu Stjórnar listamannalauna, Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík, á þar til gerðum eyðublöðum fyrir  kl. 17:00 fimmtudaginn 2. október 2008.  Ef umsókn er send í pósti gildir dagstimpill pósthúss.
Umsóknir skulu auðkenndar "Starfslaun listamanna 2009" og tilgreindur sá sjóður sem sótt er um laun til.

Heimilt er að veita starfslaun úr Listasjóði til stuðnings leikhópum enda verði þeim varið til greiðslu starfslauna til einstakra leikhúslistamanna. Umsóknir leikhópa til Listasjóðs fyrir einstaka leikhúslistamenn, ásamt fylgigögnum, skulu berast Skrifstofu Stjórnar listamannalauna, Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík, á þar til gerðum eyðublöðum fyrir  kl. 17.00 fimmtudaginn 2. október 2008.  Ef umsókn er send í pósti gildir póststimpill. Umsóknir skulu auðkenndar "Starfslaun listamanna 2009 - leikhópar".

Með umsókn skal fylgja greinargerð um verkefni það sem liggur til grundvallar umsókninni ásamt upplýsingum um hve langan starfstíma er sótt um og rökstuðningi fyrir tímalengd.  Jafnframt skulu fylgja upplýsingar um náms- og starfsferil, verðlaun og viðurkenningar. Þessir þættir  skulu  að  jafnaði  liggja  til  grundvallar  ákvörðun  um úthlutun starfslauna

Athugið að hafi umsækjandi áður hlotið starfslaun verður umsókn hans því aðeins tekin til umfjöllunar að hann hafi skilað Stjórn listamannalauna skýrslu um störf sín í samræmi við ákvæði 4. gr. laga um listamannalaun nr. 35/1991 með áorðnum breytingum.

Umsóknareyðublöð fást á vef Stjórnar listamannalauna www.listamannalaun.is og á  skrifstofu  stjórnarinnar  að  Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 2. hæð.

 

Umsóknarfrestur rennur út  fimmtudaginn 2. október 2008.

 

Stjórn listamannalauna 25. júlí 2008


Hér og Nú í Finnlandi

Leikhópurinn Sokkabandið er núna staddur í Tampere, Finnlandi, þar sem hann mun sýna söngleikinn “Hér & Nú” á leiklistarhátíðinni í Tampere sem er í fullum gangi þessa dagana. Forseti Finnlands, Tarja Halonen, setti hátíðina s.l. þriðjudag við fjölmenna opnunarathöfn í hjarta borgarinnar, en mikill fjöldi finna sem og annarra gesta víðsvegar að úr heiminum sækja hátíðina heim á hverju ári. Helmingur leikhópsins kom til Tampere á mánudag, þar á meðal Jón Páll Eyjólfsson leikstjóri sýningarinnar og Arndís Hrönn Egilsdóttir, leikkona og einn af framleiðendum sýningarinnar.

“Það er búið að taka svo vel á móti okkur,” segir Arndís Hrönn þegar blaðamaður náði tali af henni. “Þetta er virkilega fín hátíð og það er gaman hvað hún er samþjöppuð og mikið um að vera. Mikið að skemmtilegum andlitum. Það virðist vera mikil eftirvænting, fólk er spennt og svolítið forvitið um sýninguna okkar. Þetta er gaman og það er heiður að vera á þessari hátíð. Það er líka gaman að sjá hvað er að gerast í skandínavísku leikhúsi og maður hittir fullt af skemmtilegu fólki. Við erum t.d. á hóteli með franska hópnum sem kom til Íslands á Lókal, Vivarium Studio, og það var gaman að hitta þau aftur. Svo er bara svo gaman og hollt að hitta sviðslistafólk frá öðrum löndum sem er í svipuðum pælingum og maður sjálfur.”

Hér & Nú er hluti af aðaldagskrá hátíðarinnar, þar sem gestaleikhópar frá m.a. Líbanon, Frakklandi, Lettlandi, Eistlandi, Svíþjóð, Danmörku og Færeyjum taka þátt að þessu sinni. Hér & Nú verður sýnt í Kómedíuleikhúsinu í Tampere og er sýnt bæði föstudag og laugardag.

Sjálfstæðu leikhúsin fara fram á uppstokkun á úthlutunarkerfi til sviðslista í landinu.

Í kjölfar málþings á vegum SL, bandalags atvinnuleikhópa, undir yfirskriftinni Er starfsumhverfi sjálfstæðra leikhópa í takt við tímann sem haldið var í Iðnó fimmtudaginn 29.

maí hefur stjórn SL ályktað eftirfarandi:

 

Augljóst er orðið að opinber fjárframlög til sviðslista taka mið af umhverfi sem er gjörbreytt. Eins og fram kom á málþingi SL síðastliðinn fimmtudag sjá Sjálfstæðu leikhúsin um rúmlega helming sviðsuppsetninga á landinu, fá til sín fleiri áhorfendur en stofnanaleikhúsin til samans, sjá nær alfarið um leikferðir á landsbyggðinni og eru öflugust í útrás sviðslista. Úthlutunarkerfið endurspeglar engangveginn þessa staðreynd þar sem aðeins 5% af þeim heildarfjármunum sem varið er til sviðslista í landinu renna til starfsemi sjálfstæðra leikhúsa. Úthlutunarkerfi til sviðslista í landinu er því rangt uppsett og það þarf að laga. Stjórn SL telur brýnt að hlutur sjálfstæðra leikhúsa verði leiðréttur hið fyrsta þannig að opinber fjárframlög endurspegli mikilvægi sjálstæðra leikhúsa fyrir sviðslistaumhverfi landsins. Stjórn Sjálfstæðu leikhúsanna lýsir sig reiðubúna til viðræðna við menntamálaráðuneytið um endurskoðun á kerfinu í heild sinni.

 

Fyrir hönd stjórnar SL,

 

Aino Freyja Järvelä

Formaður SL


Vorfyrirlestur um höfunda leikhússins

Leiklistarsamband Íslands og Leiklistardeild Listaháskóla Íslandskynna: Vorfyrirlestur um Höfunda leikhússins með  Charlotte Böving, leiklistarkonu &Jóni Atla Jónasson, leikskáldi mánudaginn 21.apríl kl.20Kaffi Sólon, Bankastræti 7a, 2. hæð  Höfundurinn er flókið fyrirbæri þegar kemur að leikhúsi. Leikskáldið sat lengi vel eitt að þeim heiðri að teljast höfundur sviðsins og í enn dag kynna leikhúsin verkefni undir heiti leikskáldsins. Á tuttugustu öld óx hins vegar leikstjóranum fiskur um hrygg og gerði harða atlögu að veldissprota leikskáldsins. Á undanförnum áratugum hafa síðan margir leikhúslistamenn og -hópar farið þá leið að útiloka leikskáldið (og textann sjálfan að miklu leyti) og jafnvel hafnað hugmyndinni um leikstjóra sömuleiðis. Í ljósi þeirra fjölbreyttu leiða sem til eru til að semja leiksýningu er þarft að spyrja um stöðu, hlutverk og eiginleika höfundarins í leikhúsi samtímans.   Vorfyrirlestrarnir taka á hlutverki, aðferðum og fagurfræði sviðslistanna og eru öllum opnir, jafnt fagfólki sem áhugafólki um sviðslistir.  

Straumar og stefnur í aðferðafræði leikstjórans og listamannaspjall

Leiklistarsamband Íslands og Leiklistardeild Listaháskóla Íslands

Vorfyrirlestur um: Strauma og stefnur í aðferðafræði leikstjórans með Rúnari Guðbrandssyni og Listamannaspjall með Rafael Bianciotto mánudaginn 14.apríl kl.20 á Kaffi Sólon, Bankastræti 7a, 2. hæð

Rúnar Guðbrandsson mun ræða mismunandi hugmyndir um hlutverk og aðferðafræði leikstjórans í gegnum söguna. Hann fer í gegnum strauma og stefnur sem hafa haft mótandi áhrif á leikhús vesturlanda og veltir fyrir sér stöðu leikstjórans í íslensku leikhúsi. Hann hefur boðið með sér nokkrum sviðslistamönnum sem munu tala um kynni sín af ólíkum leikstjórnar-aðferðum.

Rafael Bianciotto mun ræða um starf sitt og list og vinnu sína með trúðatæknina. Rafael fæddist í Argentínu en býr og starfar í París. Hann lagði stund á nám við l'Institut d'Etudes Théâtrales í París. Hann hefur kennt trúðatækni og grímuvinnu beggja vegna Atlanshafsins og sett upp trúðasýningar fyrir fullorðna við góðan orðstír í Frakklandi og víðar. Rafael er listrænn stjórnandi Zefiro leikhússins í París (http://zefiro.free.fr/) og heldur úti metnaðarfullri starfsemi með þeim. Hann hefur kennt trúðatækni við leiklistardeild Listaháskólans til margra ára. Hann er nú á Íslandi við leikstjórn á trúðaleiknum Dauðasyndirnar 7 sem verður frumsýndur í maí á Litla sviði Borgarleikhússins.

Mánudaginn 21.apríl munu Aino Freyja Järvele velta upp ögrandi spurningum um starf sjálfstæðra leikhópa.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband