Færsluflokkur: Lífstíll

Ferða og dvalarstyrkir –Byrjað að taka við umsóknum-

Síðasta umferð Menningar- gáttarinnar Kulturkontakt Nord er nú opin. Nú er einungis opið fyrir ferða og dvalarstyrki. Allar umsóknir þurfa að berast rafrænt til Menningargáttarinnar fyrir 5. nóvember 2008. Umsóknareyðublöð eru inni á: http://applications.kknord.orgFerða og dvalarstyrkurinn er ætlaður fagaðilum innan menningar og lista, sem hafa áhuga á að ferðast til annarra Norðurlanda vegna rannsókna eða vinnu. Styrkupphæðin jafnast á við uppihald í eina viku ásamt ferðum til og frá Íslandi.Frekari upplýsingar eru á http://www.kknord.org/ eða hjá Þuríði Helgu Kristjánsdóttir thuridur@nordice.is

Sýning októbermánaðar - muna klippikortið

panicporductionsPrivatedancer

Sýning Panic productions, Privet dancer er sýning mánaðarins í október  Sýningin verður sýnd helgina 30. október til  1. nóvember á stóra sviði Borgarleikhússins en verkið er unnið í samstarfi við LR.  Þar sem aðeins verða þessar 3 sýningar á verkinu viljum við hvetja alla til að nýta sér klippikort SL og bóka miða á þessa áhugaverðu dans-leikhús sýningu sem fyrst.


Klippikortið

Helgina 12.-14. september var öllum heimulum landsins afhent klippikort frá aðildarfélögum SL sem veitir 1000 krónu afslátt af leikhúsferðinni í hverjum mánuði.  Með því vill SL þakka þeim 250 þúsund áhorfendum sem koma árlega að sjá sýningar okkar og hvetja hina til að mæta. 

Á heimasíðu SL verður tilkynnt hvaða sýningar eru sýningar mánaðarins hverju sinni ásamt því að birta aulýsingar 1sta hvers mánaðar í dagblöðum.


Dagskrá SL ´08 -´09

Dagskrá aðildarfélaga Sjálfstæðu leikhúsanna er fjölbreitt að vanda.  Alls verður boðið upp á 60 sýningar næsta vetur.  Stærstur hluti sýninganna eru íslensk verk ætluð börnum og ungu fólki en einnig verða á ferðinni danssýningar, ópera og hefðbundnar leiksýningar.  Tvær hátíðir verða haldnar á næsta leikári, Act alone á Ísafirði og Draumar – alþjóðleg döff leiklistarhátíð verður haldin í Reykjavík að þessu sinni en fyrsta hátíðinn var haldin á Akureyri fyrir tveimur árum.    Aðildarfélög SL hafa sent öllum heimilum landsins klippikort er veitir 1000 krónu afslátt af sýningum mánaðarins allan næsta vetur.  Með þessu vilja aðildarfélögin þakka þeim rúmlega 250 þúsund áhorfendum sem koma á hverju leikári að sjá sýningar þeirra ásamt því að hvetja hina til að mæta.   Hægt verður að nálgast upplýsingar um sýningar mánaðarins á www.leikhopar.is eða í dagblöðum 1sta hvers mánaðar.  Sýning mánaðarins í september verður Mamma mamma sem sýnd er í Hafnafjarðarleikhúsinu Hafnafjarðarleikhúsið mun bjóða upp á fimm leiksýningar í vetur.  Mamma mamma er tekin upp frá fyrra ári og sýnd út september. Tvær samstarfssýningar; Steinar í djúpinu og Húmanimal verða frumsýndar sitt hvoru megin við áramótin.  Ævintýrið um Augastein snýr aftur í desember og um vorið ætlar Hafnafjarðarleikhúsið að sýna Fjallið eftir Jón Atla Jónsson í leikstjórn Hilmars Jónssonar. Í Iðnó verður boðið upp á nýtt verk í haust eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachmann er nefnist Dansaðu við mig.  Systur eftir Ástrós Gunnarsdóttur, Láru Stefánsdóttur og Hrafnhildi Hagalín í uppsetningu Pars pro toto verður sýnt aftur eftir áramót. Draumasmiðjan mun vera í samstarfi við Þjóðleikhúsið næsta vetur en markmiðið er að koma á fót  döff-leikhúsi á Íslandi og mun starfseminn hafa aðsetur í Kúlunni.   Draumasmiðjan mun halda áfram að sýna farandýningar í grunn- og leikskólum samhliða því að undirbúa aðra alþjóðlega döff-leiklistarhátíð næsta vor. Vesturport verður á faraldsfæti allt næsta ár með Woyzeck og Hamskiptin.  Hafin er undirbúningaru að Faust en Gísli Örn Garðarsson vinnur að sýningunni með tónlistarmanninum Nick Cave.  Áætlað er að frumsýna verkið í Þýskalandi næsta vor.  Fleiri spennandi og tilraunakendar sýningar verða á fjölunum í vetur s.s. Ódauðlegt verk um samhengi hlutanna í uppsetningu Áhugaleikhúss atvinnumanna – Lykillinn með Margréti Vilhjálmsdóttur í fararbroddi setur upp ,,L“ en þar er á ferðinni bræðingur fjölda listamanna – Þóra Karítas mun leika Rachel Corrie í uppsetningu Imagýn í samstarfi við LR– leikhópurinn Láki tekst á við Óþelló í nýstárlegri nálgun  og Lýðveldisleikhúsið ætlar að ferðast um landið með Kinkí – Skemmtikraftinn að sunnan.    Barna- og unglingaleiksýningar eru stór hluti af starfsemi aðildarfélaga SL.  Alls verður boðið upp á 39 sýningar en þar af eru 6 nýjar frumsýningar.  Möguleikhúsið hefur selt húsnæðið sitt við Hlemm og er nú eingöngu rekið sem farandleikhús. Þau ætla að furmsýna eina nýja sýningu á næsta leikári: Alli Nalli og tunglið sem er byggð á sögum Vilborgar Dagbjartsdóttur.  Fígúra hefur frumsýnt Einar Áskel í samstarfi við Þjóðleikhúsið og Stopp leikhópurinn ætlar að frumsýna Bólu-Hjálmar í haust.  Einleikhúsið sýnir nýtt verk, Óskina í vetur og 540 gólf fer í útrás með forvarnarleikritið Hvað ef... til Bretlands.  Skoppa og Skrítla verða í Þjóðleikhúsinu og Kómedíuleikhúsið á Ísafirði verður með 6 sýningar á verkefnaskrá vetrarins og eina leiklistarhátíð; Act alone.  Auðunn og ísbjörninn verður frumssýnt á þeirra vegum í mars í Tjöruhúsinu á Ísafirði.  Einnig stefnir Kómedíleikúsið á að fara í leikferð til borgarinnar í kringum áramótin.  Sögusvuntan mun frumsýna nýja brúðusýningu á árinu Panov afi og Strengjaleikhúsið mun sýna Spor regnbogans í samtarfi við Tónlist fyrir alla.  Dannssýningar á vegum Pars pro toto og Panic productions verða á fjölunum í vetur ásamt því að óperan Hel eftir Sigurð Norðdal í uppsetningu Hr. Níels mun verða frumsýnd í maí.

Steinunn Ketilsdóttir vinnur til verðlauna í Kaupmannahöfn

Danssýningin Love always, Debbie and Susan eftir Steinunni Ketilsdóttur og
Brian Gerke vann til fyrstu verðlauna danskeppninnar Danssolutions í gær.
Verkið var valið í undanúrslit ásamt 16 öðrum úr hópi 50 umsókna. Eftir
spennandi úrslitakvöld fimm verka í gær bar íslenska verkið sigur úr
bítum.

Það er mikill heiður fyrir íslenskan danshöfund að fá viðurkenningu fyrir verk sitt frá baltneskum og norrænum þjóðum sem allar búa við öflugra atvinnuumhverfi í dansi en Íslendingar.

Steinunn Ketilsdóttir útskrifaðist með B.A. gráðu í dansi 2005 frá Hunter College í New York. Frá útskrift hefur hún unnið með ýmsum danshöfundum, auk þess sem hún hefur verið sjálfstætt starfandi á Íslandi. Steinunn er listrænn stjórnandi Reykjavík dansfestival auk þess sem hún er fagstjóri nútímadansbrautar Listdansskóla Íslands.

Umsókn um styrk úr borgarsjóði

Reykjavíkurborg veitir ár hvert félagasamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum styrki til starfsemi og þjónustu sem fellur að hlutverki sveitarfélagsins eða telst á annan hátt í samræmi við stefnumörkun, áherslur og forgangsröðun borgaryfirvalda.

Styrkirnir eru ætlaðir viðburðum eða verkefnum sem koma til framkvæmda á næsta ári.

Viðburðir eða verkefni eru ekki styrkt eftir á. Styrkveiting felur ekki í sér fyrirheit um frekari skuldbindingar af hálfu Reykjavíkurborgar nema gerður sé sérstakur samningur þess efnis.

Umsókn skal berast eigi síðar en 1. október 2008. Einungis eru teknar til greina umsóknir sem berast innan tilskilins frests og uppfylla þær kröfur sem reglur Reykjavíkurborgar kveða á um. Þeir aðilar sem fengi hafa styrk áður þurfa að skila inn greinargerð um ráðstöfnun þess fjár.

Styrkir til starfsemi atvinnuleikhópa 2009

Auglýst er eftir umsóknum um styrki á árinu 2009 til starfsemi atvinnuleikhópa er ekki hafa sérgreinda fjárveitingu á fjárlögum.
Umsóknir gætu miðast við einstök verkefni eða samfellt starf til lengri tíma og verður afstaða tekin til skiptingar fjárins eftir eðli umsóknanna og eftir því sem fé á fjárlögum 2009 í þessu skyni kann að segja til um.
Umsóknir skulu berast til menntamálaráðuneytis, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík, fyrir kl. 16:00 fimmtudaginn 2. október 2008, á eyðublöðum sem þar fást. Eyðublöðin er einnig að finna á vef ráðuneytisins, menntamalaraduneyti.is

Umsóknarfrestur er til 2. október 2008.


Brynja Benediktsdóttir, minning

Brynja Benediktsdóttir var ein þeirra sem ruddi brautina
fyrir starfsemi sjálfstæðra leikhúsa á Íslandi. Hún var
skapandi listamaður sem lét verkin tala, skrifaði leikrit,
leikstýrði þeim og ferðaðist síðan með þau um allan heim.
Brynja sýndi öðrum fram á að það er hægt að reka eigin
leikhóp og að áhugi á íslenskri leiklist gætir víða um
heim. Árið 1961 stofnaði Brynja ásamt örðum leikfélagið
Grímu sem lagði áherslu á íslensk leikverk. Hún lét þó ekki
þar við sitja heldur rak allt til síðasta dags eigin
leikhóp sem ferðaðist um heiminn með leikverk sitt um
Ferðir Guðríðar. Að auki byggði hún og rak ásamt eiginmanni
sínum, Erlingi Gíslasyni, vinnustofu leikara í
Skemmtihúsinu við Laufásveg.

Síðast leikverk hennar fjallaði um hina víðförlu Guðríði
Þorbjarnardóttur úr Íslendingasögunum. Að sama skapi má
segja að Brynja hafi verið víðförul með leikverk sín. Hún
fór á hátíðir víða um heim með leikverk sitt um fyrrnefnda
Guðríði, meðal annars til Kolumbíu og Rómar, eins hafði hún
á áttunda áratugnum ferðast um heiminn með leikverkið Inúk.
Með þessum leikferðum vann Brynja óeigngjarnt starf í þágu
útrásar og kynningar íslenskrar leiklistar á erlendri
grundu.

Brynja var virkur félagi í starfi SL. Hún var fulltrúi SL í
aðalvalnefnd Grímunnar á síðasta leikári og í fyrra
veittist stjórn SL sú ánægja að ferðast með Brynju til
Ítalíu á fund nýstofnaðra samtaka sjálfstæðra leikhúsa í
Evrópu. Á fundinum var Brynja ekki aðeins ótæmandi brunnur
fróðleiks og reynslu af ferðum sínum og reynslu af rekstri
sjálfstæðra leikhópa undanfarna áratugi heldur líka frábær
ferðafélagi sem ánægjulegt var að umgangast.

Þeir sem starfa í þessu umhverfi eiga henni margt að þakka
fyrir merkilegt framlag til íslensks leikhúss og íslenskrar
leikritunar.

Stjórn SL vottar aðstandendum Brynju sína dýpstu samúð.

Sjálfstæðu leikhúsin fara fram á uppstokkun á úthlutunarkerfi til sviðslista í landinu.

Í kjölfar málþings á vegum SL, bandalags atvinnuleikhópa, undir yfirskriftinni Er starfsumhverfi sjálfstæðra leikhópa í takt við tímann sem haldið var í Iðnó fimmtudaginn 29.

maí hefur stjórn SL ályktað eftirfarandi:

 

Augljóst er orðið að opinber fjárframlög til sviðslista taka mið af umhverfi sem er gjörbreytt. Eins og fram kom á málþingi SL síðastliðinn fimmtudag sjá Sjálfstæðu leikhúsin um rúmlega helming sviðsuppsetninga á landinu, fá til sín fleiri áhorfendur en stofnanaleikhúsin til samans, sjá nær alfarið um leikferðir á landsbyggðinni og eru öflugust í útrás sviðslista. Úthlutunarkerfið endurspeglar engangveginn þessa staðreynd þar sem aðeins 5% af þeim heildarfjármunum sem varið er til sviðslista í landinu renna til starfsemi sjálfstæðra leikhúsa. Úthlutunarkerfi til sviðslista í landinu er því rangt uppsett og það þarf að laga. Stjórn SL telur brýnt að hlutur sjálfstæðra leikhúsa verði leiðréttur hið fyrsta þannig að opinber fjárframlög endurspegli mikilvægi sjálstæðra leikhúsa fyrir sviðslistaumhverfi landsins. Stjórn Sjálfstæðu leikhúsanna lýsir sig reiðubúna til viðræðna við menntamálaráðuneytið um endurskoðun á kerfinu í heild sinni.

 

Fyrir hönd stjórnar SL,

 

Aino Freyja Järvelä

Formaður SL


Aðalfundur SL

SL lógó

Aðalfundur SL verður haldin mánudaginn 26. maí á Lindargötu 6 kl. 16.30

 

Dagskrá:

1.       Skýrsla stjórnar
2.       Reikningar bandalagsins
3.       Lagabreytingar
4.       Kosning stjórnar og formanns
5.       Ákvörðun félagsgjalds
6.       Önnur mál

Stjórn SL


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband