Hið falda afl í íslensku leikhúslífi

Ekki er víst að allir leikhúsgestir átti sig á því falda afli sem býr í starfsemi sjálfstæðu atvinnuleikhópanna á Íslandi. Ef fjárframlög til leiklistar í landinu eru skoðuð mætti ætla að þrjár stofnanir standi fyrir svo til öllu leikhúslífi í landinu. Svo er hins vegar ekki. Staðreyndin er nefnilega sú að sjálfstæðir atvinnuleikhópar sýna fleiri sýningar og fyrir fleiri áhorfendur heldur en stofnanaleikhúsin þrjú gera til samans. Þó fá sjálfstæðir atvinnuleikhópar á Íslandi aðeins fimm prósent af öllu því opinbera fé sem varið er til leiklistar í landinu. Á þessu leikári verða til að mynda 39 frumsýningar á vegum Sjálfstæðu leikhúsanna (SL), þar af eru 34 glæný íslensk sviðsverk. Innan vébanda SL eru 59 sjálfstæðir atvinnuleikhópar sem spanna allt svið sviðslista, svo sem dansleikhús, tilraunasýningar, barnasýningar og hefðbundnar leiksýningar. Framlag sjálfstæðra atvinnuleikhópa til íslensks leikhúslífs er því gríðarlega mikið þótt annað mætti ætla af lestri fjárlaga.

Vítt og breitt
Þetta falda afl er ekki alltaf sýnilegt og því getur verið erfitt fyrir fólk að átta sig á hversu víðfem starfsemin er því sjálfstæðir atvinnuleikhópar eru ekki bundin við ákveðin hús eða staðsetningu. Eðli þeirra er enda að vera sveigjanleg, frjáls og óháð. Sem dæmi má nefna sýningar í varðskipinu Óðni í Reykjavíkurhöfn, sýningu í tjaldi í fjörunni í Nauthólsvík, barna – og unglingasýningar í fjölda skóla og daggæslurýma. Einnig eru starfrækt nokkur hefðbundin leikhús á vegum sjálfstæðra atvinnuleikhópa, svo sem Hafnarfjarðarleikhúsið, Iðnó, Möguleikhúsið, Skemmtihúsið og von bráðar mun Tjarnarbíó opna í breyttri og bættri mynd sem aðsetur sjálfstæðra atvinnuleikhópa.

Borgarleikhús sjálfstæðra atvinnuleikhópa                                
Leikfélag Reykjavíkur sér um rekstur Borgarleikhússins samkvæmt samningi við Reykjavíkurborg. Því er óvíst að gestir hússins geri sér almennt grein fyrir því að sjálfstæðir atvinnuleikhópar hafa undanfarin þrjú ár staðið fyrir í það minnsta helmingi af öllum leiksýningum sem færðar hafa verið upp á svið í Borgarleikhúsinu. Því má segja að hið falda afl sjálfstæðra atvinnuleikhópa hafi verið einn helsti bakhjarl Borgarleikhússins undangengin ár. Á fjölum Borgarleikhússins sýna sjálfstæðir atvinnuleikhópar nú sýninguna Ást og Jesus Christ Superstar sem eru á vegum Vesturports, söngkabarettinn Hér og nú sem er á vegum Sokkabandsins og hina margrómuðu sýningu Ladda, Laddi 6-tugur. Fleiri sýningar eru á leiðinni á þessu leikári svo sem Til sammans á vegum Vesturports og Óþelló, Desdemóna og Jagó á vegum Draumasmiðjunnar. Frá fyrri leikárum má til að mynda nefna sýningarnar Killer Joe, Footloose, Eilífa hamingju, Kalla á þakinu og Brilljant skilnað. Allt eru þetta sýningar sem hafa vakið athygli og áhuga almennings og endurspeglast það í áhorfendatölum Borgarleikhússins. Á síðasta leikári sóttu rúmlega 49 þúsund leikhúsgestir sýningar sjálfstæðra atvinnuleikhópa í Borgarleikhúsinu.

Opinber skekkja
Það er mikil hvatning fyrir Sjálfstæðu leikhúsin hve almennir leikhúsgestir kunna vel að meta starf sjálfstæðra atvinnuleikhópa. Því miður hefur fjárveitingarvaldið ekki séð sóma sinn í að styðja sjálfstæða leikhússtarfsemi í landinu með sama hætti og almenningur sem bókstaflega flykkist á sýningar þeirra, - um 230.000 manns á ári. Með því að hyggla eigin stofnunum með framangreindum hætti skekkir hið opinbera leikhússtarf í landinu, skerðir möguleika sjálfstæðra leikhúsa í samkeppninni svo margir neyðast til að hrökklast úr starfi sínu og hefur um leið hamlandi áhrif á listræna framþróun sjálfstæðra leikhúslistamanna.

 Grein eftir Aino Freyju,  formann SL,  sem birtist í 24stundum í dag.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband