24.9.2009 | 11:47
Eru sjálfstæðir leikhópar á vetur setjandi?
Eftir Gunnar I. Gunnsteinsson: "Einnig gerir slíkur sveigjanleiki þeim kleift að bregðast við ógnum sem steðja að starfseminni og nýta tækifærin til fulls."
SÍÐASTA sumar skilaði undirritaður MA-ritgerð sinni í menningar- og menntastjórnun við Háskólann á Bifröst. Ritgerðin bar titilinn: Starfsgrundvöllur sjálfstæðra atvinnuleikhópa. Vegna efnahagsástandsins og boðaðs niðurskurðar í ríkisfjármálum ásamt því að stærstu fjölmiðlar landsins munu ekki gagnrýna allar sýningar sjálstæðra atvinnuleikhópa er rétt að rifja upp nokkur atriði er snúa að sjálfstæðum atvinnuleikhópum á Íslandi og byggja á rannsókninni.
Sveigjanleiki og fjármagn
Rannsóknin leiddi í ljós að sökum þess að starfsumhverfi sjálfstæðra atvinnuleikhópa er sveigjanlegt og án allrar yfirbyggingar skapar það þeim sérstöðu til að bregðast hratt við samfélagslegu áreiti og uppákomum, sem skilar sér í forvitni áhorfenda og aukinni aðsókn. Einnig gerir slíkur sveigjanleiki þeim kleift að bregðast við ógnum sem steðja að starfseminni og nýta tækifærin til fulls. Hið síbreytilega starfsumhverfi sjálfstæðra atvinnuleikhópa kallar á úthlutunarkefi sem tekur mið af þessum eiginleikum starfsins. Krafan um mælanleika menningar, sem síðar er notuð sem grundvöllur úthlutunar opinbers fjármagns til sviðslista, hefur því miður ekki nýst til stefnubreytinga á skiptingu fjármagnsins til sviðslista heldur hefur verið viðhaldið ákveðnu ástandi sem á rætur í stefnumörkun leiklistarlaga frá 1998. Enn hafa ekki borist fréttir úr menntamálaráðuneytinu um hvort fjármagn til sjálfstæðra sviðslistahópa verður skorið niður á næsta ári. Bandalag sjálfstæðra atvinnuleikhópa SL hefur sýnt fram á að um 400 einstaklingar hafi atvinnu af starfsemi hópanna ár hvert. Í því ástandi sem nú er og í baráttunni við atvinnuleysið verður það að teljast undarlegt ef ráðamenn ákveða að höggva stórt í þá litlu köku sem sjálfstæðir atvinnuleikhópar hafa aðgang að.
Ný íslensk verk
Nú liggur það fyrir að stærstu fölmiðlar landsins ætla ekki að gagnrýna allar sýningar sjálfstæðra atvinnuleikhópa á næsta ári. Það veldur miklum vonbrigðum og vekur gamlar spurningar um flokkun á þeim sem eru inni og hina sem þurfa á hírast úti í kuldanum. Hvaða sjónarmið ráða slíkri flokkun? Uppistaðan í verkefnaskrá sjálfstæðra atvinnuleikhópa er frumsköpun. Slíkt hefur verulega þýðingu því hóparnir eru orðnir eins konar uppeldisstöð fyrir nýja leikara, dansara, leikstjóra, tónlistarmenn og leikskáld. Ef teknar eru saman tölur um úthlutun Leiklistarráðs af fjárlagaliðnum Til starfsemi atvinnuleikhópa frá árunum 2004-2008 koma í ljós mjög áhugaverðar niðurstöður. Leiklistarráð leggur áherslu á að styrkja uppsetningar á nýjum íslenskum verkum. Barna- og danssýningar eru eingöngu ný íslensk verk og því er hlutur íslenskra verka um 78% af öllum þeim sem ráðið ákveður að styrkja á þessu tímabili. Erlend verk eiga ekki miklu brautargengi að fagna í þessum úthlutunum. Þau erlendu verk sem ganga í augun á ráðinu eru nýjar leikgerðir af klassískum verkum og því á ferðinni viss nýsköpun í formi tilraunar með vinnuaðferðir og bræðing listforma. Þetta sýnir að hóparnir, studdir af úthlutunarstefnu Leiklistarráðs, sinna tilraunum og nýsköpun, sem stærri og fjárfrekari listastofnanir veigra sér við af augljósum ástæðum.
Samstarf
Vegna skorts á sýningaraðstöðu og samfellu í starfi atvinnuleikhópa hefur samstarf stofnanaleikhúsa og atvinnuleikhópa færst í vöxt. Leikhóparnir njóta þá aðgangs að miðasölukerfi, tækjabúnaði og annarri aðstöðu húsanna. En með slíku samstarfi tryggja hóparnir sér líka viðurkenningu í formi umfjöllunar og gagnrýni helstu fjölmiðla landsins. Það er svo undir hælinn lagt hvort almenningur og ráðamenn gera einhvern greinarmun á því hvað eru sýningar sjálfstæðra leikhópa innan stofnananna og hvað er framleiðsla stofnananna sjálfra. Samstarfið veldur því sem sé að sýnileiki leikhópanna hverfur. En samstarfið getur mögulega gagnast stofnunum, sem fá viðurkenningu fyrir samstarfið með auknum fjárveitingum eða minni niðurskurði. Það má því spyrja sig hvort þetta geri þeim sjálfstæðu hópum sem starfa eingöngu fyrir utan stofnanirnar erfitt fyrir og valdi því að þeir fái síður umfjöllun um sýningar sínar, og verði af þeim orskökum síður sýnilegir áhorfendum. Huga þarf að jöfnuði milli hópanna í þessu sambandi. Í því efnahagsástandi sem nú er á Íslandi hefur sýnt sig að sjálfstæðir sviðslistamenn leita á ný mið til að halda áfram starfsemi. Nýjustu áhorfendatölur frá atvinnuleikhópunum sýna að þeir fengu stærri hluta áhorfenda sinna erlendis en hér heima á síðasta leikári. Meðan stærsti fjármögnunaraðili hópanna, áhorfendur á Íslandi, fer í gegnum keppu leita sviðslistahóparnir út fyrir landsteinana eftir rekstrarfjármagni, sem skilar sér í því að þeir koma heim með dýrmætan gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Eins og áður segir þá tekur starfsemi hópanna alltaf mið af ástandinu í samfélaginu. Það sem er líka mikilvægt fyrir frjótt starf sjálfstæðra sviðslistahópa er að þeir njóti sanngjarns stuðnings stjórnvalda á fjárlögum og að fjölmiðlar séu iðnir við að fjalla um starfsemi þeirra, gefa þeim uppbyggilega gagnrýni.Höfundur er MA í menningar- og menntastjórnun.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Lífstíll, Menntun og skóli, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.