Færsluflokkur: Ferðalög

Vesturport í Hong Kong

Vesturport sýndi Hamskiptin í Hong kong um síðustu helgi.  Alls voru sýndar fjórar uppseldar sýningar fyrir 4800 áhorfendur og fékk hún frábærar viðtökur og dóma í blöðunum.  Ferðalag sýningarinnar heldur áfram en sýndar verða um 20 sýningar í Tasmaníu og Ástralíu í mars og apríl.  Næsta verkefni Vesturports verður Fást en stefnt er að því að frumsýna hana næsta haust.

Hægt er að skoða myndaalbúm úr ferðinni hér á síðunni

Sýningin fékk 5 stjörnur í Time out - Hong Kong: http://www.timeout.com.hk/stage/features/20768/review-metamorphosis.html 


HÉR & NÚ! í Tampere

LEIKSÝNINGIN Hér og nú hefur verið valin til þátttöku á leiklistarhátíðinni í Tampere í Finnlandi sem haldin verður 4.-10. ágúst nk.

HÉR & NÚ er nýr íslenskur nútímasöngleikur, eins konar “revía”, sem sýndur var á Litla sviði Borgarleikhússins í uppsetningu Sokkabandsins. Verkið samanstendur af uppistandi, stuttum leikþáttum, eintölum, leikjum, dansnúmerum og frumsömdum og stórskemmtilegum sönglögum. Efniviðurinn er tekinn úr heimi glanstímarita eins og Séð & Heyrt, Hér & Nú og Vikunni sem og spjallþátta, bloggsíðna og annarra fjölmiðla sem hafa það að leiðarljósi að skemmta okkur íslendingum með dramatískum lífsreynslusögum og fréttum af fræga fólkinu.

Talía - loftbrú

Til að geta fengið úthlutun úr Talíu þurfa umsækjendur að vera fullgildir félagar í FÍL, FLÍ eða FLH og leggja fram tilskilin gögn er staðfesti boð um þátttöku í leiklistarviðburði erlendis.  Talía – Loftbrú er samstarfssamningur milli Reykjavíkurborgar, Icelandair, Glitnis, Félags íslenskra leikara( FÍL ), Félags leikstjóra á Íslandi ( FLÍ ) og Félags leikskálda og handritshöfunda ( FLH) um Talíu – Loftbrú Reykjavíkur til þess að styðja við bakið á framsæknum leikurum, dönsurum, söngvurum, leikmynda- og búningahöfundum, leikstjórum og leikskáldum sem hefur verið boðið að sýna list sína á erlendri grund.Talía - Loftbrú er liður í því að gera Reykjavíkurborg að vettvangi alþjóðlegra listastrauma og að liðka fyrir samskiptum sviðslistamanna milli Reykjavíkur og umheimsins.

Styrkir eru veittir í formi flugmiða til áfangastaða Icelandair í Evrópu eða Ameríku og yfirvigtar auk peningaupphæðar sem nemur að hámarki kr. 12.500 fyrir hvern þátttakanda.  Umsóknum skal fylgja ítarleg og greinargóð lýsing á verkefninu, upplýsingar um sýningu, sýningarstað eða annað það sem við á hverju sinni.  Einnig skal fylgja staðfestingábyrgðarmanns verkefnisins í því landi sem það fer fram.  Dagsetningar verkefnisins verða að koma fram.  Sjóðurinn er ætlaður sjálfstætt starfandi listamönnum og styrkir ekki verkefni sem framleidd eru og styrkt verulega af opinberum aðilum.  Styrkþegar undirgangast skuldbindingar gagnvart sjóðunum samkvæmt sérstökum samningum sem gerðir verða í kjölfar úthlutunar og kveður m.a. á um að styrkþegum beri að skila stuttri greinargerð um notkun styrksins.  Mikilvægt er að hafa umsóknina vandaða, skýra og hnitmiðaða.  Ef sótt er um styrk fyrir fleira en eitt verkefni, skal fylla út sér eyðublað fyrir hvert verkefni fyrir sig.  Styrkþegar fá staðfestingu á úthlutun, sem gildir í 3 mánuði frá áætlaðri brottför. Hafi styrkþegi ekki gengið frá bókun farseðla innan þess tíma fellur úthlutunin niður.

Umsóknareyðublöð, stofnskrár og reglur um úthlutun er að finna á heimasíðum www.fil.is  www.leikstjorar.is og www.leikskald.is  Nánari upplýsingar um Talíu eru einnig veittar á skrifstofu FÍL s. 552-6040 fil@fil.is

Umsóknum skal skilað til skrifstofu FÍL, Lindargötu 6, 101 Reykjavík.

Næsti umsóknarfrestur rennur út 30 apríl 2008.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband