8.1.2008 | 11:47
Úthlutun Reykjavíkurborgar
Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur úthlutaði styrkjum til verkefna- og liststarfsemi síðastliðinn föstudag. Er þetta einn af þeim sjóðum sem Sjálfstæðir atvinnuleikhópar sækja í fyrir verkefni sín. Í ár hlutu einungis fjórir atvinnuleikhópar og einstaklingar innan sjálfstæða geirans fjárveitingu úr sjóðnum. Eru það töluvert færri en hlutu fjárveitingu í fyrra.
Á föstudaginn hlaut danshópurinn Panic Productions 800 þúsund króna fjárveitingu. Sömu upphæð hlaut Ívar Örn Sverrisson sem hyggst setja Óþelló á svið. Draumasmiðjan fékk 500 þúsund krónur og dansararnir Lovísa Ósk Gunnarsdóttir og Ólöf Ingólfsdóttir hlutu 400 þúsund krónur. Samans gerir það tvær og hálfa milljón króna. Árið 2007 hlutu sjö atvinnuleikhópar fjárveitingu úr sjóðnum að samanlagðri upphæðinni 4.1 milljón króna. Er því fjárveitingin í ár töluvert lægri.
Reykjavíkurborg gerir að jafnaði samstarfssamninga við sjálfstæða atvinnuleikhópa til þriggja ára í senn og voru slíkir samningar gerðir í fyrra og eru því ekki lausir fyrr en 2009. Fimm atvinnuleikhópar eru nú á slíkum samstarfssamningi.
Það var ánægjulegt að sjá að Lókal, alþjóðleg leiklistarhátíð hlaut fjárveitingu að upphæðinni 2 milljónir króna. Hátíðin verður haldin í fyrsta sinn í mars á þessu ári. Lókal er nýmæli á sviði leiklistar í borginni og mun án efa vera þakklát viðbót við þá miklu leiklistarstarfsemi sem fyrir er í landinu. SL mun vinna í samstarfi við Lókal í framtíðinni og stefnt er að því að nýtt og endurbætt Tjarnarbíó verði miðstöð hátíðarinnar þegar húsið opnar eftir framkvæmdir í mars 2009.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:26 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.