Innrás fyrst - svo útrás

Í öllu tali um útrás þessa og útrás hins kemur upp í hugann sú grundvallar staðreynd sem oft vantar í umræðuna, að það þarf að byggja upp og styðja við bakið á vaxtasprotunum hér heima áður en farið er í útrás.   Frumsköpunin á sér stað hér heima.  Í könnun sem var gerð úti í hinum stóra heimi og kynnt hér á landi á dögunum, kom í ljós að Ísland er ekki þekkt fyrir menningu erlendis.  Samt erum við mestu menningarneytendur, miða við höfðatölu, sem um getur.  Við teljum okkur vera upplýst og með á nótunum þegar kemur að öllum þeim straumum og stefnum er viðkemur menningu og listum.  En á hverju stoppar útrás menningu og lista?  Einhver skref hafa verið tekin af stjórnvöldum m.a. á sviði tónlistar í að efla kynningu á íslenskri menningu.  Hins vegar hefur ekkert bólað á aðgerðum til að styðja við bakið á íslenskum sviðalistum og sviðslistamönnum í útrásinni.

Sjálfstæðir atvinnuleikhópar á Íslandi hafa barist fyrir auknu fjármagni frá opinberum aðilum til að geta unnið að listsköpun hér heima.   Það fjármagn sem er í boði nemur aðeins 5% af því heildar fjármagni sem rennur til sviðslista á Íslandi.  Þessu fjármagni hefur verið deilt út til ca. 10 hópa á ári.  Samt eru um 60-80 leiksýningar sýndar á hverju leikári á vegum þessara hópa.  Þessi mikla gróska hefur orðið til þess að listamenn gefa oft vinnu sína.  Slíkt gengur ekki til lengdar. Það hefur sýnt sig að meðal líftími atvinnuleikhóps eru að hámarki 5 ár en flestir gefast þá upp og hverfa til annarra starfa.  Þar með hverfur mikil þekking og reynsla á rekstri út úr sjálfstæðum atvinnuleikhópum sem verður til þess að endurnýjunin og samfellan í starfseminni er lítil sem engin.  Nýir hópar verða til, með nýju fólki sem þarf að reka sig á í stað þess að vinna við hlið þeirra sem hafa kunnáttuna og þekkinguna.

Það hefur færst í aukana að frjálsum atvinnuleikhópum er boðið að sýna á hátíðum og leikhúsum erlendis.  Það gerist þó oftar, að ekki er hægt að verða við óskum erlendis frá þar sem kostnaður við slíkar leikferðir er mikill og aðgangur að fjármagni takmarkaður og í engu samræmi við umfang og þörf.  Í sumum tilvikum hefur verið brugðið á það ráð að  fá listamennina til að fjármagna sínar ferðir sjálfir til að hægt sé að fara með verkin út.  Eftirspurnin eftir íslenskum uppsetningum frá útlöndum er gríðarleg og sorglegt að ekki skuli vera hægt að þiggja nema brot af þeim boðum sem hingað berast. 

Eitt mikilvægt skref var stigið fyrir um ári síðan.  Þá undirrituðu Reykjavíkurborg, Icelandair, Félag Íslenskra Leikar, Félag Leikstjóra á Íslandi og Félag Leikskálda og Handritshöfunda samkomulag um Talíu, loftbrú.  Slíkur samningur hefur gert fleirum kleift að sýna sýningar sínar erlendis.  Slíkt samkomulag er þó aðeins eitt skref af mörgum sem verður að taka hér heima áður en lengra er haldið.  Aukin fjárstuðningur við atvinnuleikhópa er frumforsenda þess að við höfum eitthvað fram að færa í hinum stóra heimi.  Hefjum innrásina - útrásin kemur í kjölfarið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband