Færsluflokkur: Lífstíll

Þjónusta ekki ölmusa

Nú stendur yfir lokafrágangur á fjárlögum 2008 en Alþingi mun afgreiða þau fyrir áramót.  SL hefur í mörg ár barist fyrir auknu fjármagni fyrir atvinnuleikhópa með misjöfnum árangri.  Það sem kemur alltaf jafn mikið á óvart er hversu mörg rök eru fyrir auknu fjármagni til þessa málaflokks en samt gerist lítið.  Helstu staðreyndirnar sem hafa verið notaðar ár eftir ár eru oft kölluð VÁ!-in 5.

VÁ! 1: Atvinnuleikhópar eru að sýna fyrir 255 þúsund áhorfendur á síðasta leikári. Það er meira en Þjóðleikhúsið, LR, LA, ÍÓ og ÍD til samans!    

VÁ! 2. Atvinnuleikhópar eru að sýna fyrir 35 þúsund áhorfendur utan heimabyggðar.  

VÁ! 3. Atvinnuleikhópar eru að sýna allt upp í 9 leiksýningar fyrir 25 þúsund áhorfendur erlendis.  

VÁ! 4. Atvinnuleikhópar sýna um 80 leiksýningar á ári og þar af eru um 80% frumsamin ný íslensk leikrit.

VÁ 5. Það eru 58 leikhópar í SL og innan þeirra starfa háskólamenntaðir listamenn.

Ennþá hafa atvinnuleikhópar aðeins aðgang að 5% af því heildarfjármagni sem rennur til sviðslista á Íslandi.  Nú er lag fyrir kjörna fulltrúa okkar að efla nýsköpun, útrás og frumkraftinn sem býr í SL.

Viðhorfið til fjármögnunar opinnberra aðila á listsköpun hefur oft fengið á sig ölmusu stimpilinn.  Slíkt er ekki réttlátt.   Ef hið opinbera ákveður að byggja veg þá er nokkuð ljóst að verktakinn fær ekki aðeins hluta af því fjármagni sem framkvæmdin kostar.  Hann fær það greitt að fullu enda er hann að veita þjónustu til samfélagsins til jafns á við listamenn.  Slíkur veruleiki er hinsvegar ekki til staðar hjá atvinnuleikhópum en leiklistarráð leggur aðeins til 50% af því fjármagn sem uppsetningin kostar hjá aðeins 8-10 leikhópum árlega- aðrir verða að fjármagna sig að fullu sjálfir .   Það er spurning hvort að SL þurfi ekki að fara að senda áhorfendur heim í hléi til að minna á að miða við aðkeypta þjónustu hins opinbera er ekki gert ráð fyrir síðari hálfleik....  Ætli það muni hafa áhrif á stjórnmálamenn ef að það væru 255 þúsund manns óánægðir í samfélaginu?


Innrás fyrst - svo útrás

Í öllu tali um útrás þessa og útrás hins kemur upp í hugann sú grundvallar staðreynd sem oft vantar í umræðuna, að það þarf að byggja upp og styðja við bakið á vaxtasprotunum hér heima áður en farið er í útrás.   Frumsköpunin á sér stað hér heima.  Í könnun sem var gerð úti í hinum stóra heimi og kynnt hér á landi á dögunum, kom í ljós að Ísland er ekki þekkt fyrir menningu erlendis.  Samt erum við mestu menningarneytendur, miða við höfðatölu, sem um getur.  Við teljum okkur vera upplýst og með á nótunum þegar kemur að öllum þeim straumum og stefnum er viðkemur menningu og listum.  En á hverju stoppar útrás menningu og lista?  Einhver skref hafa verið tekin af stjórnvöldum m.a. á sviði tónlistar í að efla kynningu á íslenskri menningu.  Hins vegar hefur ekkert bólað á aðgerðum til að styðja við bakið á íslenskum sviðalistum og sviðslistamönnum í útrásinni.

Sjálfstæðir atvinnuleikhópar á Íslandi hafa barist fyrir auknu fjármagni frá opinberum aðilum til að geta unnið að listsköpun hér heima.   Það fjármagn sem er í boði nemur aðeins 5% af því heildar fjármagni sem rennur til sviðslista á Íslandi.  Þessu fjármagni hefur verið deilt út til ca. 10 hópa á ári.  Samt eru um 60-80 leiksýningar sýndar á hverju leikári á vegum þessara hópa.  Þessi mikla gróska hefur orðið til þess að listamenn gefa oft vinnu sína.  Slíkt gengur ekki til lengdar. Það hefur sýnt sig að meðal líftími atvinnuleikhóps eru að hámarki 5 ár en flestir gefast þá upp og hverfa til annarra starfa.  Þar með hverfur mikil þekking og reynsla á rekstri út úr sjálfstæðum atvinnuleikhópum sem verður til þess að endurnýjunin og samfellan í starfseminni er lítil sem engin.  Nýir hópar verða til, með nýju fólki sem þarf að reka sig á í stað þess að vinna við hlið þeirra sem hafa kunnáttuna og þekkinguna.

Það hefur færst í aukana að frjálsum atvinnuleikhópum er boðið að sýna á hátíðum og leikhúsum erlendis.  Það gerist þó oftar, að ekki er hægt að verða við óskum erlendis frá þar sem kostnaður við slíkar leikferðir er mikill og aðgangur að fjármagni takmarkaður og í engu samræmi við umfang og þörf.  Í sumum tilvikum hefur verið brugðið á það ráð að  fá listamennina til að fjármagna sínar ferðir sjálfir til að hægt sé að fara með verkin út.  Eftirspurnin eftir íslenskum uppsetningum frá útlöndum er gríðarleg og sorglegt að ekki skuli vera hægt að þiggja nema brot af þeim boðum sem hingað berast. 

Eitt mikilvægt skref var stigið fyrir um ári síðan.  Þá undirrituðu Reykjavíkurborg, Icelandair, Félag Íslenskra Leikar, Félag Leikstjóra á Íslandi og Félag Leikskálda og Handritshöfunda samkomulag um Talíu, loftbrú.  Slíkur samningur hefur gert fleirum kleift að sýna sýningar sínar erlendis.  Slíkt samkomulag er þó aðeins eitt skref af mörgum sem verður að taka hér heima áður en lengra er haldið.  Aukin fjárstuðningur við atvinnuleikhópa er frumforsenda þess að við höfum eitthvað fram að færa í hinum stóra heimi.  Hefjum innrásina - útrásin kemur í kjölfarið.


Tilnefndar stuttmyndir voru frumsýndar í Tjarnarbíói

Tilnefningar til Edduverðlaunanna voru tilkynntar í síðustu viku. Ánægjulegt var að sjá að allar stuttmyndirnar þrjár sem eru tilnefndar voru frumsýndar í Tjarnarbíói. Eru þetta stuttmyndirnar Bræðrabylta í leikstjórn Gríms Hákonarson, Anna í leikstjórn Helenu Stefánsdóttur og Skröltormar í leikstjórn Hafsteins G. Sigurðssonar.

Með tilkomu sýningarvélar og tjalds Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Tjarnarbíói hafa kvikmyndasýningar aukist til muna í leikhúsinu, bæði á vegum Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar og Fjalakattarins sem og annarra óháðra aðila. Er þetta SL mikið gleðiefni þar sem stefna SL í rekstri hússins er að koma á fót sviðslista- og kvikmyndamiðstöð í hjarta miðborgarinnar.

SL hefur rekið Tjarnarbíó fyrir Reykjavíkurborg undanfarinn áratug. Fyrir tveimur árum lét SL gera viðamikla úttekt á húsinu, með styrk frá Reykjavíkurborg og menntamálaráðuneyti, með það að leiðarljósi að gera leikhúsið nýtilegt fyrir sjálfstæða atvinnuleikhópa. Niðurstaða skýrslunnar var að ef bjarga á húsinu frá niðurníslu þarf að ráðast í endurbætur á því. Endurreist Tjarnarbíó yrði einnig þakklát viðbót við menningarlíf höfuðborgarinnar.

Hugmyndin er að koma á samfelldri starfsemi allt árið um kring með áherslu á nýsköpun í sviðslistum og að búa til vettvang fyrir framsæknar sýningar sjálfstæðra atvinnuleikhópa. Eins er gert ráð fyrir að kvikmyndasýningar verði fastur liður í starfseminni. Reykvíkingar myndu eignast leik- og kvikmyndahús í hjarta borgarinnar sem yrði sívirk kvika í menningarlífinu.

Að auki myndi endurreist Tjarnarbíó verða einskonar miðstöð fyrir starfsemi allra sjálfstæðra atvinnuhúsa og leikhópa. Aðildafélög SL eru 57 talsins og árlega frumsýna þau milli 20 og 30 sviðsverk og fá til sín í kringum 200.000 áhorfendur, en þess má geta að það eru fleiri en sjá sýningar LR, LA og Þjóðleikhússins samanlagt. SL hefur áform um að koma upp fræðslu- og menningarsetri atvinnuleikhópanna þar sem hægt verður að sækja upplýsingar um rekstur leikhúsa, uppsetningar og fleira sem snýr að rekstri leikhópa. Með miðstöð í Tjarnarbíói á einnig að vera hægt að samhæfa markaðssetningu leikhópanna og koma loks upp sameiginlegri miðasölu.

Nú þegar er kominn vísir að því sem koma skal með þeim gæða stuttmyndum og kvikmyndum í fullri lengd sem sýndar hafa verið undanfarið ár í Tjarnarbíói. Eins standa um þessar mundir yfir æfingar sjálfstæða atvinnuleikhópsins Fjalakattarins á Heddu Gabler. Þetta sambland sviðslista- og kvikmyndasýninga gefur húsinu sérstöðu og gefur fólki kost á að leita í Tjarnarbíó ef það vill sjá óháðar spennandi sýningar.

Borgarfulltrúar í Reykjavíkurborg hafa verið jákvæðir í garð verkefnisins og sýnt því nokkurn áhuga. Er það von okkar í SL að nýr meirihluti borgarinnar ýti verkefninu úr vör og tryggi þessu fallega leikhúsi framtíð í borginni.


Á ferð og flugi

Í dag starfa tveir atvinnuleikhópar á landsbyggðinni: Kómedíuleikhúsið á Ísafirði og Frú Norma á Egilsstöðum.  Þetta er frábært framtak hjá þeim atvinnulistamönnum sem starfa á vegum þessara leikhópa að bjóða upp á atvinnuleikhús fyrir utan höfuðborgarsvæðið.  Það sem er líka ánægjulegt að sjá er að aðrir atvinnuleikhópar hafa verið duglegir að ferðast um allt land með sýningar sínar.  Flestir þeir hópar sem eru að sýna fyrir börn og unglinga eru vanir að fara í leikferðir nokkrum sinnum á ári og virðist áhugi fyrir þeirra sýningum vera að aukast með hverju árinu.  Þegar áhorfendatölur fyrir leikárið 2006-2007 eru skoðaðar kemur í ljós að áhorfendum á landsbyggðinni hjá aðildarfélögum SL hefur fjölgað hlutfallslega mest frá árinu áður.  Aukningin í þeim flokki er 10 þúsund áhorfendur milli ára eða um 35 þúsund áhorfendur í það heila.  

Nú er svo komið að ekki aðeins barna- og unglingasýningar ferðast um landið.  Pabbinn hefur verið á flakki og hefur fengið frábæra aðsókn hvert sem hann hefur komið.  Killer Joe mun einnig vera sýndur á Akureyri síðar á árinu og væntanlega munu fleiri leiksýningar bætast við áður en leikárið er liðið. 

Sú staðreynd að atvinnuleikhópar hafa einungis aðgang að 5% af því opinbera fjármagni sem rennur til leiklistar á landinu þá er óhætt að hrósa þeim hópum sem eru tilbúnir að leggja það á sig að fara með sýningar sínar í leikferðir sem oft eru mjög kostnaðarsamar.  Atvinnuleikhópar hafa því tekið að sér það hlutverk að bjóða öllum landsmönnum upp á atvinnuleiklist!  Vissulega má segja að eðli og umfang starfsemi leikhúsa/leikhópa innan SL geri það að verkum að auðveldara sé fyrir þá að standa í því umstangi og skipulagi er fylgir slíkum leikferðum frekar en aðrar sviðslitastofnanir sem eru að kljást við yfirbyggingu og fjárhagslegar skuldbindingar.  Það er því spurning hvenær opinberir aðilar sjá sér fært að styðja við bakið á þeim hópum sem tilbúnir eru til að gæta jafnræðis í aðgengi allra landsmanna að menningu og listum á atvinnugrundvelli. 


Nú er allt að gerast!

Næstu daga eru að detta inn frumsýningar á vegum aðildarfélaga SL á meðan aðrar hverfa á braut.  Spor regnbogans verður frumsýnt í Möguleikhúsinu næstkomandi laugardag á vegum Strengja- leikhússins.  Leikstjóri og hugmyndasmiður verksins er Messíana Tómasdóttir. 
Í byrjun nóvember  frumsýnir Sokkabandið nýjan söngleik; Hér og nú! í leikstjórn Jóns Páls Eyjólfssonar á litla sviði Borgarleikhússins.  Fyrir þá sem ekki geta beðið eru þrjú lög úr sýningunni á bloggsíðu Sokkabandsins http://sokkabandid.blog.is
Hedda Gabler eftir Ibsen verður frumsýnt í Tjarnarbíó um miðjan nóvember. Takmarkaður sýningafjöldi verður á sýningunni og um að gera að bóka miða sem fyrst.  Hægt er að nálgast miða ámidi.is.
Intake á vegum Fimbulvetrar ætti líka að líta dagsins ljós fljótlega í Austurbæ.  Sýningum á Killer Joe fer að ljúka og verðlauna sýningin Abbababb klárast líka fljótlega.  Nánar á www.mbl.is/leikhus

Útrás aðildarfélaga SL heldur áfram. Pars pro toto sýnir nokkur dansverk í Berlín í nóvember.  Skoppa og Skrítla eru að trylla lýðinn í NY þessa stundina.  Hamskiptin í uppsetningu Vesturports fara aftur á fjalirnar í London en sýningin verður á fjölum Þjóðleikhússins út nóvember.  

Jólasýningarnar munu fara á fullt í lok nóvember. Það verður mikið framboð á jólaleikritum þetta árið, bæði gömlum og nýjum.  Vegna samstarfs við MBL og Morgunblaðið hafa þær sýningar verið bókaðar óvenju snemma þetta árið og stefnir allt í að allar sýningarnar verði uppseldar áður en langt um líður. 

 


Mikil ánægja með samstarfið við MBL

Með samstarfi allra leikhúsa í landinu við Morgunblaðið og MBL er óhætt að fullyrða að sýnileiki aðildarféla SL hefur aukist mikið.  Alls eru 27 sýningar á vegum atvinnuleikhópa í boði þessa dagana á www.mbl.is/leikhus  Þetta samstarf hefur gert það að verkum að almenningur hefur betri aðgang að upplýsingum um ÖLL verk sem eru í sýningu þess dagana, burtséð frá fjárhag og umfangi starfsemi sviðslistahópa og stofnana.  Einnig er ánægjulegt að sjá hversu margir atvinnuleikhópar eru farnir að nýta sér bloggið til að miðla upplýsingum, myndum, tónlist og myndböndum um sýningar sínar.   


Mikil aðsókn hjá sjálfstæðum leikhúsum

null

Aðsókn á sýningar sjálfstæðu leikhúsanna hefur stóraukist undanfarin ár. Síðastliðið leikár er engin undantekning þar sem heildaráhorfendafjöldi á sýningar sjálfstæðra leikhúsa var 255.000.
Áttatíu og tvö sviðsverk voru sýnd á liðnu leikári og að meðaltali voru sýndar fjórar sýningar á dag alla tólf mánuði leikársins hjá sjálfstæðum leikhúsum.

Hópar innan SL hafa margir hverjir einbeitt sér að leiklistaruppeldi barna og unglinga um allt land. Hér eru meðal annars á ferðinni farandleikhópar sem ferðast með sýningar sínar í skóla og leikskóla landsins og bjóða upp á fjölbreytt úrval sýninga. Eins hafa hópar sem setja upp verk fyrir fullorðna ferðast víða um landsbyggðina á liðnu ári. Áhorfendafjöldi sjálfstæðra leikhúsa á landsbyggðinni jókst nokkuð milli ára en 35.000 manns sáu sýningar sjálfstæðra leikhúsa á ferðum þeirra um landið.

Það er sjálfstæðum leikhúsum mikil ánægja og hvatning í starfi hversu vel landsmenn hafa tekið sýningum þeirra. Áhugi þeirra sýnist hvað best með þeim fjölda gesta sem kjósa að sjá sýningar sjálstæðra leikhúsa.

Auk þess að ferðast um Ísland hafa sjálfstæð leikhús verið öflug við að leggja sitt að mörkum við að kynna íslenska menningu á erlendri grund. 25.000 áhorfendur erlendis nutu sýninga sjálfstæðra leikhúsa. Ekkert lát verður á útrás sjálfstæðra leikhúsa á komandi leikári. Danshópar munu ferðast um alla Evrópu, Skoppa og Skrýtla hafa nýlokið ferð til Togo í Afríku en eru nú þessa dagana að sýna í New York. Mr. Skallagrímsson mun ferðast til Svíþjóðar og Danmerkur á næstunni og eins verður Vesturport á faraldsfæti til Englands, Bandaríkjanna, Þýskalands, Mexíkó og víðar.


Skoppa og Skrítla besta barnaefnið

Skoppa og Skrítla

Tímaritið Time Out New York Kids hefur valið leikritið Skoppa og Skrítla snúa aftur, besta barnaefnið. Leikkonunum Lindu Ásgeirsdóttur og Hrefnu Hallgrímsdóttur, sem leika Skoppu og Skrítlu, var tilkynnt þetta með tölvupósti í dag. Þær voru beðnar um að senda bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS NEWS efni til að sýna í barnatíma.

Þær sendu Þjóðleikhúsuppfærslu af Skoppu og Skrítlu. Tímaritið Time Out New York Kids velur besta fjölskylduviðburð hverrar helgar í fréttatíma CBS News. Linda Ásgeirsdóttir segir að þær fljúgi til New York á morgun en þar í borg verður sýningin um Skoppu og Skrítlu sýnd á fjórum til fimm stöðum.

Um tvö þúsund miðar hafa þegar verið seldir þannig að uppselt er á allar sýningar nema eina. Linda býst fastlega við að bæta þurfi við sýningum. Ný sýning - Skoppa og Skrítla í álfaleit verður síðan frumsýnd í Scandinavian House í New York fyrsta nóvember á menningar-og listahátíð fyrir börn. Þar eru þær stöllur fulltrúar Íslands, Lína Langsokkur fyrir Svíþjóð, Múmínálfarnir fyrir FInnland og Tröllasögur frá Noregi.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband