Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
26.5.2008 | 12:04
Aðalfundur SL
Aðalfundur SL verður haldin mánudaginn 26. maí á Lindargötu 6 kl. 16.30
Dagskrá:
1. Skýrsla stjórnar
2. Reikningar bandalagsins
3. Lagabreytingar
4. Kosning stjórnar og formanns
5. Ákvörðun félagsgjalds
6. Önnur mál
Stjórn SL
18.4.2008 | 10:03
Vorfyrirlestur um höfunda leikhússins
15.4.2008 | 15:35
HÉR & NÚ! í Tampere
HÉR & NÚ er nýr íslenskur nútímasöngleikur, eins konar revía, sem sýndur var á Litla sviði Borgarleikhússins í uppsetningu Sokkabandsins. Verkið samanstendur af uppistandi, stuttum leikþáttum, eintölum, leikjum, dansnúmerum og frumsömdum og stórskemmtilegum sönglögum. Efniviðurinn er tekinn úr heimi glanstímarita eins og Séð & Heyrt, Hér & Nú og Vikunni sem og spjallþátta, bloggsíðna og annarra fjölmiðla sem hafa það að leiðarljósi að skemmta okkur íslendingum með dramatískum lífsreynslusögum og fréttum af fræga fólkinu.
15.4.2008 | 15:33
Skemmtiatriði á 17. júní
Auglýst er eftir skemmti- og sýningaratriðum fyrir þjóðhátíðarskemmtun í Reykjavík. Dagskráin fer fram í miðborg Reykjavíkur og stendur hún frá morgni til kvölds. Gert er ráð fyrir barna og fjölskylduskemmtunum á sviðum, tónleikum, leiktækjum og ýmsum sýningum og götuuppákomum. Auk hefðbundinna skemmtiatriða er áhugi á hópatriðum og sýningum og er leitað að leik-, tónlistar-, dans- og öðrum listhópum til að troða upp á útisviðum og á götunni. Einnig er óskað eftir hópum, félagasamtökum og öðrum sem vilja standa fyrir eigin dagskrá á sviðum eða í samkomutjöldum í samráði við þjóðhátíðarnefnd. Umsóknir um flutning atriða, uppákomur og viðburði er hægt að fylla út á vefnum www.17juni.is en einnig er hægt að skila þeim í Hitt Húsið, Pósthússtræti 3-5, 101 Reykjavík, á eyðublöðum sem þar fást.
Umsóknarfrestur rennur út þriðjudaginn 6. maí.
10.4.2008 | 09:59
Straumar og stefnur í aðferðafræði leikstjórans og listamannaspjall
Vorfyrirlestur um: Strauma og stefnur í aðferðafræði leikstjórans með Rúnari Guðbrandssyni og Listamannaspjall með Rafael Bianciotto mánudaginn 14.apríl kl.20 á Kaffi Sólon, Bankastræti 7a, 2. hæð
Rúnar Guðbrandsson mun ræða mismunandi hugmyndir um hlutverk og aðferðafræði leikstjórans í gegnum söguna. Hann fer í gegnum strauma og stefnur sem hafa haft mótandi áhrif á leikhús vesturlanda og veltir fyrir sér stöðu leikstjórans í íslensku leikhúsi. Hann hefur boðið með sér nokkrum sviðslistamönnum sem munu tala um kynni sín af ólíkum leikstjórnar-aðferðum.
Rafael Bianciotto mun ræða um starf sitt og list og vinnu sína með trúðatæknina. Rafael fæddist í Argentínu en býr og starfar í París. Hann lagði stund á nám við l'Institut d'Etudes Théâtrales í París. Hann hefur kennt trúðatækni og grímuvinnu beggja vegna Atlanshafsins og sett upp trúðasýningar fyrir fullorðna við góðan orðstír í Frakklandi og víðar. Rafael er listrænn stjórnandi Zefiro leikhússins í París (http://zefiro.free.fr/) og heldur úti metnaðarfullri starfsemi með þeim. Hann hefur kennt trúðatækni við leiklistardeild Listaháskólans til margra ára. Hann er nú á Íslandi við leikstjórn á trúðaleiknum Dauðasyndirnar 7 sem verður frumsýndur í maí á Litla sviði Borgarleikhússins.
Mánudaginn 21.apríl munu Aino Freyja Järvele velta upp ögrandi spurningum um starf sjálfstæðra leikhópa.
10.4.2008 | 09:57
Talía - loftbrú
Til að geta fengið úthlutun úr Talíu þurfa umsækjendur að vera fullgildir félagar í FÍL, FLÍ eða FLH og leggja fram tilskilin gögn er staðfesti boð um þátttöku í leiklistarviðburði erlendis. Talía Loftbrú er samstarfssamningur milli Reykjavíkurborgar, Icelandair, Glitnis, Félags íslenskra leikara( FÍL ), Félags leikstjóra á Íslandi ( FLÍ ) og Félags leikskálda og handritshöfunda ( FLH) um Talíu Loftbrú Reykjavíkur til þess að styðja við bakið á framsæknum leikurum, dönsurum, söngvurum, leikmynda- og búningahöfundum, leikstjórum og leikskáldum sem hefur verið boðið að sýna list sína á erlendri grund.Talía - Loftbrú er liður í því að gera Reykjavíkurborg að vettvangi alþjóðlegra listastrauma og að liðka fyrir samskiptum sviðslistamanna milli Reykjavíkur og umheimsins.
Styrkir eru veittir í formi flugmiða til áfangastaða Icelandair í Evrópu eða Ameríku og yfirvigtar auk peningaupphæðar sem nemur að hámarki kr. 12.500 fyrir hvern þátttakanda. Umsóknum skal fylgja ítarleg og greinargóð lýsing á verkefninu, upplýsingar um sýningu, sýningarstað eða annað það sem við á hverju sinni. Einnig skal fylgja staðfestingábyrgðarmanns verkefnisins í því landi sem það fer fram. Dagsetningar verkefnisins verða að koma fram. Sjóðurinn er ætlaður sjálfstætt starfandi listamönnum og styrkir ekki verkefni sem framleidd eru og styrkt verulega af opinberum aðilum. Styrkþegar undirgangast skuldbindingar gagnvart sjóðunum samkvæmt sérstökum samningum sem gerðir verða í kjölfar úthlutunar og kveður m.a. á um að styrkþegum beri að skila stuttri greinargerð um notkun styrksins. Mikilvægt er að hafa umsóknina vandaða, skýra og hnitmiðaða. Ef sótt er um styrk fyrir fleira en eitt verkefni, skal fylla út sér eyðublað fyrir hvert verkefni fyrir sig. Styrkþegar fá staðfestingu á úthlutun, sem gildir í 3 mánuði frá áætlaðri brottför. Hafi styrkþegi ekki gengið frá bókun farseðla innan þess tíma fellur úthlutunin niður.
Umsóknareyðublöð, stofnskrár og reglur um úthlutun er að finna á heimasíðum www.fil.is www.leikstjorar.is og www.leikskald.is Nánari upplýsingar um Talíu eru einnig veittar á skrifstofu FÍL s. 552-6040 fil@fil.is
Umsóknum skal skilað til skrifstofu FÍL, Lindargötu 6, 101 Reykjavík.
Næsti umsóknarfrestur rennur út 30 apríl 2008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2008 | 17:52
Straumar og stefnur í aðferðafræði leikstjórans
Leiklistarsamband Íslands og Leiklistardeild Listaháskóla Íslands
kynna:
Vorfyrirlestur um
Strauma og stefnur í aðferðafræði leikstjórans
mánudaginn 7.apríl kl.20
Kaffi Sólon, Bankastræti 7a, 2. hæð
Rúnar Guðbrandsson mun ræða mismunandi hugmyndir um hlutverk og aðferðafræði leikstjórans í gegnum söguna. Hann fer í gegnum strauma og stefnur sem hafa haft mótandi áhrif á leikhús vesturlanda og veltir fyrir sér stöðu leikstjórans í íslensku leikhúsi. Hann hefur boðið með sér nokkrum sviðslistamönnum sem munu tala um kynni sín af ólíkum leikstjórnaraðferðum.
Vorfyrirlestrarnir taka á hlutverki, aðferðum og fagurfræði sviðslistanna og eru öllum opnir, jafnt fagfólki sem áhugafólki um sviðslistir.
Mánudaginn 14.apríl mun Rafael Bianciotto leikstjóri, sem nú vinnur að uppsetningu trúðasýningar fyrir fullorðna í Borgarleikhúsinu, tala um vinnu sína, aðferðir og áherslur.
Mánudaginn 21.apríl munu Aino Freyja Järvele velta upp ögrandi spurningum um starf sjálfstæðra leikhópa.
Fyrirlestrarnir halda áfram fram eftir vori.
31.3.2008 | 11:28
Tilnefningar til Norrænu leikskáldaverðlaunanna 2008
Í ár verða Norrænu leikskáldaverðlaunin veitt í níunda skiptið. Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn á Norrænu leiklistardögunum sem haldnir verða í Tampere í Finnlandi en leiklistardagarnir eru haldnir í tengslum við árlega alþjóðlega leiklistarhátíð þar í borg 4.-10.ágúst. Norrænu leiklistardagarnir taka á sig form kynningar á norrænni leiklist þar sem fulltrúar þjóðanna munu standa að námskeiðum, leiklestrum, kynningum, fyrirlestrum og umræðum um norræna leiklist. Tilnefnd leikverk verða öll leiklesin á leiklistardögunum.
Norrænu leikskáldaverðlaunin eru veitt annað hvert ár af Norræna Leiklistarsambandinu (NTU). Sérleg fagnefnd hvers lands fyrir sig stendur að tilnefningu síns heimalands en það er í höndum stjórnar NTU að velja verðlaunahafann úr tilnefndum verkum. Verðlaunin eru 5.000 evrur.
Tilnefningar til Norrænu leikskáldaverðlaunanna 2008 eru; frá Finnlandi Fundamentalisten eftir Juha Jokela, frá Danmörku Om et øjeblik eftir Peter Asmussen, frá Svíþjóð, Valerie Jean Solanas ska bli president i Amerika eftir Söru Stridsberg auk Óhapps eftir Bjarna Jónssonar sem er fulltrúi Íslands. Engar tilnefningar bárust frá Noregi og Færeyjum í ár.
27.3.2008 | 17:18
Ávarp Alþjóða leiklistardagsins, 27. mars 2008
Benedikt Erlingsson:
(Flytjandinn skal vera alvarlegur og ávarpa okkur af einurð og einlægni.)
Kæru leikhússgestir.
Í dag er Alþjóða leiklistardagurinn .
Þá eru haldnar ræður og gefin ávörp.
Þið áhorfendur góðir fáið ekki að njóta leiksýningarinnar fyrr en sá sem hér stendur hefur lokið þessu ávarpi.
(Dok)
Þetta er svona um allan heim í dag.
Þessvegna er dagurinn kallaður Alþjóða leiklistardagurinn.
(Dok)
Þessar ræður fjalla yfirleitt um getu leiklistarinnar til að stuðla að skilningi og friði þjóða í milli eða upphaf og tilgang sviðs listarinnar í sögulegu ljósi og svona ræður hafa verið haldnar við upphaf leiksýninga á þessum degi síðan 1962 eða í 46 ár.
(þögn, nýr tónn.)
Samt er það svo að leiklistinni sem framin verður hér í kvöld er engin greiði gerður með þessu ávarpi.
(Stutt dok)
Höfundar sýningarinnar: Skáldið, leikstjórinn, leikhópurinn og samverkamenn þeirra, gerðu ekki ráð fyrir svona ávarpi í upphafi leiks.
Þessi ræða er ekki partur af hinu ósýnilega samkomulagi sem reynt verður að gera við ykkur eftir andartak.
(Dok)
Leikararnir standa nú að tjaldabaki um allan heim í kvöld og bíða þess pirraðir að þessum ræðum ljúki og leikurinn megi hefjast. Þetta ávarp er ekki að hjálpa þeim.
(Dok)
Og svo eru það þið áhorfendur góðir. Fæst ykkar áttuð von á þessari truflun. Ávarp vegna Alþjóða leiklistardagsins! Eitthvað sem þið vissuð ekki að væri til! Kannski setur þetta tal ykkur úr stuði og þið verðið ekki mönnum sinnandi í langa stund og náið engu sambandi við sýninguna.
(þögn, nýr tónn)
En ef til vill mun leiksýningin, sem hér fer í gang eftir andartak, lifa af þetta ávarp.
Ef til vill mun þetta tal eins og annað tal á hátíðisdögum hverfa úr huga ykkar undrafljótt.
Kannski mun leiklistin lifa af Alþjóða leiklistardaginn og hrista hann af sér eins og svo margt annað í gegnum tíðina.
Hún er nefnilega eldra fyrirbrigði en Alþjóða leiklistardagurinn, eins og sjálfsagt verður tíundað í ávörpum um allan heim í kvöld.
(Dok)
Sumir halda að hún eigi upphaf sitt í skuggaleik frummanna við varðeldanna í grárri forneskju.
Aðrir tengja upphafið við fyrstu trúarathafnir mannsins eða jafnvel fæðingu tungumálsins.
Samt er það svo, að þegar maður horfir á flug tveggja hrafna sem snúa sér á hvolf og fetta sig og bretta í hermileik háloftanna og að því er virðist skellihlæja að leikaraskapnum, þá er ekki laust við að læðist að manni sá grunur að þessi göfuga list tilheyrir ekki okkur einum og upphaf hennar sé dýpra en við.
Tilheyri kannski alveg eins fiskunum í sjónum.
(þögn, nýr tónn)
Þetta var heimspekilegi kafli þessa ávarps. Hér fenguð þið það sem til var ætlast, nokkur orð um upphaf og eðli leiklistarinnar.
Ég vona að þessi orð muni stuðla að skilningi og friði þjóða í milli.
(Dok)
Kæru áhorfendur. Nú mun þetta tal taka enda og sá sem hér stendur mun þagna svo átökin á sviðinu geti hafist.
Þeirra vegna erum við jú hér.
Þessu ávarpi er lokið.
Takk fyrir.
(Ræðumaður hneigir sig og dregur sig í hlé án þess að brosa.)
Leiðbeiningar:
Dok =1-1,5sek.
Þögn = 2 til 3sek
Ef flytjandinn er lítt undirbúinn og því bundinn við blaðið þá ætti hann einungis að líta upp og á horfa á áhorfendur í dokum og þögnum.
Nýr tónn= frjáls og fer eftir innsæi og smekk flytjandi hvort og hvernig.
25.3.2008 | 17:55
Leiksýningar, leikárið 2006-2007
Samanlögð áætluð aðsókn að sýningum leikhúsa, atvinnuleikhópa og áhugaleikfélaga innanlands á leikárinu 20062007 nam laust innan við 440.000. Þessi fjöldi samsvarar því að hver landsmaður sæki leikhús 1,4 sinnum á ári. Leikuppfærslur voru samtals 247 talsins og heildarfjöldi sýninga rétt um 2.800.
Áætlaður heildarfjöldi gesta leikhúsa, leikhópa og félaga á leikárunum 2000/2001 til 2006/2007 er sýndur á meðfylgjandi mynd. Tekið skal fram að inni í tölum um aðsókn eru gestir á sýningar í skólum og á innlendar og erlendar gestasýningar. Uppfærslur nemenda eru undanskildar. Frá leikárinu 2000/2001 að telja og til loka síðasta leikárs fjölgaði gestum um tæplega 48.000, eða um 12 af hundraði. Heildarfjöldi leiksýningargesta á síðasta leikári nam nærri 30 prósentum af heildaraðsókn kvikmyndahúsanna árið 2006.
Leikhús
Á síðasta leikári voru starfrækt sjö atvinnuleikhús með aðstöðu í sex leikhúsum. Á vegum þeirra voru 13 leiksvið með um 3,000 sætum. Leikhúsin settu 95 uppfærslur á svið hér innanlands; þar af voru leikrit flest, eða 63 talsins. Samanlagður fjöldi sýninga var 1.224. Uppfærslur með verkum eftir íslenska höfunda voru 37, en eftir erlenda 51. Uppfærslur með verkum eftir innlenda og erlenda höfunda voru sjö. Leikhúsgestir voru samtals 259.038, að meðtöldum samstarfsverkefnum og gestasýningum. Sýningargestum fækkaði lítillega frá fyrra leikári, eða um nærri 3.000.
Atvinnuleikhópar
Atvinnuleikhópum hefur fjölgað talsvert undanfarin ár, eða úr 22 leikárið 2000/2001 í 38. Uppfærslum á þeirra vegum hefur fjölgað að sama skapi, en á síðasta leikári færðu atvinnuleikhópar upp á svið innanlands 79 verk samanborið við 30 á leikárinu 2000/2001. Leikrit og verk eftir innlenda höfunda eru uppistaðan í uppfærslum atvinnuleikhópa. Sýningar atvinnuleikhópa innanlands voru 1.357 að meðtöldum sýningum í samstarfi með leikhúsum og sýningum í skólum. Heildaraðsókn að þessum sýningum var 212.470. Sýningargestum atvinnuleikhópanna hefur fjölgað umtalsvert undangengin ár.
Áhugaleikfélög
Á næstliðnu leikári voru starfandi 40 áhugaleikfélög víðs vegar um landið. Uppfærslur á vegum félaganna voru á síðasta leikári 89, eða litlu fleiri en á leikárinu á undan. Tvær af hverjum þremur uppfærslum voru eftir innlenda höfunda. Fjölmargir einstaklingar koma að uppfærslum áhugaleikfélaga á ári hverju. Samanlagður fjöldi flytjenda á síðasta leikári var um 1.450 manns. Félögin sýndu 498 sinnum fyrir um 30.000 gesti.
Tölur Hagstofunnar um leiksýningar taka til leikhúsa, atvinnuleikhópa og áhugaleikfélaga. Tölur eru fengnar með góðfúslegu samþykki frá viðkomandi leikhúsum og leikhópum.
Upplýsingar eru fengnar á vef Hagstofunar: www.hagstofa.is