Brynja Kristjana Benediktsdóttir, leikstjóri

Brynja

Brynja Kristjana Benediktsdóttir leikstjóri lést á heimili sínu í Reykjavík laugardaginn 21. júní eftir skammvinn veikindi, sjötug að aldri.

Brynja fæddist í Reyni í Mýrdal 20. febrúar 1938. Foreldrar hennar voru Róshildur Sveinsdóttir, jógakennari og húsmóðir, og Benedikt Guðjónsson kennari.

Brynja ólst upp í Mýrdal til sjö ára aldurs en eftir það í Reykjavík.

Brynja var ein af stofnendum leikfélagsins Grímu, 1961, sem var stofnað til að kynna ný íslensk leikverk. Á síðasta áratug byggði Brynja og rak, ásamt Erlingi, Vinnustofu leikara, Skemmtihúsið við Laufásveg.

Segja má að leiklistarferill Brynju hafi risið hvað hæst með verkum sem hún samdi, ein eða með öðrum, og setti upp. Inúk, frumsýnt 1973, hlaut fádæma viðtökur víða um heim og sama má segja um Ferðir Guðríðar sem Brynja frumsýndi í Skemmtihúsinu árið 2000. Sú sýning er enn eftirsótt á leiklistarhátíðir og var síðast sýnt í Kólumbíu. Boðsferð til Quebec í Kanada var framundan.

Brynja var virkur þáttakandi í starfi SL og tók m.a. þátt í fyrsta fundi EON á Ítalíu sl. sumar ásamt því að sitja sem fulltrúi SL í aðalvalnefnd Grímunar á síðasta leikári.  SL vottar aðstandendum Brynju sína dýpstu samúð.


Sjálfstæðu leikhúsin fara fram á uppstokkun á úthlutunarkerfi til sviðslista í landinu.

Í kjölfar málþings á vegum SL, bandalags atvinnuleikhópa, undir yfirskriftinni Er starfsumhverfi sjálfstæðra leikhópa í takt við tímann sem haldið var í Iðnó fimmtudaginn 29.

maí hefur stjórn SL ályktað eftirfarandi:

 

Augljóst er orðið að opinber fjárframlög til sviðslista taka mið af umhverfi sem er gjörbreytt. Eins og fram kom á málþingi SL síðastliðinn fimmtudag sjá Sjálfstæðu leikhúsin um rúmlega helming sviðsuppsetninga á landinu, fá til sín fleiri áhorfendur en stofnanaleikhúsin til samans, sjá nær alfarið um leikferðir á landsbyggðinni og eru öflugust í útrás sviðslista. Úthlutunarkerfið endurspeglar engangveginn þessa staðreynd þar sem aðeins 5% af þeim heildarfjármunum sem varið er til sviðslista í landinu renna til starfsemi sjálfstæðra leikhúsa. Úthlutunarkerfi til sviðslista í landinu er því rangt uppsett og það þarf að laga. Stjórn SL telur brýnt að hlutur sjálfstæðra leikhúsa verði leiðréttur hið fyrsta þannig að opinber fjárframlög endurspegli mikilvægi sjálstæðra leikhúsa fyrir sviðslistaumhverfi landsins. Stjórn Sjálfstæðu leikhúsanna lýsir sig reiðubúna til viðræðna við menntamálaráðuneytið um endurskoðun á kerfinu í heild sinni.

 

Fyrir hönd stjórnar SL,

 

Aino Freyja Järvelä

Formaður SL


Aðalfundur SL

SL lógó

Aðalfundur SL verður haldin mánudaginn 26. maí á Lindargötu 6 kl. 16.30

 

Dagskrá:

1.       Skýrsla stjórnar
2.       Reikningar bandalagsins
3.       Lagabreytingar
4.       Kosning stjórnar og formanns
5.       Ákvörðun félagsgjalds
6.       Önnur mál

Stjórn SL


Vorfyrirlestur um höfunda leikhússins

Leiklistarsamband Íslands og Leiklistardeild Listaháskóla Íslandskynna: Vorfyrirlestur um Höfunda leikhússins með  Charlotte Böving, leiklistarkonu &Jóni Atla Jónasson, leikskáldi mánudaginn 21.apríl kl.20Kaffi Sólon, Bankastræti 7a, 2. hæð  Höfundurinn er flókið fyrirbæri þegar kemur að leikhúsi. Leikskáldið sat lengi vel eitt að þeim heiðri að teljast höfundur sviðsins og í enn dag kynna leikhúsin verkefni undir heiti leikskáldsins. Á tuttugustu öld óx hins vegar leikstjóranum fiskur um hrygg og gerði harða atlögu að veldissprota leikskáldsins. Á undanförnum áratugum hafa síðan margir leikhúslistamenn og -hópar farið þá leið að útiloka leikskáldið (og textann sjálfan að miklu leyti) og jafnvel hafnað hugmyndinni um leikstjóra sömuleiðis. Í ljósi þeirra fjölbreyttu leiða sem til eru til að semja leiksýningu er þarft að spyrja um stöðu, hlutverk og eiginleika höfundarins í leikhúsi samtímans.   Vorfyrirlestrarnir taka á hlutverki, aðferðum og fagurfræði sviðslistanna og eru öllum opnir, jafnt fagfólki sem áhugafólki um sviðslistir.  

HÉR & NÚ! í Tampere

LEIKSÝNINGIN Hér og nú hefur verið valin til þátttöku á leiklistarhátíðinni í Tampere í Finnlandi sem haldin verður 4.-10. ágúst nk.

HÉR & NÚ er nýr íslenskur nútímasöngleikur, eins konar “revía”, sem sýndur var á Litla sviði Borgarleikhússins í uppsetningu Sokkabandsins. Verkið samanstendur af uppistandi, stuttum leikþáttum, eintölum, leikjum, dansnúmerum og frumsömdum og stórskemmtilegum sönglögum. Efniviðurinn er tekinn úr heimi glanstímarita eins og Séð & Heyrt, Hér & Nú og Vikunni sem og spjallþátta, bloggsíðna og annarra fjölmiðla sem hafa það að leiðarljósi að skemmta okkur íslendingum með dramatískum lífsreynslusögum og fréttum af fræga fólkinu.

Skemmtiatriði á 17. júní

Auglýst er eftir skemmti- og sýningaratriðum fyrir þjóðhátíðarskemmtun í Reykjavík. Dagskráin fer fram í miðborg Reykjavíkur og stendur hún frá morgni til kvölds. Gert er ráð fyrir barna og fjölskylduskemmtunum á sviðum, tónleikum, leiktækjum og ýmsum sýningum og götuuppákomum. Auk hefðbundinna skemmtiatriða er áhugi á hópatriðum og sýningum og er leitað að leik-, tónlistar-, dans- og öðrum listhópum til að troða upp á útisviðum og á götunni. Einnig er óskað eftir hópum, félagasamtökum og öðrum sem vilja standa fyrir eigin dagskrá á sviðum eða í samkomutjöldum í samráði við þjóðhátíðarnefnd. Umsóknir um flutning atriða, uppákomur og viðburði er hægt að fylla út á vefnum www.17juni.is en einnig er hægt að skila þeim í Hitt Húsið, Pósthússtræti 3-5, 101 Reykjavík, á eyðublöðum sem þar fást.

Umsóknarfrestur rennur út þriðjudaginn 6. maí.


Straumar og stefnur í aðferðafræði leikstjórans og listamannaspjall

Leiklistarsamband Íslands og Leiklistardeild Listaháskóla Íslands

Vorfyrirlestur um: Strauma og stefnur í aðferðafræði leikstjórans með Rúnari Guðbrandssyni og Listamannaspjall með Rafael Bianciotto mánudaginn 14.apríl kl.20 á Kaffi Sólon, Bankastræti 7a, 2. hæð

Rúnar Guðbrandsson mun ræða mismunandi hugmyndir um hlutverk og aðferðafræði leikstjórans í gegnum söguna. Hann fer í gegnum strauma og stefnur sem hafa haft mótandi áhrif á leikhús vesturlanda og veltir fyrir sér stöðu leikstjórans í íslensku leikhúsi. Hann hefur boðið með sér nokkrum sviðslistamönnum sem munu tala um kynni sín af ólíkum leikstjórnar-aðferðum.

Rafael Bianciotto mun ræða um starf sitt og list og vinnu sína með trúðatæknina. Rafael fæddist í Argentínu en býr og starfar í París. Hann lagði stund á nám við l'Institut d'Etudes Théâtrales í París. Hann hefur kennt trúðatækni og grímuvinnu beggja vegna Atlanshafsins og sett upp trúðasýningar fyrir fullorðna við góðan orðstír í Frakklandi og víðar. Rafael er listrænn stjórnandi Zefiro leikhússins í París (http://zefiro.free.fr/) og heldur úti metnaðarfullri starfsemi með þeim. Hann hefur kennt trúðatækni við leiklistardeild Listaháskólans til margra ára. Hann er nú á Íslandi við leikstjórn á trúðaleiknum Dauðasyndirnar 7 sem verður frumsýndur í maí á Litla sviði Borgarleikhússins.

Mánudaginn 21.apríl munu Aino Freyja Järvele velta upp ögrandi spurningum um starf sjálfstæðra leikhópa.

Talía - loftbrú

Til að geta fengið úthlutun úr Talíu þurfa umsækjendur að vera fullgildir félagar í FÍL, FLÍ eða FLH og leggja fram tilskilin gögn er staðfesti boð um þátttöku í leiklistarviðburði erlendis.  Talía – Loftbrú er samstarfssamningur milli Reykjavíkurborgar, Icelandair, Glitnis, Félags íslenskra leikara( FÍL ), Félags leikstjóra á Íslandi ( FLÍ ) og Félags leikskálda og handritshöfunda ( FLH) um Talíu – Loftbrú Reykjavíkur til þess að styðja við bakið á framsæknum leikurum, dönsurum, söngvurum, leikmynda- og búningahöfundum, leikstjórum og leikskáldum sem hefur verið boðið að sýna list sína á erlendri grund.Talía - Loftbrú er liður í því að gera Reykjavíkurborg að vettvangi alþjóðlegra listastrauma og að liðka fyrir samskiptum sviðslistamanna milli Reykjavíkur og umheimsins.

Styrkir eru veittir í formi flugmiða til áfangastaða Icelandair í Evrópu eða Ameríku og yfirvigtar auk peningaupphæðar sem nemur að hámarki kr. 12.500 fyrir hvern þátttakanda.  Umsóknum skal fylgja ítarleg og greinargóð lýsing á verkefninu, upplýsingar um sýningu, sýningarstað eða annað það sem við á hverju sinni.  Einnig skal fylgja staðfestingábyrgðarmanns verkefnisins í því landi sem það fer fram.  Dagsetningar verkefnisins verða að koma fram.  Sjóðurinn er ætlaður sjálfstætt starfandi listamönnum og styrkir ekki verkefni sem framleidd eru og styrkt verulega af opinberum aðilum.  Styrkþegar undirgangast skuldbindingar gagnvart sjóðunum samkvæmt sérstökum samningum sem gerðir verða í kjölfar úthlutunar og kveður m.a. á um að styrkþegum beri að skila stuttri greinargerð um notkun styrksins.  Mikilvægt er að hafa umsóknina vandaða, skýra og hnitmiðaða.  Ef sótt er um styrk fyrir fleira en eitt verkefni, skal fylla út sér eyðublað fyrir hvert verkefni fyrir sig.  Styrkþegar fá staðfestingu á úthlutun, sem gildir í 3 mánuði frá áætlaðri brottför. Hafi styrkþegi ekki gengið frá bókun farseðla innan þess tíma fellur úthlutunin niður.

Umsóknareyðublöð, stofnskrár og reglur um úthlutun er að finna á heimasíðum www.fil.is  www.leikstjorar.is og www.leikskald.is  Nánari upplýsingar um Talíu eru einnig veittar á skrifstofu FÍL s. 552-6040 fil@fil.is

Umsóknum skal skilað til skrifstofu FÍL, Lindargötu 6, 101 Reykjavík.

Næsti umsóknarfrestur rennur út 30 apríl 2008.


Straumar og stefnur í aðferðafræði leikstjórans

Leiklistarsamband Íslands og Leiklistardeild Listaháskóla Íslands

kynna:

 

Vorfyrirlestur um

Strauma og stefnur í aðferðafræði leikstjórans

 

mánudaginn 7.apríl kl.20

Kaffi Sólon, Bankastræti 7a, 2. hæð

 

Rúnar Guðbrandsson mun ræða mismunandi hugmyndir um hlutverk og aðferðafræði leikstjórans í gegnum söguna. Hann  fer í gegnum strauma og stefnur sem hafa haft mótandi áhrif á leikhús vesturlanda og veltir fyrir sér stöðu leikstjórans í íslensku leikhúsi. Hann hefur boðið með sér nokkrum sviðslistamönnum sem munu tala um kynni sín af ólíkum leikstjórnaraðferðum.

  

Vorfyrirlestrarnir taka á hlutverki, aðferðum og fagurfræði sviðslistanna og eru öllum opnir, jafnt fagfólki sem áhugafólki um sviðslistir.  

 

Mánudaginn 14.apríl mun Rafael Bianciotto leikstjóri, sem nú vinnur að uppsetningu trúðasýningar fyrir fullorðna í Borgarleikhúsinu,  tala um vinnu sína, aðferðir og áherslur.

Mánudaginn 21.apríl munu Aino Freyja Järvele velta upp ögrandi spurningum um starf sjálfstæðra leikhópa.

 

Fyrirlestrarnir halda áfram fram eftir vori.


Tilnefningar til Norrænu leikskáldaverðlaunanna 2008

Í ár verða Norrænu leikskáldaverðlaunin veitt í níunda skiptið.  Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn á Norrænu leiklistardögunum  sem haldnir verða í Tampere í Finnlandi en leiklistardagarnir eru haldnir í tengslum við árlega alþjóðlega leiklistarhátíð þar í borg 4.-10.ágúst. Norrænu leiklistardagarnir taka á sig form kynningar á norrænni leiklist þar sem fulltrúar þjóðanna munu standa að námskeiðum, leiklestrum, kynningum, fyrirlestrum og umræðum um norræna leiklist. Tilnefnd leikverk verða öll leiklesin á leiklistardögunum.

Norrænu leikskáldaverðlaunin eru veitt annað hvert ár af Norræna Leiklistarsambandinu (NTU). Sérleg fagnefnd hvers lands fyrir sig stendur að tilnefningu síns heimalands en það er í höndum stjórnar NTU að velja verðlaunahafann úr tilnefndum verkum.  Verðlaunin eru 5.000 evrur.

Tilnefningar til Norrænu leikskáldaverðlaunanna 2008 eru; frá Finnlandi Fundamentalisten eftir Juha Jokela, frá Danmörku Om et øjeblik eftir  Peter Asmussen, frá Svíþjóð, Valerie Jean Solanas ska bli president i Amerika eftir Söru Stridsberg auk Óhapps eftir Bjarna Jónssonar sem er fulltrúi Íslands. Engar tilnefningar bárust frá Noregi og Færeyjum í ár.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband