Eftirfarandi yfirlýsing frá Bandalagi Sjálfstæðra leikhópa birtist í Morgunblaðinu 9. febrúar
Stjórn Bandalags jálfstæðra leikhópa (SL) fagnar ummælum menntamálaráðherra í Morgunblaðinu 6. desember síðastliðinn, þar sem hann lýsir sig reiðubúinn til að endurskoða fyrirkomulag á fjárframlögum hins opinbera til sviðslistastarfsemi í landinu. Yfirlýsing ráðherrans er mikið fagnaðarefni.
Þegar litið er til þeirra breytinga sem átt hafa sér stað í sviðslistaumhverfi landsins síðastliðin fimmtán ár sést glögglega að fjárframlög hins opinbera til leiklistarstarfsemi í landinu endurspeglar ekki þá þróun sem orðið hefur. Á undanförnum árum og áratugum hefur fjöldinn allur af sjálfstæðum atvinnuleikhópum komið fram á sjónarsviðið og margir listamenn kjósa núorðið að starfa sjálfstætt að eigin listsköpun frekar en að starfa sem opinberir starfsmenn í ríkisreknum leikhúsum. Sjálfstæð atvinnuleikhús hafa séð og nýtt sér ýmis sóknarfæri á sviðum sem stofnanaleikhúsin hafa lítið verið að sinna og byggt þar upp trygga áhorfendahópa og skapandi starfsvettvang.
Nú er svo komið að hin fjölmörgu sjálfstæðu atvinnuleikhús sem starfa á Íslandi hafa að miklu leyti séð um leikhúsuppeldi barna- og unglinga um allt land, staðið fyrir nýsköpun í sviðslistum, gefið ungum leikstjórum tækifæri sem og nýjum leikskáldum. Áhorfendur hafa tekið starfi sjálfstæðu leikhúsanna fagnandi en það sanna áhorfendatölur. Á síðasta ári sáu nálega 250 þúsund áhorfendur sýningar sjálfstæðra atvinnuleikhópa og hefur aukningin verið í kringum 30% síðastliðin tvö ár.
Opinber fjárframlög hafa hins vegar ekki fylgt þessari þróun sem orðið hefur undanfarin áratug. Þrátt fyrir að standa fyrir fleiri sýningum og fyrir fleiri áhorfendur en stofnanaleikhúsin samanlagt kemur einungis 5% af því fé sem hið opinbera ver til leikhússtarfsemi í landinu í hlut sjálfstæðra atvinnuleikhópa. Það er því ánægjulegt að menntamálaráðherra sé nú tilbúinn í viðræður um að rétta hlut sjálfstæðra atvinnuleikhópa og viðurkenna þannig þeirra mikilvæga starf. Stjórn SL er tilbúið til þátttöku í þeim viðræðum eins og kom fram í erindi stjórnar SL sem sent var menntamálaráðherra 2. október síðastliðinn.
Aino Freyja Jarvela, formaður Bandalags sjálfstæðra leikhópa (SL)
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.2.2008 kl. 13:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.