Færsluflokkur: Kvikmyndir

Brynja Kristjana Benediktsdóttir, leikstjóri

Brynja

Brynja Kristjana Benediktsdóttir leikstjóri lést á heimili sínu í Reykjavík laugardaginn 21. júní eftir skammvinn veikindi, sjötug að aldri.

Brynja fæddist í Reyni í Mýrdal 20. febrúar 1938. Foreldrar hennar voru Róshildur Sveinsdóttir, jógakennari og húsmóðir, og Benedikt Guðjónsson kennari.

Brynja ólst upp í Mýrdal til sjö ára aldurs en eftir það í Reykjavík.

Brynja var ein af stofnendum leikfélagsins Grímu, 1961, sem var stofnað til að kynna ný íslensk leikverk. Á síðasta áratug byggði Brynja og rak, ásamt Erlingi, Vinnustofu leikara, Skemmtihúsið við Laufásveg.

Segja má að leiklistarferill Brynju hafi risið hvað hæst með verkum sem hún samdi, ein eða með öðrum, og setti upp. Inúk, frumsýnt 1973, hlaut fádæma viðtökur víða um heim og sama má segja um Ferðir Guðríðar sem Brynja frumsýndi í Skemmtihúsinu árið 2000. Sú sýning er enn eftirsótt á leiklistarhátíðir og var síðast sýnt í Kólumbíu. Boðsferð til Quebec í Kanada var framundan.

Brynja var virkur þáttakandi í starfi SL og tók m.a. þátt í fyrsta fundi EON á Ítalíu sl. sumar ásamt því að sitja sem fulltrúi SL í aðalvalnefnd Grímunar á síðasta leikári.  SL vottar aðstandendum Brynju sína dýpstu samúð.


Til hamingju Reykvíkingar!

Tjarnarbíó

Nú hefur Reykjavíkurborg samþykkt að hefja á næsta ári framkvæmdir á Tjarnarbíó en búið er að samþykkja framkvæmdaáætlun þar sem gert er ráð fyrir 50 milljónum í endurbæturnar.  Sú þrotlausa vinna sem SL hefur lagt í síðastliðin ár er loksins að skila sér.  Eftir að hafa rekið Tjarnarbíó í 13 ár fyrir borgina hefur draumur SL um öfluga sviðslistamiðstöð þar sem boðið verður upp á úrvals leik- og kvikmyndasýningar orðið að veruleika. 

Síðan 2003 hefur húsnæðisnefnd á vegum SL unnið í að finna sjálfstæðum atvinnuleikhópum samastað.  Í nefndinni sátu:  Felix Bergsson, Vilhjálmur Hjálmarsson ásamt framkvæmdastjóra Kristínu Eysteinsdóttir/Gunnar Gunnsteinsson.  Einnig hefur stjórn SL séð um að halda málinu vakandi innan borgarkerfisins undir forystu Aino Freyju, formanns SL.

Ef allt fer eins og best verður á kosið mun nýtt og endurbætt Tjarnarbíó opna snemma árs 2009.


Tilnefndar stuttmyndir voru frumsýndar í Tjarnarbíói

Tilnefningar til Edduverðlaunanna voru tilkynntar í síðustu viku. Ánægjulegt var að sjá að allar stuttmyndirnar þrjár sem eru tilnefndar voru frumsýndar í Tjarnarbíói. Eru þetta stuttmyndirnar Bræðrabylta í leikstjórn Gríms Hákonarson, Anna í leikstjórn Helenu Stefánsdóttur og Skröltormar í leikstjórn Hafsteins G. Sigurðssonar.

Með tilkomu sýningarvélar og tjalds Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Tjarnarbíói hafa kvikmyndasýningar aukist til muna í leikhúsinu, bæði á vegum Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar og Fjalakattarins sem og annarra óháðra aðila. Er þetta SL mikið gleðiefni þar sem stefna SL í rekstri hússins er að koma á fót sviðslista- og kvikmyndamiðstöð í hjarta miðborgarinnar.

SL hefur rekið Tjarnarbíó fyrir Reykjavíkurborg undanfarinn áratug. Fyrir tveimur árum lét SL gera viðamikla úttekt á húsinu, með styrk frá Reykjavíkurborg og menntamálaráðuneyti, með það að leiðarljósi að gera leikhúsið nýtilegt fyrir sjálfstæða atvinnuleikhópa. Niðurstaða skýrslunnar var að ef bjarga á húsinu frá niðurníslu þarf að ráðast í endurbætur á því. Endurreist Tjarnarbíó yrði einnig þakklát viðbót við menningarlíf höfuðborgarinnar.

Hugmyndin er að koma á samfelldri starfsemi allt árið um kring með áherslu á nýsköpun í sviðslistum og að búa til vettvang fyrir framsæknar sýningar sjálfstæðra atvinnuleikhópa. Eins er gert ráð fyrir að kvikmyndasýningar verði fastur liður í starfseminni. Reykvíkingar myndu eignast leik- og kvikmyndahús í hjarta borgarinnar sem yrði sívirk kvika í menningarlífinu.

Að auki myndi endurreist Tjarnarbíó verða einskonar miðstöð fyrir starfsemi allra sjálfstæðra atvinnuhúsa og leikhópa. Aðildafélög SL eru 57 talsins og árlega frumsýna þau milli 20 og 30 sviðsverk og fá til sín í kringum 200.000 áhorfendur, en þess má geta að það eru fleiri en sjá sýningar LR, LA og Þjóðleikhússins samanlagt. SL hefur áform um að koma upp fræðslu- og menningarsetri atvinnuleikhópanna þar sem hægt verður að sækja upplýsingar um rekstur leikhúsa, uppsetningar og fleira sem snýr að rekstri leikhópa. Með miðstöð í Tjarnarbíói á einnig að vera hægt að samhæfa markaðssetningu leikhópanna og koma loks upp sameiginlegri miðasölu.

Nú þegar er kominn vísir að því sem koma skal með þeim gæða stuttmyndum og kvikmyndum í fullri lengd sem sýndar hafa verið undanfarið ár í Tjarnarbíói. Eins standa um þessar mundir yfir æfingar sjálfstæða atvinnuleikhópsins Fjalakattarins á Heddu Gabler. Þetta sambland sviðslista- og kvikmyndasýninga gefur húsinu sérstöðu og gefur fólki kost á að leita í Tjarnarbíó ef það vill sjá óháðar spennandi sýningar.

Borgarfulltrúar í Reykjavíkurborg hafa verið jákvæðir í garð verkefnisins og sýnt því nokkurn áhuga. Er það von okkar í SL að nýr meirihluti borgarinnar ýti verkefninu úr vör og tryggi þessu fallega leikhúsi framtíð í borginni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband