Færsluflokkur: Bloggar

Umsóknir til Menningaráætlunar Evrópusambandsins.

Menningaráætlun Evrópusambandsins veitir styrki til verkefna í öllum listgreinum og á sviði menningararfleifðar auk þess að styrkja starfsemi evrópskra tengslaneta og menningarstofnana. Áætluninni er ekki skipt milli menningarsviða. Samstarfsverkefni geta verið innan einnar listgreinar eða menningarsviðs, s.s. leiklistar, tónlistar, myndlistar, menningararfs o.s.frv. eða verið þverfagleg í samstarfi ólíkra greina.

Hægt er að sækja um:
- Styttri samstarfsverkefni (Strand 1.2.1)
Meðal skilyrða er að verkefnið sé samstarfsverkefni a.m.k 3 landi og standi yfir í mesta 2 ár.Styrkfjárhæð 50 – 200 þúsund evrur.
Umsóknarfrestur 1. október

- Samstarf til lengri tíma (Strand 1.1.)
Meðal skilyrða er að verkefnið sé samstarfsverkefni a.m.k 6 landa og standi yfir í 3-5 ár. Styrkfjárhæð 200 – 500 þúsund evrur á ári.
Umsóknarfrestur 1. október.

Nánari upplýsingar og tengingar á umsóknareyðblöð ofl. eru á vefsíðu Upplýsingaþjónustu Menningaráætlunar ESB www.evropumenning.is

Maddid í Hafnarfjarðarleikhúsinu 5-6 Sept 2008

Einleikurinn Maddid eftir Maddid Theatre Company verður í Hafnarfjarðarleikhúsinu helgina 5-6 September kl 20:00

Leikfélagið Maddid Theatre Company, sem starfar aðallega í London, sýnir sviðslistasýninguna Maddid í Hafnarfjarðarleikhúsinu næstkomandi föstudags- og laugardagskvöld kl. 20:00.

Með hlutverk Maddidar fer leikkonan Vala Ómarsdóttir. Vala stofnaði leikfélagið ásamt leikhúsframleiðandanum Mari Rettedal fyrir rúmu ári en síðan þá hafa fleiri listamenn bæst í hópinn. Maddid Theatre Company er fjölþjóðlegur hópur með rætur á Íslandi. Að sýningunum standa listamenn frá fimm löndum, Íslandi, Noregi, Bretlandi, Spáni og Brasilíu.  Hefur verkið verið sýnt í leikhúsinu The Space í London á seinasta ári og á Kuiperfest listahátíðinni í Aragon á Spáni í júní sl. Maddid var sett upp á sviðslistahátíðinni artFart í nýliðnum mánuði og er leikhópurinn nýkominn úr vel heppnaðri sýningarferð til Vestmannaeyja.

Miðasala:
s 555 2222
www.midi.is
www.hhh.is
og við innganginn.


Starfslaun listamanna

 

Hér með eru auglýst til umsóknar starfslaun listamanna sem úthlutað verður árið 2009, í samræmi við ákvæði laga nr. 35/1991 með áorðnum breytingum.

 Starfslaunin eru veitt úr fjórum sjóðum, þ.e.:

  • 1.   Launasjóði rithöfunda
  • 2.   Launasjóði myndlistarmanna
  • 3.   Tónskáldasjóði
  • 4.   Listasjóði

Umsóknir einstaklinga, ásamt fylgigögnum, skulu berast Skrifstofu Stjórnar listamannalauna, Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík, á þar til gerðum eyðublöðum fyrir  kl. 17:00 fimmtudaginn 2. október 2008.  Ef umsókn er send í pósti gildir dagstimpill pósthúss.
Umsóknir skulu auðkenndar "Starfslaun listamanna 2009" og tilgreindur sá sjóður sem sótt er um laun til.

Heimilt er að veita starfslaun úr Listasjóði til stuðnings leikhópum enda verði þeim varið til greiðslu starfslauna til einstakra leikhúslistamanna. Umsóknir leikhópa til Listasjóðs fyrir einstaka leikhúslistamenn, ásamt fylgigögnum, skulu berast Skrifstofu Stjórnar listamannalauna, Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík, á þar til gerðum eyðublöðum fyrir  kl. 17.00 fimmtudaginn 2. október 2008.  Ef umsókn er send í pósti gildir póststimpill. Umsóknir skulu auðkenndar "Starfslaun listamanna 2009 - leikhópar".

Með umsókn skal fylgja greinargerð um verkefni það sem liggur til grundvallar umsókninni ásamt upplýsingum um hve langan starfstíma er sótt um og rökstuðningi fyrir tímalengd.  Jafnframt skulu fylgja upplýsingar um náms- og starfsferil, verðlaun og viðurkenningar. Þessir þættir  skulu  að  jafnaði  liggja  til  grundvallar  ákvörðun  um úthlutun starfslauna

Athugið að hafi umsækjandi áður hlotið starfslaun verður umsókn hans því aðeins tekin til umfjöllunar að hann hafi skilað Stjórn listamannalauna skýrslu um störf sín í samræmi við ákvæði 4. gr. laga um listamannalaun nr. 35/1991 með áorðnum breytingum.

Umsóknareyðublöð fást á vef Stjórnar listamannalauna www.listamannalaun.is og á  skrifstofu  stjórnarinnar  að  Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 2. hæð.

 

Umsóknarfrestur rennur út  fimmtudaginn 2. október 2008.

 

Stjórn listamannalauna 25. júlí 2008


Brynja Kristjana Benediktsdóttir, leikstjóri

Brynja

Brynja Kristjana Benediktsdóttir leikstjóri lést á heimili sínu í Reykjavík laugardaginn 21. júní eftir skammvinn veikindi, sjötug að aldri.

Brynja fæddist í Reyni í Mýrdal 20. febrúar 1938. Foreldrar hennar voru Róshildur Sveinsdóttir, jógakennari og húsmóðir, og Benedikt Guðjónsson kennari.

Brynja ólst upp í Mýrdal til sjö ára aldurs en eftir það í Reykjavík.

Brynja var ein af stofnendum leikfélagsins Grímu, 1961, sem var stofnað til að kynna ný íslensk leikverk. Á síðasta áratug byggði Brynja og rak, ásamt Erlingi, Vinnustofu leikara, Skemmtihúsið við Laufásveg.

Segja má að leiklistarferill Brynju hafi risið hvað hæst með verkum sem hún samdi, ein eða með öðrum, og setti upp. Inúk, frumsýnt 1973, hlaut fádæma viðtökur víða um heim og sama má segja um Ferðir Guðríðar sem Brynja frumsýndi í Skemmtihúsinu árið 2000. Sú sýning er enn eftirsótt á leiklistarhátíðir og var síðast sýnt í Kólumbíu. Boðsferð til Quebec í Kanada var framundan.

Brynja var virkur þáttakandi í starfi SL og tók m.a. þátt í fyrsta fundi EON á Ítalíu sl. sumar ásamt því að sitja sem fulltrúi SL í aðalvalnefnd Grímunar á síðasta leikári.  SL vottar aðstandendum Brynju sína dýpstu samúð.


HÉR & NÚ! í Tampere

LEIKSÝNINGIN Hér og nú hefur verið valin til þátttöku á leiklistarhátíðinni í Tampere í Finnlandi sem haldin verður 4.-10. ágúst nk.

HÉR & NÚ er nýr íslenskur nútímasöngleikur, eins konar “revía”, sem sýndur var á Litla sviði Borgarleikhússins í uppsetningu Sokkabandsins. Verkið samanstendur af uppistandi, stuttum leikþáttum, eintölum, leikjum, dansnúmerum og frumsömdum og stórskemmtilegum sönglögum. Efniviðurinn er tekinn úr heimi glanstímarita eins og Séð & Heyrt, Hér & Nú og Vikunni sem og spjallþátta, bloggsíðna og annarra fjölmiðla sem hafa það að leiðarljósi að skemmta okkur íslendingum með dramatískum lífsreynslusögum og fréttum af fræga fólkinu.

Ávarp Alþjóða leiklistardagsins, 27. mars 2008

Benedikt Erlingsson:

(Flytjandinn skal vera alvarlegur og ávarpa okkur af einurð og einlægni.)

 

Kæru leikhússgestir.

 

Í dag er Alþjóða leiklistardagurinn .

Þá eru haldnar ræður og gefin ávörp.

Þið áhorfendur góðir fáið ekki að njóta leiksýningarinnar fyrr en sá sem hér stendur hefur lokið þessu ávarpi.

(Dok)

Þetta er svona um allan heim í dag.

Þessvegna er dagurinn kallaður Alþjóða leiklistardagurinn.

(Dok) 

Þessar ræður fjalla yfirleitt um getu leiklistarinnar til að stuðla að skilningi og friði þjóða í milli eða upphaf og tilgang sviðs listarinnar  í sögulegu ljósi og svona ræður hafa verið haldnar við upphaf leiksýninga á þessum degi síðan 1962 eða í 46 ár.

 

(þögn, nýr tónn.)

 

Samt er það svo að leiklistinni sem framin verður hér í kvöld er engin greiði gerður með þessu ávarpi.

(Stutt dok)

Höfundar sýningarinnar: Skáldið, leikstjórinn, leikhópurinn og  samverkamenn þeirra, gerðu ekki ráð fyrir svona ávarpi í upphafi leiks.

Þessi ræða er ekki partur af hinu ósýnilega samkomulagi sem reynt verður að gera við ykkur eftir andartak.

(Dok)

Leikararnir standa nú að tjaldabaki um allan heim í kvöld og bíða þess pirraðir að þessum ræðum ljúki og leikurinn megi hefjast. Þetta ávarp er ekki að hjálpa þeim.

(Dok)

Og svo eru það þið áhorfendur góðir.  Fæst ykkar áttuð von á þessari truflun. Ávarp vegna Alþjóða leiklistardagsins! Eitthvað sem þið vissuð ekki að væri til! Kannski setur þetta tal ykkur úr stuði og þið verðið ekki mönnum sinnandi í langa stund og náið engu sambandi við sýninguna.

 

(þögn, nýr tónn)

 

En ef til vill mun leiksýningin, sem hér fer í gang eftir andartak, lifa af þetta ávarp.

Ef til vill mun þetta tal eins og annað tal á hátíðisdögum hverfa úr huga ykkar undrafljótt.

Kannski mun leiklistin “lifa af ” Alþjóða leiklistardaginn og hrista hann af sér eins og svo margt annað í gegnum tíðina.

Hún er nefnilega eldra fyrirbrigði en Alþjóða leiklistardagurinn,  eins og sjálfsagt verður tíundað í ávörpum um allan heim í kvöld.

(Dok)

Sumir halda að hún eigi upphaf sitt í skuggaleik frummanna við varðeldanna í grárri forneskju.

Aðrir tengja upphafið við fyrstu trúarathafnir mannsins eða jafnvel fæðingu tungumálsins.

Samt er það svo, að þegar maður horfir á flug tveggja hrafna sem snúa sér á hvolf og fetta sig og bretta í hermileik háloftanna og að því er virðist  skellihlæja að leikaraskapnum, þá er ekki laust við að læðist að manni sá grunur að þessi göfuga list tilheyrir ekki okkur einum og upphaf hennar sé dýpra en… “við”.

Tilheyri kannski alveg eins fiskunum í sjónum.

 

(þögn, nýr tónn)

 

Þetta var heimspekilegi kafli þessa ávarps. Hér  fenguð þið það sem til var ætlast, nokkur orð um upphaf og eðli leiklistarinnar.

Ég vona að þessi orð muni stuðla að skilningi og friði þjóða í milli.

(Dok)

Kæru áhorfendur. Nú mun þetta tal taka enda og sá sem hér stendur mun þagna  svo átökin á sviðinu geti hafist.

Þeirra vegna erum við jú hér.

Þessu ávarpi er lokið.

Takk fyrir.

 

            (Ræðumaður hneigir sig og dregur sig í hlé án þess að brosa.)

 

            Leiðbeiningar:

            Dok =1-1,5sek.

            Þögn = 2 til 3sek

            Ef flytjandinn er lítt undirbúinn og því bundinn við blaðið þá ætti hann einungis að líta upp og á horfa á áhorfendur í dokum og þögnum.

            Nýr tónn= frjáls og fer eftir innsæi og smekk flytjandi hvort og hvernig.



Leiksýningar, leikárið 2006-2007

Samanlögð áætluð aðsókn að sýningum leikhúsa, atvinnuleikhópa og áhugaleikfélaga innanlands á leikárinu 2006–2007 nam laust innan við 440.000. Þessi fjöldi samsvarar því að hver landsmaður sæki leikhús 1,4 sinnum á ári. Leikuppfærslur voru samtals 247 talsins og heildarfjöldi sýninga rétt um 2.800.

Áætlaður heildarfjöldi gesta leikhúsa, leikhópa og félaga á leikárunum 2000/2001 til 2006/2007 er sýndur á meðfylgjandi mynd. Tekið skal fram að inni í tölum um aðsókn eru gestir á sýningar í skólum og á innlendar og erlendar gestasýningar. Uppfærslur nemenda eru undanskildar. Frá leikárinu 2000/2001 að telja og til loka síðasta leikárs fjölgaði gestum um tæplega 48.000, eða um 12 af hundraði. Heildarfjöldi leiksýningargesta á síðasta leikári nam nærri 30 prósentum af heildaraðsókn kvikmyndahúsanna árið 2006.

Leikhús
Á síðasta leikári voru starfrækt sjö atvinnuleikhús með aðstöðu í sex leikhúsum. Á vegum þeirra voru 13 leiksvið með um 3,000 sætum. Leikhúsin settu 95 uppfærslur á svið hér innanlands; þar af voru leikrit flest, eða 63 talsins. Samanlagður fjöldi sýninga var 1.224. Uppfærslur með verkum eftir íslenska höfunda voru 37, en eftir erlenda 51. Uppfærslur með verkum eftir innlenda og erlenda höfunda voru sjö. Leikhúsgestir voru samtals 259.038, að meðtöldum samstarfsverkefnum og gestasýningum. Sýningargestum fækkaði lítillega frá fyrra leikári, eða um nærri 3.000.

Atvinnuleikhópar
Atvinnuleikhópum hefur fjölgað talsvert undanfarin ár, eða úr 22 leikárið 2000/2001 í 38. Uppfærslum á þeirra vegum hefur fjölgað að sama skapi, en á síðasta leikári færðu atvinnuleikhópar upp á svið innanlands 79 verk samanborið við 30 á leikárinu 2000/2001. Leikrit og verk eftir innlenda höfunda eru uppistaðan í uppfærslum atvinnuleikhópa. Sýningar atvinnuleikhópa innanlands voru 1.357 að meðtöldum sýningum í samstarfi með leikhúsum og sýningum í skólum. Heildaraðsókn að þessum sýningum var 212.470. Sýningargestum atvinnuleikhópanna hefur fjölgað umtalsvert undangengin ár.

Áhugaleikfélög
Á næstliðnu leikári voru starfandi 40 áhugaleikfélög víðs vegar um landið. Uppfærslur á vegum félaganna voru á síðasta leikári 89, eða litlu fleiri en á leikárinu á undan. Tvær af hverjum þremur uppfærslum voru eftir innlenda höfunda. Fjölmargir einstaklingar koma að uppfærslum áhugaleikfélaga á ári hverju. Samanlagður fjöldi flytjenda á síðasta leikári var um 1.450 manns. Félögin sýndu 498 sinnum fyrir um  30.000 gesti.

Tölur Hagstofunnar um leiksýningar taka til leikhúsa, atvinnuleikhópa og áhugaleikfélaga. Tölur eru fengnar með góðfúslegu samþykki frá viðkomandi leikhúsum og leikhópum.

 

 


Upplýsingar eru fengnar á vef Hagstofunar: www.hagstofa.is

Þjónusta ekki ölmusa

Nú stendur yfir lokafrágangur á fjárlögum 2008 en Alþingi mun afgreiða þau fyrir áramót.  SL hefur í mörg ár barist fyrir auknu fjármagni fyrir atvinnuleikhópa með misjöfnum árangri.  Það sem kemur alltaf jafn mikið á óvart er hversu mörg rök eru fyrir auknu fjármagni til þessa málaflokks en samt gerist lítið.  Helstu staðreyndirnar sem hafa verið notaðar ár eftir ár eru oft kölluð VÁ!-in 5.

VÁ! 1: Atvinnuleikhópar eru að sýna fyrir 255 þúsund áhorfendur á síðasta leikári. Það er meira en Þjóðleikhúsið, LR, LA, ÍÓ og ÍD til samans!    

VÁ! 2. Atvinnuleikhópar eru að sýna fyrir 35 þúsund áhorfendur utan heimabyggðar.  

VÁ! 3. Atvinnuleikhópar eru að sýna allt upp í 9 leiksýningar fyrir 25 þúsund áhorfendur erlendis.  

VÁ! 4. Atvinnuleikhópar sýna um 80 leiksýningar á ári og þar af eru um 80% frumsamin ný íslensk leikrit.

VÁ 5. Það eru 58 leikhópar í SL og innan þeirra starfa háskólamenntaðir listamenn.

Ennþá hafa atvinnuleikhópar aðeins aðgang að 5% af því heildarfjármagni sem rennur til sviðslista á Íslandi.  Nú er lag fyrir kjörna fulltrúa okkar að efla nýsköpun, útrás og frumkraftinn sem býr í SL.

Viðhorfið til fjármögnunar opinnberra aðila á listsköpun hefur oft fengið á sig ölmusu stimpilinn.  Slíkt er ekki réttlátt.   Ef hið opinbera ákveður að byggja veg þá er nokkuð ljóst að verktakinn fær ekki aðeins hluta af því fjármagni sem framkvæmdin kostar.  Hann fær það greitt að fullu enda er hann að veita þjónustu til samfélagsins til jafns á við listamenn.  Slíkur veruleiki er hinsvegar ekki til staðar hjá atvinnuleikhópum en leiklistarráð leggur aðeins til 50% af því fjármagn sem uppsetningin kostar hjá aðeins 8-10 leikhópum árlega- aðrir verða að fjármagna sig að fullu sjálfir .   Það er spurning hvort að SL þurfi ekki að fara að senda áhorfendur heim í hléi til að minna á að miða við aðkeypta þjónustu hins opinbera er ekki gert ráð fyrir síðari hálfleik....  Ætli það muni hafa áhrif á stjórnmálamenn ef að það væru 255 þúsund manns óánægðir í samfélaginu?


Innrás fyrst - svo útrás

Í öllu tali um útrás þessa og útrás hins kemur upp í hugann sú grundvallar staðreynd sem oft vantar í umræðuna, að það þarf að byggja upp og styðja við bakið á vaxtasprotunum hér heima áður en farið er í útrás.   Frumsköpunin á sér stað hér heima.  Í könnun sem var gerð úti í hinum stóra heimi og kynnt hér á landi á dögunum, kom í ljós að Ísland er ekki þekkt fyrir menningu erlendis.  Samt erum við mestu menningarneytendur, miða við höfðatölu, sem um getur.  Við teljum okkur vera upplýst og með á nótunum þegar kemur að öllum þeim straumum og stefnum er viðkemur menningu og listum.  En á hverju stoppar útrás menningu og lista?  Einhver skref hafa verið tekin af stjórnvöldum m.a. á sviði tónlistar í að efla kynningu á íslenskri menningu.  Hins vegar hefur ekkert bólað á aðgerðum til að styðja við bakið á íslenskum sviðalistum og sviðslistamönnum í útrásinni.

Sjálfstæðir atvinnuleikhópar á Íslandi hafa barist fyrir auknu fjármagni frá opinberum aðilum til að geta unnið að listsköpun hér heima.   Það fjármagn sem er í boði nemur aðeins 5% af því heildar fjármagni sem rennur til sviðslista á Íslandi.  Þessu fjármagni hefur verið deilt út til ca. 10 hópa á ári.  Samt eru um 60-80 leiksýningar sýndar á hverju leikári á vegum þessara hópa.  Þessi mikla gróska hefur orðið til þess að listamenn gefa oft vinnu sína.  Slíkt gengur ekki til lengdar. Það hefur sýnt sig að meðal líftími atvinnuleikhóps eru að hámarki 5 ár en flestir gefast þá upp og hverfa til annarra starfa.  Þar með hverfur mikil þekking og reynsla á rekstri út úr sjálfstæðum atvinnuleikhópum sem verður til þess að endurnýjunin og samfellan í starfseminni er lítil sem engin.  Nýir hópar verða til, með nýju fólki sem þarf að reka sig á í stað þess að vinna við hlið þeirra sem hafa kunnáttuna og þekkinguna.

Það hefur færst í aukana að frjálsum atvinnuleikhópum er boðið að sýna á hátíðum og leikhúsum erlendis.  Það gerist þó oftar, að ekki er hægt að verða við óskum erlendis frá þar sem kostnaður við slíkar leikferðir er mikill og aðgangur að fjármagni takmarkaður og í engu samræmi við umfang og þörf.  Í sumum tilvikum hefur verið brugðið á það ráð að  fá listamennina til að fjármagna sínar ferðir sjálfir til að hægt sé að fara með verkin út.  Eftirspurnin eftir íslenskum uppsetningum frá útlöndum er gríðarleg og sorglegt að ekki skuli vera hægt að þiggja nema brot af þeim boðum sem hingað berast. 

Eitt mikilvægt skref var stigið fyrir um ári síðan.  Þá undirrituðu Reykjavíkurborg, Icelandair, Félag Íslenskra Leikar, Félag Leikstjóra á Íslandi og Félag Leikskálda og Handritshöfunda samkomulag um Talíu, loftbrú.  Slíkur samningur hefur gert fleirum kleift að sýna sýningar sínar erlendis.  Slíkt samkomulag er þó aðeins eitt skref af mörgum sem verður að taka hér heima áður en lengra er haldið.  Aukin fjárstuðningur við atvinnuleikhópa er frumforsenda þess að við höfum eitthvað fram að færa í hinum stóra heimi.  Hefjum innrásina - útrásin kemur í kjölfarið.


Tilnefndar stuttmyndir voru frumsýndar í Tjarnarbíói

Tilnefningar til Edduverðlaunanna voru tilkynntar í síðustu viku. Ánægjulegt var að sjá að allar stuttmyndirnar þrjár sem eru tilnefndar voru frumsýndar í Tjarnarbíói. Eru þetta stuttmyndirnar Bræðrabylta í leikstjórn Gríms Hákonarson, Anna í leikstjórn Helenu Stefánsdóttur og Skröltormar í leikstjórn Hafsteins G. Sigurðssonar.

Með tilkomu sýningarvélar og tjalds Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Tjarnarbíói hafa kvikmyndasýningar aukist til muna í leikhúsinu, bæði á vegum Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar og Fjalakattarins sem og annarra óháðra aðila. Er þetta SL mikið gleðiefni þar sem stefna SL í rekstri hússins er að koma á fót sviðslista- og kvikmyndamiðstöð í hjarta miðborgarinnar.

SL hefur rekið Tjarnarbíó fyrir Reykjavíkurborg undanfarinn áratug. Fyrir tveimur árum lét SL gera viðamikla úttekt á húsinu, með styrk frá Reykjavíkurborg og menntamálaráðuneyti, með það að leiðarljósi að gera leikhúsið nýtilegt fyrir sjálfstæða atvinnuleikhópa. Niðurstaða skýrslunnar var að ef bjarga á húsinu frá niðurníslu þarf að ráðast í endurbætur á því. Endurreist Tjarnarbíó yrði einnig þakklát viðbót við menningarlíf höfuðborgarinnar.

Hugmyndin er að koma á samfelldri starfsemi allt árið um kring með áherslu á nýsköpun í sviðslistum og að búa til vettvang fyrir framsæknar sýningar sjálfstæðra atvinnuleikhópa. Eins er gert ráð fyrir að kvikmyndasýningar verði fastur liður í starfseminni. Reykvíkingar myndu eignast leik- og kvikmyndahús í hjarta borgarinnar sem yrði sívirk kvika í menningarlífinu.

Að auki myndi endurreist Tjarnarbíó verða einskonar miðstöð fyrir starfsemi allra sjálfstæðra atvinnuhúsa og leikhópa. Aðildafélög SL eru 57 talsins og árlega frumsýna þau milli 20 og 30 sviðsverk og fá til sín í kringum 200.000 áhorfendur, en þess má geta að það eru fleiri en sjá sýningar LR, LA og Þjóðleikhússins samanlagt. SL hefur áform um að koma upp fræðslu- og menningarsetri atvinnuleikhópanna þar sem hægt verður að sækja upplýsingar um rekstur leikhúsa, uppsetningar og fleira sem snýr að rekstri leikhópa. Með miðstöð í Tjarnarbíói á einnig að vera hægt að samhæfa markaðssetningu leikhópanna og koma loks upp sameiginlegri miðasölu.

Nú þegar er kominn vísir að því sem koma skal með þeim gæða stuttmyndum og kvikmyndum í fullri lengd sem sýndar hafa verið undanfarið ár í Tjarnarbíói. Eins standa um þessar mundir yfir æfingar sjálfstæða atvinnuleikhópsins Fjalakattarins á Heddu Gabler. Þetta sambland sviðslista- og kvikmyndasýninga gefur húsinu sérstöðu og gefur fólki kost á að leita í Tjarnarbíó ef það vill sjá óháðar spennandi sýningar.

Borgarfulltrúar í Reykjavíkurborg hafa verið jákvæðir í garð verkefnisins og sýnt því nokkurn áhuga. Er það von okkar í SL að nýr meirihluti borgarinnar ýti verkefninu úr vör og tryggi þessu fallega leikhúsi framtíð í borginni.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband