22.10.2007 | 14:44
Mikil ánægja með samstarfið við MBL
Með samstarfi allra leikhúsa í landinu við Morgunblaðið og MBL er óhætt að fullyrða að sýnileiki aðildarféla SL hefur aukist mikið. Alls eru 27 sýningar á vegum atvinnuleikhópa í boði þessa dagana á www.mbl.is/leikhus Þetta samstarf hefur gert það að verkum að almenningur hefur betri aðgang að upplýsingum um ÖLL verk sem eru í sýningu þess dagana, burtséð frá fjárhag og umfangi starfsemi sviðslistahópa og stofnana. Einnig er ánægjulegt að sjá hversu margir atvinnuleikhópar eru farnir að nýta sér bloggið til að miðla upplýsingum, myndum, tónlist og myndböndum um sýningar sínar.
Menning og listir | Breytt 23.10.2007 kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2007 | 18:18
Mikil aðsókn hjá sjálfstæðum leikhúsum
Aðsókn á sýningar sjálfstæðu leikhúsanna hefur stóraukist undanfarin ár. Síðastliðið leikár er engin undantekning þar sem heildaráhorfendafjöldi á sýningar sjálfstæðra leikhúsa var 255.000.
Áttatíu og tvö sviðsverk voru sýnd á liðnu leikári og að meðaltali voru sýndar fjórar sýningar á dag alla tólf mánuði leikársins hjá sjálfstæðum leikhúsum.
Hópar innan SL hafa margir hverjir einbeitt sér að leiklistaruppeldi barna og unglinga um allt land. Hér eru meðal annars á ferðinni farandleikhópar sem ferðast með sýningar sínar í skóla og leikskóla landsins og bjóða upp á fjölbreytt úrval sýninga. Eins hafa hópar sem setja upp verk fyrir fullorðna ferðast víða um landsbyggðina á liðnu ári. Áhorfendafjöldi sjálfstæðra leikhúsa á landsbyggðinni jókst nokkuð milli ára en 35.000 manns sáu sýningar sjálfstæðra leikhúsa á ferðum þeirra um landið.
Það er sjálfstæðum leikhúsum mikil ánægja og hvatning í starfi hversu vel landsmenn hafa tekið sýningum þeirra. Áhugi þeirra sýnist hvað best með þeim fjölda gesta sem kjósa að sjá sýningar sjálstæðra leikhúsa.
Auk þess að ferðast um Ísland hafa sjálfstæð leikhús verið öflug við að leggja sitt að mörkum við að kynna íslenska menningu á erlendri grund. 25.000 áhorfendur erlendis nutu sýninga sjálfstæðra leikhúsa. Ekkert lát verður á útrás sjálfstæðra leikhúsa á komandi leikári. Danshópar munu ferðast um alla Evrópu, Skoppa og Skrýtla hafa nýlokið ferð til Togo í Afríku en eru nú þessa dagana að sýna í New York. Mr. Skallagrímsson mun ferðast til Svíþjóðar og Danmerkur á næstunni og eins verður Vesturport á faraldsfæti til Englands, Bandaríkjanna, Þýskalands, Mexíkó og víðar.
Menning og listir | Breytt 23.10.2007 kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2007 | 17:50
Skoppa og Skrítla besta barnaefnið
Tímaritið Time Out New York Kids hefur valið leikritið Skoppa og Skrítla snúa aftur, besta barnaefnið. Leikkonunum Lindu Ásgeirsdóttur og Hrefnu Hallgrímsdóttur, sem leika Skoppu og Skrítlu, var tilkynnt þetta með tölvupósti í dag. Þær voru beðnar um að senda bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS NEWS efni til að sýna í barnatíma.
Þær sendu Þjóðleikhúsuppfærslu af Skoppu og Skrítlu. Tímaritið Time Out New York Kids velur besta fjölskylduviðburð hverrar helgar í fréttatíma CBS News. Linda Ásgeirsdóttir segir að þær fljúgi til New York á morgun en þar í borg verður sýningin um Skoppu og Skrítlu sýnd á fjórum til fimm stöðum.
Um tvö þúsund miðar hafa þegar verið seldir þannig að uppselt er á allar sýningar nema eina. Linda býst fastlega við að bæta þurfi við sýningum. Ný sýning - Skoppa og Skrítla í álfaleit verður síðan frumsýnd í Scandinavian House í New York fyrsta nóvember á menningar-og listahátíð fyrir börn. Þar eru þær stöllur fulltrúar Íslands, Lína Langsokkur fyrir Svíþjóð, Múmínálfarnir fyrir FInnland og Tröllasögur frá Noregi.
Menning og listir | Breytt 23.10.2007 kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2007 | 11:55
Leikár sjálfstæðu leikhúsanna komið á skrið
Starfsemi sjálfstæðu leikhúsanna er komið í fullan gang. Þrjár frumsýningar hafa nú þegar litið dagsins ljós. Stoppleikhópurinn reið á vaðið og frumsýndi nýtt íslenskt verk eftir Þorvald Þorsteinsson, Óræðni maðurinn, í Tjarnarbíói í lok september. Verkið er farandsýning sem sýnt verður fyrir unglinga í skólum nú í vetur.
Um helgina voru tvær frumsýningar. Annars vegar var Ævintýri í Iðnó, sagnaskemmtun eftir og í flutningi Guðrúnar Ásmundsdóttur, frumsýnt í Iðnó en verkið verður á fjölum þessa 110 ára leikhúss í vetur. Hins vegar var verðlaunaverkið Svartur fugl eftir David Harrower frumsýnt í Hafnarfjarðarleikhúsinu á laugardagskvöldið. Svartur fugl er samstarfsverkefni Hafnarfjarðarleikhússins og Kvenfélagsins Garps.
Enn mun fjölga í frumsýningaflóru sjálfstæðu leikhúsanna á morgun þegar Draumasmiðjan frumsýnir leikverkið, Ég á mig sjálf, eftir Gunnar Inga Gunnsteinsson. Verkið er forvarnarverk um átröskunarsjúkdóminn anorexíu og mun ferðast um skóla landsins í vetur.
Leikverk frá síðasta leikári eru komin aftur á svið svo sem Grímuverðlaunaverkið Abbababb í Hafnarfjarðarleikhúsinu, Killer Joe, Ást og Laddi 6-tugur í Borgarleikhúsinu. Auk allra barna- og unglingasýninga Möguleikhússins og Stoppleikhússins.
Möguleikhúsið hefur það sem af er hausti farið í tvær leikferðir út á land. Verkið Sæmundur fróði fór á Vestfirði og Landið Vifra á Norðurland. Skoppa og Skrítla eru einnig komnar heim úr vel heppnaðri leikferð til Togo í Afríku.
Það er því nóg að gera hjá sjálfstæðum leikhúsum og fljótlega munu bætast við sýningar þar sem æfingar standa yfir hjá Strengjaleikhúsinu, Sokkabandinu, Draumasmiðjunni og Vesturporti svo dæmi séu tekin.
Sjáumst í leikhúsinu.
Menning og listir | Breytt 19.10.2007 kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2007 | 11:51
Hækkun á fjárlögum 2008 til starfsemi atvinnuleikhópa
Samkvæmt fjárlögum 2008 hefur menntamálaráðuneytið lagt til 9 milljón króna hækkun í sjóðinn Starfsemi atvinnuleikhópa. Verða þá 60.1 milljón krónur til úthlutunar á næsta ári til SL hópanna. SL fagnar þessari viðurkenningu á því öfluga og óeigingjarna starfi sjálfstæðra atvinnuleikhópa við eflingu sviðslistaumhverfisins á Íslandi.
Sjálfstæð leikhús verða með kraftmikla og fjölbreytta dagskrá á fjölunum í vetur. Þrjátíu og fjórar nýjar leiksýningar, söngleikir, barnasýningar og danssýningar munu líta dagsins ljós. Leikhúsin munu gera tilraunir, kanna nýjar vinnuaðferðir, kynna framsækin innlend og erlend leikskáld og stuðla áfram að frum- og nýsköpun innan sviðslista. Á komandi leikári verða þau einnig öflug í erlendu samstarfi og við kynningu íslenskra sviðslista utan landssteinanna. Hópar innan Sjálfstæðu leikhúsanna hafa margir hverjir einbeitt sér að leiklistaruppeldi barna og unglinga um land allt undanfarin ár. Hér eru til að mynda á ferðinni farandleikhópar sem ferðast með sýningar sínar í skóla og leikskóla landsins og bjóða upp á fjölbreytt úrval sýninga. Á þennan hátt kynnast börn og unglingar brúðuleikhúsi, nýjum íslenskum tónverkum, Íslendingasögunum, ljóðskáldum og nýjum íslenskum verkum.
Á komandi leikári verða 11 frumsýningar á nýjum sviðsverkum fyrir þennan aldurshóp á vegum Sjálfstæðra leikhúsa. Þetta leikárið verður einnig afar öflug starfsemi í dansgeiranum og munu danshópar halda áfram að kynna íslenska danslist erlendis, til að mynda út um alla Evrópu. Önnur sjálfstæð leikhús munu einnig kynna íslenska menningu víða um lönd en af þeim verður víðförulst sýning Vesturports á Till sammans sem stefnir á ferðir til Englands, Bandaríkjanna, Þýskalands og Mexíkó. Skoppa og Skrítla munu einnig skemmta börnum í Afríku og New York. Eins og ávallt munu Sjálfstæð leikhús einnig sína fjölmörg hefðbundin leikverk þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Menning og listir | Breytt 19.10.2007 kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2007 | 13:58
Heimsóknir á www.leikhopar.is hafa aukist um 42%
Menning og listir | Breytt 19.10.2007 kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2007 | 11:32
Tjarnarbíó
Það er margt á döfinni í Tjarnarbíó fram að áramótum. Stopp leikhópurinn frumsýnir um næstu helgi nýtt verk eftir Þorvald Þorsteins - Ungi maðurinn. Í kjölfarið verður Alþjóðleg kvikmydnahátíð í Tjarnarbíói fram í byrjun október. Árinu líkur svo með sýningu Fjalakattarins á Heddu Gabler eftir Ibsen en áætlað er að frumsýna verkið um miðjan nóvember. Sýningar eru áætlaðar fram í miðjan desember. Einnig er von á bíósýningum á sunnudögum og mánudögum í nóvember og desember. Það er því nóg að gerast í Tjarnarbíó!
Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um Tjarnarbíó með því að fara inn á www.leikhopar.is og smella á Tjarnarbíó vinstra megin á síðunni. Þar eru m.a. teikningar af þeim breytingum sem SL hefur lagt til við Reykjavíkurborg að ráðist verði í.
Menning og listir | Breytt 19.10.2007 kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2007 | 11:17
Stefnuyfirlýsing SL
SJÁLFSTÆÐU LEIKHÚSIN
Bandalag atvinnuleikhópa
stofnað 1985
Stefnuyfirlýsing
1. Sjálfstæðu leikhúsin (SL) er vettvangur hagsmunagæslu og samhæfingar sjálfstæðra atvinnuleikhópa á Íslandi. SL er í forsvari fyrir atvinnuleikhópana gagnvart stjórnvöldum og vinnur að bættu starfsumhverfi þeirra og auknum sýnileika. SL stendur vörð um hagsmuni atvinnuleikhópanna svo þeir geti starfað frjálsir, óháðir og á eigin forsendum.
2. SL styður síbreytilega starfsemi atvinnuleikhópanna svo þeir geti svarað kalli samtímans með því að bregðast skjótt við samfélagslegum áskorunum og verið sívirk og frjó kvika í listalífinu. Til að geta vænst listrænnar þróunar þarf að búa sviðslistastarfsemi skilyrði til þroska sem byggja á víðtækum rannsóknum og tilraunum á formi sviðslistanna. Frelsi og sköpunarmáttur sviðslista felst í fjárhagslegu sjálfstæði starfseminnar sem er undirstaða þess að atvinnuleikhóparnir geti starfað af samfélagslegri ábyrgð, framsýni og listrænum metnaði.
3. SL vill stuðla að öflugu alþjóðlegu tengslaneti með virkri aðild að alþjóðasamtökum tengdum sviðslistum, bæði norrænum, evrópskum og á heimsvísu. Þannig byggir SL loftbrú fyrir sjálfstætt starfandi atvinnuleikhópa á Íslandi til miðlunar og þróunar í alþjóðasamfélaginu. Þátttaka SL á alþjóðlegum vettvangi skapar raunhæfan grundvöll fyrir áframhaldandi útrás og innrás atvinnufólks í sviðslistum í framtíðinni.
4. Markmið SL er að á Íslandi geti þrifist fjölbreytt og skapandi samfélag þar sem hagsmunum þeirra atvinnuleikhópa, skipuðum menntuðum sviðslistamönnum sem kjósa að starfa sjálfstætt, sé gætt. SL væntir þess að starf það sem unnið er meðal atvinnuleikhópanna verði allri sviðslistastarfsemi í landinu hvati og aflgjafi.
Menning og listir | Breytt 19.10.2007 kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2007 | 11:34
Tímamótasamningur
Hugmyndin með samstarfinu er að neytendur geti nýtt sér þjónustu Morgunblaðsins og mbl.is til að velja úr þeim fjölmörgu söng-, óperu-, dans- og leiksýningum sem í boði eru á ári hverju. Að samningnum standa Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið, Leikfélag Akureyrar, Íslenski dansflokkurinn, Íslenska óperan, Landnámssetrið og Sjálfstæðu leikhúsin sem alls eru 57 sjálfstæðir leikhópar.
Mikið af leiksýningum SL hafa verið í felum fram að þessu, til dæmis barna og unglingasýningar. Hér hefur skapast tækifæri til að veita áhorfendum grunnupplýsingar um alla starfsemi aðildarfélaga SL án mikils kostnaðar. Með þessu samstarfi opnast möguleiki fyrir alla til að vera sjáanlegir, einnig litlu leikhúsin. Það er von SL að sem flestir nýti sér þetta tækifæri og sjáanleiki aðildarfélaga okkar verði meiri.
Slóðin á leikhúsvef mbl.is er http://www.mbl.is/mm/folk/leikh/.
Bloggar | Breytt 19.10.2007 kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2007 | 15:03
www.leikhopar.is
Menning og listir | Breytt 19.10.2007 kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)